Sparisjóður Ekki eru öll málefni stofnfjáreigenda sparisjóða leyst.
Sparisjóður Ekki eru öll málefni stofnfjáreigenda sparisjóða leyst. — Morgunblaðið/RAX
Kristján H. Johannessen khj@mbl.

Kristján H. Johannessen

khj@mbl.is

„Við trúum eiginlega ekki öðru en að jafnræðisreglan verði látin gilda hjá ríkinu í þessu eins og svo mörgu öðru,“ segir Jóhann Ólafsson, formaður Samtaka stofnfjáreigenda Sparisjóðs Svarfdæla, eftir ákvörðun Landsbankans þess efnis að fella niður fjölda lána sem bankinn hafði veitt bæði einstaklingum og lögaðilum til kaupa á nýju stofnfé í Sparisjóðnum í Keflavík, Sparisjóði Vestfirðinga og Sparisjóði Húnaþings og Stranda.

Samkvæmt upplýsingum frá Landsbankanum er um að ræða ríflega 500 lán til einstaklinga og 30 lán til lögaðila.

Lán til stofnfjáreigenda Sparisjóðs Svarfdæla hafa þó ekki verið felld niður þar sem þau eru bundin inni í Seðlabanka Íslands. Ríkir því enn nokkur óvissa í málefnum þeirra.

Krafist ógildingar

„Við munum skoða okkar stöðu alveg niður í kjölinn. Þetta er sami aðili; ríkið, eigandi Landsbankans og Seðlabankinn [...] þar sem okkar lán eru,“ segir Jóhann og bætir við að hann gleðjist nokkuð yfir fréttum gærdagsins.

Reimar Pétursson er lögmaður stofnfjáreigenda Sparisjóðs Svarfdæla. „Við erum búnir að höfða mál gegn því félagi sem heldur á þessum lánum og gera kröfu um að fá viðurkenningu á ógildi þeirra,“ segir Reimar og bætir við að verði ekki fallist á það verði þess jafnframt krafist í því máli að sparisjóðurinn, fyrrverandi stjórn hans og sparisjóðsstjóri ásamt KPMG, endurskoðanda sparisjóðsins, bæti fólki það tjón sem af hlýst verði lánin ekki ógilt.