Klara Klængsdóttir fæddist í Reykjavík 24. ágúst 1920. Hún lést á Hlaðhömrum 30. nóvember 2011.
Útför Klöru Klængsdóttur var gerð frá Lágafellskirkju 13. desember 2011.
Hún Klara mín er farin, farin í ferðina löngu svo fyrirvaralaust, ég trúi því varla að hún sé ekki hér.
Hún sem sat alltaf í horninu sínu við gluggann í dagstofunni á Hlaðhömrum, las morgunblöðin eða prjónaði, svo kunni hún svo mikið af alls konar ljóðum og vísum og mikið hafði hún gaman af söng. Það var svo mikið líf í kringum Klöru, það komu allir og settust í kringum hana og röbbuðu saman, sungu jafnvel og hlógu og höfðu gaman, svo létt og skemmtilegt. Nú situr enginn við gluggann og fylgist með hverjir koma og hverjir fara, allt er orðið hljótt í dagstofunni. Staðurinn er ekki sá sami, það vantar svo mikið, það vantar Klöru.
Ég bið góðan Guð að blessa aðstandendur Klöru með kæru þakklæti fyrir allt.
Hvíl í friði, elsku Klara mín, Guð blessi þig og hafðu þökk fyrir allt og allt.
Ég fel í forsjá þína,
Guð faðir, sálu mína,
því nú er komin nótt.
Um ljósið lát mig dreyma
og ljúfa engla geyma
öll börnin þín, svo blundi rótt.
(Matthías Jochumsson)
Þín einlæg vinkona,
Margét
Jakobína Ólafsdóttir.
Þótt ég lesi golfrönsku og skollaþýsku
og sitji hokinn yfir handritum
ber mig iðulega að sama brunni:
inn í sjö ára bekk til Klöru
þegar Gagn og gaman og Talnadæmin
töldust til heimsbókmenntanna
og framtíðin var eins og ónotuð teikniblokk.
Í nestistímanum sagði hún okkur ævintýri
um prinsa og prinsessur, álfa og tröll
sem við kyngdum niður með kæfubrauði
og volgri mjólk úr flösku.
Þegar skólabjallan hringdi í síðasta sinn
kvaddi hún okkur á hlaðinu við Brúarland;
það var sólskin á vori lífsins og hún sagði:
góða ferð, skólabörnin mín öll.
Bjarki Bjarnason.