Eftir fall íslensku bankanna er margt talað um nauðsynlega siðbót í viðskiptum. En hvert er siðferði viðskipta? Vel var komið orðum að því fyrir röskum átta hundruð árum í Árna sögu biskups (45.

Eftir fall íslensku bankanna er margt talað um nauðsynlega siðbót í viðskiptum. En hvert er siðferði viðskipta? Vel var komið orðum að því fyrir röskum átta hundruð árum í Árna sögu biskups (45. kafla), þegar sagði frá kröfum íslenskra bænda við lögtöku Jónsbókar , „að öll falslaus kaup skyldu föst vera, þau sem einskis manns rétti væri hrundið í“. Með þessu voru þrjú skilyrði sett fyrir eðlilegum viðskiptum: 1) samningar skyldu standa, 2) en ekki mætti beita blekkingum 3) né brjóta í viðskiptunum rétt á þriðja manni.

Siðferði viðskipta er lágmarkssiðferði. Það kveður aðeins á um þetta þrennt, en ekki hitt, að kaupmenn og viðskiptavinir þeirra eigi til dæmis að vera hugrakkir, örlátir, fórnfúsir, góðgjarnir eða þjóðhollir. Þetta getur þó verið kostur frekar en galli, því að það gerir ólíkum mönnum kleift að vinna saman. Þeir þurfa ekki að koma sér saman um neitt annað en viðskiptin sjálf. Kaupmaðurinn í Feneyjum í leikriti Shakespeares orðaði þetta skýrt, þegar hann sagði við kristna viðskiptavini: „Ég vil semja við ykkur, kaupa við ykkur, ganga með ykkur, ræða við ykkur, og allt það; en ég vil ekki snæða með ykkur, drekka með ykkur, né biðja með ykkur. Hvað er að frétta úr kauphöllinni?“

Í viðskiptum tengir gagnkvæmur hagur menn saman. Greining Adams Smiths í Auðlegð þjóðanna frá 1776 (I. bók, 2. kafla) er sígild: „Það er ekki vegna góðvildar slátrarans, bruggarans eða bakarans, sem við væntum þess að fá málsverðinn okkar, heldur vegna þess að þeir hugsa um eigin hag.“

Gagnkvæmur hagur getur tengt ólíka menn og ókunnuga traustar saman en margt annað: „Tilhneiging okkar til að skjóta á útlendinga minnkar stórlega, þegar við komumst svo langt að sjá í þeim væntanlega viðskiptavini,“ mælti John Prince Smith á þriðja þýska viðskiptaþinginu í Köln 13. september 1860.

Matarástin er að minnsta kosti ekki eins brigðul og náungakærleikurinn, enda orti Örn Arnarson:

Vinsemd brást og bróðurást,

breyttist ást hjá konum.

Matarást var skömminni skást,

skjaldan brást hún vonum.

Athugasemdir og leiðréttingar vel þegnar

Hannes H. Gissurarson

hannesgi@hi.is