Halla Gunnarsdóttir
Halla Gunnarsdóttir
Eftir Höllu Gunnarsdóttur: "Það er ótrúlegt ... að meirihluti Hæstaréttar hafi tekið sér það vald að ákveða að blaðamenn teljist aðeins blaðamenn fyrir réttinum að þeir starfi fyrir ákveðinn miðil."

Þann 2. júní 2010 kvað dómari við Héraðsdóm Reykjavíkur upp ellefu samhljóða úrskurði um lokun réttarhalda í svonefndu Catalinu-máli, en sakborningar voru allir ákærðir fyrir kaup á vændi. Þetta var í fyrsta sinn sem reyndi á nýja löggjöf, að sænskri fyrirmynd, um bann við kaupum á vændi en sú löggjöf er í samræmi við aukna þekkingu á orsökum og afleiðingum vændis. Meginregla í íslensku sakamálaréttarfari er að þinghöld skuli haldin í heyranda hljóði, líkt og kveðið er á um í stjórnarskrá. Dómara er hins vegar fengin heimild til að loka réttarhöldum „til að gæta velsæmis, allsherjarreglu, öryggis ríkisins eða hagsmuna málsaðila.“ Ákvörðun sína rökstuddi dómarinn við Héraðsdóm Reykjavíkur með vísan til velsæmis og til þess að vernda þyrfti sakborningana og aðstandendur þeirra. Hvorki fylgdi frekari útlistun á velsæmishugtakinu né útskýring á hvers vegna sakborningar í þessum málum þyrftu verndar við umfram aðra sakborninga.

Rétt er að taka fram að í kynferðisbrotamálum eru réttarhöld öllu jafna lokuð. Er það réttlætanlegt til verndar brotaþola, enda búum við því miður í samfélagi þar sem ábyrgð á kynferðisofbeldi er enn að hluta til varpað á þann sem fyrir ofbeldinu verður, fremur en einvörðungu þann sem beitir því, líkt og rétt væri. Þótt staða þolenda í vændismálum sé lagalega ólík stöðu brotaþola í öðrum kynferðisbrotum hefði getað komið til álita að loka vitnaleiðslum yfir vændiskonunum sem um ræddi þeim til verndar. Það sjónarmið var hins vegar fyrirferðarlítið í ákvörðun dómarans.

Blaðamaður, en ekki blaðamaður

Samkvæmt sakamálalögum getur sá sem sættir sig ekki við ákvörðun dómara um lokað þinghald krafist þess að kveðinn verði upp úrskurður um lokunina, sem síðan er kæranlegur til Hæstaréttar. Ekki er nánar tilgreint hverjir geti krafist þess að slíkur úrskurður sé upp kveðinn en í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að úrræðið geti ekki aðeins nýst brotaþola heldur einnig öðrum. Fréttamenn eru nefndir þar í dæmaskyni, með vísan í dóm Hæstaréttar frá árinu 2000 þar sem fréttamaðurinn Þór Jónsson fór fram á opnun réttarhalds yfir manni sem var ákærður fyrir nauðgun og morð. Hæstiréttur tók málið fyrir en staðfesti úrskurð Héraðsdóms Reykjaness um lokuð þinghöld. Með vísan í ofangreint kærði sú sem þetta ritar ákvörðun héraðsdómarans til Hæstaréttar og gerði það sem blaðamaður, talskona Femínistafélags Íslands og almennur borgari. Var í greinargerð með kærunni m.a. vísað til þess markmiðs laganna um vændi að sporna gegn eftirspurn og bent á að „óþægindi einstaklings“ gætu ekki vegið þyngra en sjónarmið um að treysta réttaröryggi aðila, styrkja tiltrú almennings á réttarkerfinu og veita dómurum aðhald í störfum sínum. Þriggja manna dómur Hæstaréttar klofnaði í afstöðu sinni til málsins en meirihlutinn ákvað að vísa málinu frá á þeirri forsendu að kærandi hefði ekki lögvarða hagsmuni í málinu. Í niðurstöðu meirihluta Hæstaréttar er hvergi rökstutt hvers vegna ég, sem þá hafði haft blaðamennsku að aðalstarfi í sex ár, hlaut aðra meðferð en kollegi minn tíu árum fyrr. Af sératkvæði minnihluta réttarins má draga þá ályktun að það hafi m.a. verið vegna þess að í greinargerð með kærunni var ekki vísað til sérstaks fjölmiðils. Það er ótrúlegt – og alfarið á skjön við veruleikann í íslenskri blaðamannastétt þar sem fjöldi fólks starfar sem lausapennar – að meirihluti Hæstaréttar hafi tekið sér það vald að ákveða að blaðamenn teljist aðeins blaðamenn fyrir réttinum að þeir starfi fyrir ákveðinn miðil.

Minnihluti Hæstaréttar var á annarri skoðun hvað þetta varðar og taldi jafnframt rétt að taka málið fyrir á grundvelli þess að það var sett fram í nafni Femínistafélags Íslands en félagið hafði allt frá stofnun árið 2003 barist fyrir því að kaup á vændi yrðu gerð refsiverð.

Í stuttu máli er hin þrönga túlkun meirihluta Hæstaréttar á annars víðu lagaákvæði sakamálalaganna afar illa rökstudd.

Vernd fyrir hverja?

Nú bregður svo við, rúmu ári eftir ákvörðun um hin lokuðu réttarhöld yfir vændiskaupendunum, að beiðni lögmanns konu sem ákærð er fyrir að hafa banað nýfæddu barni sínu er synjað. Í rökstuðningi dómara Héraðsdóms Reykjavíkur segir m.a: „Það þurfa að vera ríkar ástæður til þess að víkja frá meginreglunni um að þinghöld í sakamálum séu opin. Nær öllum sakborningum er það erfitt, og sumum mikil raun, að sitja í þinghaldi þar sem fjallað er um ákærur á hendur þeim.“ Ekki nóg um að þessi úrskurður sé kveðinn upp af sama dómstóli og lokaði réttarhöldum í málefnum vændiskaupendanna, heldur einnig af sama dómara. Í staðfestingu á úrskurðinum vísar Hæstiréttur til þess að þar sem lokun réttarhalda sé undantekning frá meginreglu þá skuli skýra ákvæðið þröngt! Þessi ólíka málsmeðferð hlýtur að vekja upp spurningar. Hvaða sjónarmið ráða för? Hagsmuni hverra vilja dómstólar vernda?

Að lokum set ég í auðmýkt fram örlitla hvatningu til þeirra sem þetta lesa og kunna að vera á öndverðum meiði að gera formið ekki að aðalatriði heldur innihaldið. Sanngjörn gagnrýni og samtal getur aldrei verið af hinu illa.

Höfundur er aðstoðarmaður innanríkisráðherra.