Eskimóar Félagarnir í tríóinu Hot Eskimos með teiknuðum hljóðfærum. Songs from the top of the world er fyrsta plata tríósins.
Eskimóar Félagarnir í tríóinu Hot Eskimos með teiknuðum hljóðfærum. Songs from the top of the world er fyrsta plata tríósins.
Helgi Snær Sigurðsson helgisnaer@mbl.is Hot Eskimos nefnist djasstríó, nýtt af nálinni, skipað þeim Karli Olgeirssyni píanóleikara, Kristni Snæ Agnarssyni trommuleikara og Jóni Rafnssyni kontrabassaleikara.

Helgi Snær Sigurðsson

helgisnaer@mbl.is

Hot Eskimos nefnist djasstríó, nýtt af nálinni, skipað þeim Karli Olgeirssyni píanóleikara, Kristni Snæ Agnarssyni trommuleikara og Jóni Rafnssyni kontrabassaleikara. Tríóið sendi fyrir skömmu frá sér sína fyrstu plötu, Songs from the top of the world, sem hefur að geyma djassaðar útgáfur af íslenskum lögum og það afar ólíkum innbyrðis. Má þar nefna „Rúdolf“ með hljómsveitinni Þey, Evróvisjónlagið „Is It True?“ sem Jóhanna Guðrún flutti, „Army of Me“ með Björk og „Stolt siglir fleyið mitt“ með Áhöfninni á Halastjörnunni. „Þetta var gömul hugmynd frá mér að taka svolítið óvenjuleg lög og ólíkleg til djassflutnings,“ segir Karl um plötuna.

Tekíla, Brennivín og súraldin

– Hvaðan er nafnið komið, Hot Eskimos?

„Það var nú þannig að kærastan mín var árið 1998 að vinna á bar og hana dreymdi drykk, hún vaknaði með uppskrift í kollinum að drykk sem var gjörsamlega viðbjóðslegur, ég var látinn prófa hann. Í honum var tekíla, Brennivín og lime í jöfnum hlutföllum og við gáfum þessum drykk nafnið Hot Eskimo af því það var bæði Brennivín og tekíla í honum. Nafnið fannst mér skemmtilegt þannig að ég nefndi fyrirtækið mitt Hot Eskimo Music og núna þegar við stofnuðum þetta tríó fannst mér upplagt að setja þetta á hljómsveitina.“

– Þið eruð ekki hræddir um að þeir sem sækja tónleika ykkar eigi von á kynþokkafullum eskimóum?

„Ef við náum að selja fleiri miða út á nafnið er það bara frábært,“ svarar Karl kíminn. Þeir félagar stefni að tónleikahaldi á næsta ári, hér á landi sem og erlendis og muni þá flytja lögin á plötunni auk annarra.

Áhugasamir geta fylgst með Hot Eskimos á fésbókarsíðu tríósins.