Hollensk rannsóknarnefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu að tugir þúsunda barna kunni að hafa verið fórnarlömb kynferðisbrota í kaþólskum stofnunum í Hollandi frá 1945.

Hollensk rannsóknarnefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu að tugir þúsunda barna kunni að hafa verið fórnarlömb kynferðisbrota í kaþólskum stofnunum í Hollandi frá 1945. Í skýrslu nefndarinnar eru yfirmenn kaþólsku kirkjunnar gagnrýndir fyrir að hafa látið hjá líða að binda enda á kynferðislegt ofbeldi í skólum og munaðarleysingjahælum kirkjunnar.

Í skýrslunni er áætlað að 10.000-20.000 börn hafi verið fórnarlömb kynferðisbrota í stofnunum kirkjunnar á árunum 1945 til 1981 og þúsundir barna á síðustu 30 árum. Í flestum tilvikum hafi prestar eða aðrir starfsmenn káfað á börnunum en nefndin telur að þúsundum barna hafi verið nauðgað, að sögn fréttavefjar BBC.

Nefndin segir að eitt af hverjum fimm börnum hafi verið fórnarlömb kynferðisbrota í öllum skólum og hælum landsins, óháð því hvort kaþólska kirkjan rak þau.