Hnífsdalur Sjávarútvegurinn er burðarás atvinnulífs vestra.
Hnífsdalur Sjávarútvegurinn er burðarás atvinnulífs vestra.
„Sóknarfærin í atvinnulífinu eru að mínu viti að mestu í sjávarútvegi.

„Sóknarfærin í atvinnulífinu eru að mínu viti að mestu í sjávarútvegi. Þar nefni ég sérstaklega aukna fullvinnslu afurða,“ segir Finnbogi Sveinbjörnsson formaður Verkalýðsfélags Vestfjarða í riti Útvegsmannafélags Vestfjarða sem fylgdi Ísafjarðarblaðinu Bæjarins besta á dögunum. Hann segir vissulega ýmsar hindranir í veginum svo sjávarútvegur í fjórðungnum og vaxtarbroddar hans nái að dafna. Hann nefnir þar m.a. flutningskostnað og háa útflutningstolla á hrávöru.

„Margt jákvætt hefur litið dagsins ljós svo sem aukin þörungavinnsla, bláskeljarækt, framleiðsla lækningavara, stóraukið fiskeldi og betri nýting aukaafurða sjávarfangs,“ segir Finnbogi. Nálægðin við fiskimiðin veita vestfirsku atvinnulífi visst forskot, segir Finnbogi.

„Hér er góð verkþekking til staðar í sjávarútvegi. Henni verður að viðhalda með öllum tiltækum ráðum. Við þurfum að leggja meira af þeim fjármunum sem auðlindin skapar okkur í að viðhalda tækjum og þekkingu, því ef þekkingin hverfur af svæðinu er næsta víst að erfitt verður að byggja upp fjölþættara atvinnulíf.“

Sköpum sátt

Finnbogi segist hafa verulegar áhyggjur af þeirri óvissu sem nú ríki um sjávarútveginn og hagsmunamál hans. Nóg sé komið af karpi fram og til baka.

„Hagsmunir Vestfirðinga eru sannarlega ríkir í þessum efnum, hátt hlutfall íbúa á Vestfjörðum sem hefur tekjur af sjávarútvegi er skýrasta dæmið. Ég vona bara að breytingar í fiskveiðistjórnun verði ekki keyrðar áfram af of miklu kappi,“ segir Finnbogi.

karlesp@simnet.is