Þormóður Sigurgeirsson fæddist á Orrastöðum, Austur-Húnavatnssýslu, 3. nóvember 1919. Hann lést á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri 8. janúar 2012.

Foreldrar hans voru Torfhildur Þorsteinsdóttir, húsfreyja, f. 13.7. 1897, d. 3.1. 1991 og Sigurgeir Björnsson, bóndi, f. 7.10. 1885, d. 28.6.1936. Bræður hans eru Þorbjörn, f. 19.6. 1917, d. 24.3. 1988, Þorgeir, f. 20.8. 1928, Þorsteinn Frímann, f. 29.7. 1934 og Sigurgeir Þór Jónasson, f. 15.6 1941, en faðir hans var Jónas Vermundsson, f. 15.6. 1905, d. 25.8. 1979, seinni maður Torfhildar. Hinn 27.5. 1961 kvæntist Þormóður Magdalenu M. E. Sæmundsen, f. 27.5. 1921, d. 31.10. 1998. Hún var dóttir Evalds Sæmundsen og Þuríðar Sigurðardóttur Sæmundsen. Fósturdóttir Þormóðs og Magdalenu er Sigríður Hermannsdóttir, f. 3.3.1955, maki Einar Svavarsson, f. 21.5. 1956. Dóttir þeirra er Magdalena Margrét, f. 10.8. 1976, sambýlismaður hennar Pétur Snær Sæmundsson, f. 1.2. 1977. Börn þeirra: Guðbjörg Anna, f. 2002 og Einar, f. 2004. Þormóður ólst upp á Orrastöðum. Hann lauk prófi frá Héraðsskólanum á Laugarvatni, námskeiði í Bandaríkjunum 1956 í sambandi við landbúnaðarvélar o.fl. Próf frá Iðnskólanum í bifvélavirkjun 1963 og meistararéttindi 1964. Réðst sem vinnumaður til Einars Ólafssonar í Lækjarhvammi 1939. Vann á stríðsárunum við byggingu flugvallarins í Reykjavík ásamt byggingavinnu. Starfaði hjá Kristni vagnasmið veturinn 1946-47 og hjá Ræktunarsambandi Kjalarnesþings 1947-1960, fyrst á skurðgröfu síðar sem verkstæðisformaður. Var verkstæðisformaður hjá Vélsmiðju Húnvetninga á Blönduósi árin 1960-1972. Þormóður keypti jörðina Orrastaði á uppboði eftir andlát föður síns. Hann stundaði þar og á Blönduósi búskap eftir að hann lét af störfum við vélsmiðjuna. Sauðfjár- og hrossarækt áttu hug hans allan. Eftir að hann hætti búskap um 1998 hóf hann að gróðursetja trjáplöntur á Orrastöðum enda hafði hann mikinn áhuga á allri trjárækt svo sem lundurinn við Ósnesið á Orrastöðum sýnir en þar gróðursettu þeir bræður Þorbjörn og Þormóður trjáplöntur um miðbik síðustu aldar. Þá eru í garðinum hans á Holtabrautinni aspir, sem eru í dag ein hæstu trén á Blönduósi. Þormóður hafði mikið yndi af félagsstörfum. Hann var m.a. í Lionsklúbbi Blönduóss um langa hríð, og gegndi þar flestum trúnaðarstörfum. Stjórnarmaður í Skógræktarfélagi A.-Hún. 1965-1976 og formaður 1970-76. Auk þess var hann í Félagi hrossabænda A.-Hún. frá byrjun og í stjórn félagsins í nokkur ár. Félagi í hestamannafélaginu Neista og gjaldkeri þess í nokkur ár, sat í stjórn Sölufélags Austur-Húnvetninga um skeið ásamt ýmsum öðrum félagsstörfum. Þormóður glímdi við erfið veikindi upp úr síðustu aldamótum en náði sér býsna vel og lagðist þá í ferðalög. Fór hann til hinna ýmsu landa og hafði gaman af.

Útför Þormóðs Sigurgeirssonar fer fram frá Blönduóskirkju í dag, laugardaginn 14. janúar 2012 og hefst klukkan 14.

Sunnudagur 8. janúar, síminn hringir, mér er sagt að Þormóður frændi sé látinn.

Minningarnar hrannast upp, jólin í Pálmalundi þegar ég var að alast upp. Ammó, Mæsa og Sigga koma í jólaboð, þá var glatt á hjalla.

Allt stússið í kringum hestana hans, fara með honum í húsin, smala fram í Orrastaðalandi, útreiðartúrar heyskapur o.fl.

Heimsóknir til hans á Holtabrautina, þar var alltaf gaman að koma.

Fyrir tveimur árum átti ég stórafmæli og ákvað að fara heim og halda smá veislu með nánustu ættingjum, bankaði hjá Þormóði og bauð honum að koma með. Hann þáði það og mikið fannst mér það gott. Þetta var í síðasta sinn sem við hittumst. Minningin um góðan dreng lifir.

Í grenndinni veit ég um vin, sem ég á,

í víðáttu stórborgarinnar.

En dagarnir æða mér óðfluga frá

og árin án vitundar minnar.

Og yfir til vinarins aldrei ég fer

enda í kappi við tímann.

Sjálfsagt þó veit hann ég vinur hans er,

því viðtöl við áttum í símann.

En yngri vorum við vinirnir þá,

af vinnunni þreyttir nú erum.

Hégómans takmarki hugðumst við ná

og hóflausan lífróður rérum.

„Ég hringi á morgun,“ ég hugsaði þá,

„svo hug minn fái hann skilið,“

en morgundagurinn endaði á

að ennþá jókst milli' okkar bilið.

Dapurleg skilaboð dag einn ég fékk,

að dáinn sé vinurinn kæri.

Ég óskaði þess, er að gröf hans ég gekk,

að í grenndinni ennþá hann væri.

Sjálfur, ef vin þú átt góðan í grennd

gleymdu' ekki, hvað sem á dynur,

að albesta sending af himnunum send

er sannur og einlægur vinur.

(Höf. ók./Þýð. Sig. Jónsson tannl.)

Frímann.

Enn og aftir bítur veturinn í hælana á okkur og það hafa kynslóðirnar sannarlega upplifað á Íslandi í aldanna rás. Síðla ársins 1919 fæddist snáði á Orrastöðum í Torfalækjarhreppi og var nefndur Þormóður. Heimsstyrjöldin fyrri rétt afstaðin, frostaveturinn mikli 1918, Kötlugosið og spænska veikin. Þrátt fyrir allar hremmingarnar öðluðust Íslendingar sjálfstæði þetta örlagaríka ár. Þó var andi miðaldanna enn yfir eylandinu okkar og drjúgur hluti þjóðarinnar bjó í torfkofum. Einhver stærsta bylting í lífi margra í þá tíð var að eignast gúmmístígvél.

Inn í þetta miðaldasamfélag fæddist Þormóður og upplifði ótrúlega snör umskipti til iðnvæðingar á næstu áratugum. Hann var öflugur maður til orðs og æðis og kunni vissulega að bjarga sér í hörðum heimi, enda treyst til ýmissa vandasamra verka

Í framhaldi af heimskreppunni gengu hremmingar yfir fjölda heimila á landinu. Fjölskyldufaðirinn lést langt fyrir aldur fram en Þormóður keypti föðurarfleifðina Orrastaði, byggði hana upp og leigði sveitungum sínum. Síðar reisti hann sér íbúðarhús á Blönduósi og tók við formennsku í Vélsmiðju bæjarins og Mæsa flutti inn ásamt Siggu litlu.

Bóndinn blundaði ætíð í Þormóði, hestamennskan og svo reis fjárhúsið uppi á Brekkunni. Fjölskylduferðirnar í gamla daga standa upp úr í minningunni. Öðru fremur er ævintýrið er frændi bjargaði okkur feðgum í hausthretinu árið 1968. Það var líkast til snemma í september er við fjórir lögðum af stað frá Blönduósi áleiðis í bæinn en þurftum að leggja lykkju á leið okkar um Reykjabrautina. Hún var dældótt og niðurgrafin í þann tíma en blöðruskódinn þekktur fyrir dugnað í snjónum. Pabbi þrælaði honum gegnum skaflana en í næstu laut sat allt á syngjandi kafi og skóflurnar út. Það var mokað og mokað klukkustundum saman og alltaf sortnaði kófið og skaflarnir dýpkuðu. Gírkassinn í molum og ég sendur gangandi til Reykja hvar ég komst í sveitasímann og ræsti Þormóð út. Þar með öðlaðist hann sess í hugum okkar feðga sem bjargvætturinn og Austin Gypsy öflugasti jeppi allra tíma. Svo að draga Skodann upp úr fannferginu og niður á Ós. Og auðvitað græjaði verkstæðisformaðurinn gírkassann að morgni nýs dags og svo var brunað í bæinn.

Á ferðum norður í seinni tíð var gjarnan gist hjá frænda. Alltaf rabbað um heima og geima, bóndinn, vélamaðurinn, skógræktandinn, náttúrubarnið, heimshornaflakkarinn og allt hitt, áhuginn og innsæið. Víst var Þormóður mætur félagi og traustur vinur. Árin líða og aldur færist yfir. Skrokkurinn aflagast og skynfærin sljóvgast og ferðir til borgarinnar urðu tíðari. Þormóður gisti gjarnan á Grettisgötunni og við rúntuðum um bæinn með viðkomu hjá læknum og völdum vinum og alltaf var sá gamli jafn brattur. Stiginn í hundrað ára húsinu okkar er einnig býsna brattur en blessunarlega skilaði Þormóður sér alltaf niður á tveimur jafnfljótum. Nú er frændi kominn upp himnastigann mikla og er vafalaust í góðum fögnuði með vinum sínum og vandamönnum sem hann gladdi með nærveru sinni á meðan hans gæfuríka jarðvist entist.

Sigurgeir Þorbjörnsson.