Ekki er hægt að segja að ensku liðin hafi dottið í lukkupottinn þegar dregið var í Meistaradeild Evrópu og Evrópudeild UEFA í Sviss gær.

Ekki er hægt að segja að ensku liðin hafi dottið í lukkupottinn þegar dregið var í Meistaradeild Evrópu og Evrópudeild UEFA í Sviss gær.

Chelsea dróst á móti ítalska liðinu Napoli í 16 liða úrslitum Meistaradeildarinnar og verður þetta í fyrsta skipti sem félögin mætast í Evrópukeppninni. Chelsea mun örugglega taka lið Napoli alvarlega en liðið komst í 16 liða úrslitin á kostnað Manchester City. Chelsea hefur ekki gengið vel á Ítalíu en liðið hefur aðeins innbyrt einn sigur á útivelli gegn ítölsku liði.

Arsenal leikur gegn sjöföldum Evrópumeisturum AC Milan en liðin áttust við á sama stað í keppninni tímabilið 2007-08 þar sem Arsenal hafði betur samanlagt, 2:0. Liðin skildu jöfn, 0:0, á Emirates Stadium en Arsenal fagnaði 2:0 sigri á San Síró með mörkum frá Cesc Fabregas og Emmanuel Adebayor sem báðir eru horfnir á braut frá Lundúnaliðinu. AC Milan á ekki góðar minningar frá viðureignum gegn enskum liðun en Tottenham sló Milan út á síðustu leiktíð og Manchester United árið á undan.

Evrópumeistarar Barcelona mæta þýska liðinu Bayer Leverkusen, sem komst í úrslit Meistaradeildarinnar árið 2002 en tapaði þar fyrir Real Madrid.

Real Madrid, sem vann alla sex leiki sína í riðlakeppninni ætti að eiga greiða leið í átta liða úrslitin en liðið mætir CSKA Moskva.

Liðin sem mætast:

Lyon – APOEL Nicosia

Napoli – Chelsea

AC Milan – Arsenal

Basel – Bayern München

Bayer Leverkusen – Barcelona

CSKA Moskva – Real Madrid

Zenit St. Pétursborg – Benfica

Marseille – Inter Mílanó

Manchester-liðin mæta sigursælum liðum

Íbúar í Manchester hafa líklega sleppt því að fylgjast með drættinum í Meistaradeildinni enda eru Manchester-liðin bæði í Evrópudeildinni og hafa verk að vinna í 32 liða úrslitunum. Bæði liðin drógust á móti sigursælum liðum sem bæði hafa hampað Evrópumeistaratitlinum.

Englandsmeistarar Manchester United leika gegn hollensku meisturunum í Ajax þar sem Kolbeinn Sigþórsson verður vonandi kominn aftur á ferðina eftir meiðsli. Ajax státar af fjórum Evrópumeistaratitlum og hefur einnig unnið Evrópumeistaratitil bikarhafa og UEFA-bikarinn.

„Ajax er með gott lið sem ég hef aldrei mætt í Evrópukeppni. Ég hlakka til þessara leikja,“ sagði Sir Alex Ferguson, knattspyrnustjóri United.

Manchester City leikur við Porto sem vann sigur í Evrópudeildinni á síðustu leiktíð og vann Meistaradeildina á eftirminnilega hátt árið 2004.

Jóhann Berg Guðmundsson og félagar í hollenska toppliðinu AZ Alkmaar fara ekki langt því þeir mæta belgíska liðinu Anderlecht í Niðurlandaslag.

Þessir leikir eru í 32ja liða úrslitum. Sigurvegarar úr tveimur fyrstu mætast í 16 liða úrslitum keppninnar, sigurvegarar í þriðja og fjórða leik, o.s.frv.:

Legia Varsjá – Sporting Lissabon

Porto – Manchester City

Ajax – Manchester United

Lokomotiv Moskva – Athletic Bilbao

Salzburg – Metalist Kharkiv

Rubin Kazan – Olympiacos

Steaua Búkarest – Twente

Viktoria Plzen – Schalke

Wisla Kraków – Standard Liege

Hannover – Club Brugge

Stoke City – Valencia

Trabzonspor – PSV Eindhoven

AZ Alkmaar – Anderlecht

Udinese – PAOK Saloniki

Lazio – Atlético Madrid

Braga – Besiktas

gummih@mbl.is