Jón Ragnar Ríkarðsson
Jón Ragnar Ríkarðsson
Eftir Jón Ragnar Ríkharðsson: "Það hefur ekkert barn beðið skaða af því að fá að kynnast fræðslu kirkjunnar þjóna."

Ég á góðar bernskuminningar um prest sem ferðaðist á reiðhjóli og seildist í vasa sinn eftir sælgætismola handa okkur. Hann ræddi við okkur um Guð og var frekar óhress ef við mættum ekki í sunnudagaskóla kirkjunnar. Oftast mættum við á sunnudagsmorgnum, fengum Jesúmyndir og tókum þátt í helgihaldinu.

Engan hef ég hitt sem beðið hefur skaða af því, þvert á móti eru þetta ljúfustu bernskuminningarnar af mörgum ansi góðum.

Í Reykjavíkurborg komst afar sérstætt fólk til valda og nú er svo komið, að stjórnendur höfuðborgarinnar telja presta vera hættulega börnum, þ.e.a.s. ef þeir koma til barnanna á skólatíma.

Það ríkja erfiðir tímar hjá mörgum um þessar mundir. Fjöldi fólks er án atvinnu, með óyfirstíganlegar skuldir o.s.frv., slíkt ástand veldur reiði, ótta og mikilli streitu og börnin skynja þetta allt hjá foreldrum sínum.

Þess vegna er mikil þörf á því, að prestar komi í skólana og biðji með börnunum, tali við þau og sýni þeim vináttu og hlýhug.

En meðlimir Vantrúar og Siðmenntar segja að það eigi ekki að skrökva að börnum, þau vilja meina að Guð sé ekki til, en slíkt er vitanlega algjör della.

Haft er eftir Stephen Hawkins, sem þykir einn fremsti vísindamaður á sviði eðlisfræði, margir bera hann saman við Einstein, að það sé vonlaust að afsanna tilvist Guðs.

Gott og vel, einn fremsti raunvísindamaður heims, sem í mörg ár hefur sökkt sér ofan í sköpun heimsins, treystir sér ekki til að afsanna tilvist skaparans, en á sama tíma er hópur fólks á Íslandi sem telur sig geta það.

Nú getur fólk spurt sig að því, hvort beri að taka mark á fremsta raunvísindamanni veraldar eða litlum hópi fólks á Íslandi, sem ekki hefur rannsakað eðlisfræði eða raunvísindi jafnítarlega og Stephen Hawkins. Einstein gat heldur aldrei afsannað tilvist Guðs, hann taldi það ómögulegt og var hann þó enginn aukvisi í raunvísindum eins og flestir vita.

Þrátt fyrir margra alda rannsóknarvinnu hefur mannkyni ekki enn tekist að sanna til fulls, né afsanna, tilvist skaparans og á meðan svo er verður hver að spyrja sinn innri mann ráða í því efni, en ekki koma með fullyrðingar út í bláinn.

Nú er það svo, með þá í Siðmennt og Vantrú, að þeir virðast trúaðri á sinn boðskap en flestir trúmenn eru. Sjálfur er ég mjög trúaður á tilvist Guðs, fer reglulega með bænir mér til sáluhjálpar og fletti í hinni helgu bók. En komið hafa stundir hjá mér, þar sem ég efast um tilvist Guðs, sömu sögu held ég að flestir trúmenn hafi að segja. En hvort Guð er til eða ekki til skiptir ekki höfuðmáli, heldur er það boðskapur kristinnar trúar og sú sáluhjálp sem hún veitir, það skiptir miklu máli.

Í hinum kristna heimi ríkir meiri friðsæld en í öðrum löndum ásamt ríkara umburðarlyndi, minni fátækt o.s.frv.

Þar sem ekki er til neitt land sem byggist á trúleysi, hvernig dettur þá þessum ofsatrúuðu trúleysingjum í hug að skynsamlegt sé að gera slíka tilraun á Íslandi á sama tíma og allt er í upplausn?

Nú sem aldrei fyrr þarf þjóðin á kirkjunni að halda og sérstaklega börnin. Það er röng stefna foreldra að vilja ekki að börnin kynnist fegurð trúarinnar og nái að tileinka sér kærleiksboðskap þann sem hún hefur fram að færa.

Þjóðin þráir og þarf kærleik, börnin eru dýrmætustu Íslendingarnir og okkur ber að bera hag þeirra fyrir brjósti. Það hefur ekkert barn beðið skaða af því að fá að kynnast fræðslu kirkjunnar þjóna. Góður prestur fær stað í hjarta barnsins og hann dvelur þar alla ævi; jafnvel þótt barnið kjósi á fullorðinsárum að afneita trú, þá hverfur kærleikurinn aldrei.

Á erfiðustu tímum heimsins hefur fólk fundið skjól í trúnni, trúin hefur gefið von og trú um betri tíð, ef ekki núna þá í næsta lífi. Það er líka dýrmætt að finna tilgang með lífinu þegar allt virðist tilgangslaust.

Það er borgarstjórn til ævarandi skammar að láta vafasöm sjónarmið sem engum tilgangi þjóna, öðrum en þeim að halda fámennum hópi trúlausra í sigurvímu, ráða för og svipta börnin hjálpræði kirkjunnar.

Höfundur er sjómaður.