Erna Þorsteinsdóttir fæddist í Vestmannaeyjum 18. ágúst 1936. Hún lést á hjartadeild Landspítalans 2. janúar 2012. Foreldrar hennar voru Þorsteinn Kristinn Gíslason, skipstjóri, f. 5.5. 1902, d. 25.5. 1971 og (Guðrún) Lilja Ólafsdóttir, f. 30.7. 1911, d. 2.4. 1993, frá Strönd í Vestmannaeyjum sem bjuggu á Arnarfelli við Skólaveg 29 í Vestmannaeyjum. Erna átti fimm systkini; Guðrún Sigríður, f. 6.8. 1931, Gísli Guðni, f. 14.9. 1932, d. í júní 1933, Hulda, f. 17.2. 1940, Þorsteinn Gísli, f. 22.11. 1943, Ólafur Diðrik, f. 14.1. 1951, d. 11.10. 1997. Erna eignaðist fimm börn: 1) Gunnar Ólafur, matreiðslumeistari í Hafnarfirði, f. 12.4. 1955. Faðir hans er Eiríkur Hallgrímsson frá Dalbæ í Gaulverjabæjarhreppi, f. 1935. Eiginkona Gunnars er Guðríður Hilmarsdóttir, f. 8.1. 1961. Börn þeirra eru: a) Hilmar, f. 27.3. 1981, sambýliskona Sonja Arnórsdóttir, sonur þeirra er Mikael Máni, f. 24.8. 2011. b) Ágúst Örn, f. 8.8. 1987, sambýliskona Diljá Arnarsdóttir, sonur þeirra er Adrían Leví, f. 17.8. 2011, en fyrir á Diljá dótturina Viktoríu Mist. c) Tómas Þór, f. 19.3. 1993. 2) Gísli Guðni, sjómaður í Vestmannaeyjum, f. 26.9. 1958. Faðir hans er Sveinn Gunnþór Halldórsson frá Kalmanstjörn í Vestmannaeyjum, f. 1938. Þann 19.10. 1963 giftist Erna eiginmanni sínum, Tómasi Guðmundssyni, stýrimanni, f. 14.12. 1930, hann lést 15.11. 1993. Foreldrar hans voru Guðmundur Þórarinn Tómasson og Steinunn Anna Sæmundsdóttir frá Reykjavík. Börn Ernu og Tómasar eru: 3) Guðmundur Þórarinn, rannsóknarlögreglumaður í Hafnarfirði, f. 13.6. 1964. Eiginkona hans er Sigurveig Birgisdóttir, f. 17.7. 1969. Börn þeirra eru: a) Steinunn Erna, f. 15.11. 2004. b) Ástrós Sara, f. 26.1. 2007. Guðmundur var áður giftur Rebekku Björgvinsdóttur, þau skildu árið 2000. 4) Lilja Þorsteina, vinnur á tannlæknastofu í Keflavík, f. 28.9. 1966. Börn hennar og Grétars Sigurbjörns Miller eru: a) Erna Björk, f. 10.2. 1988, trúlofuð Bergi Frosta Maríusyni. b) Tómas Orri, f. 10.1. 1995. Sambýlismaður Lilju er Jón I. Guðbrandsson, f. 2.8. 1966. Barn þeirra er c) Guðbrandur Helgi, f. 15.7. 2002. 5) Ásdís Steinunn, kennari í Vestmannaeyjum, f. 30.12. 1971. Sambýlismaður hennar er Sigfús Gunnar Guðmundsson, f. 17.4. 1968. Börn þeirra eru: a) Guðmundur Tómas, f. 23.12. 1996 og b) Andri Ísak, f. 21.6. 1998. Auk húsmóðurstarfsins vann Erna við veitingastörf, sem símastúlka á símstöðinni í Vestmannaeyjum, fóstra á leikskólanum Kirkjugerði og við fiskvinnslu, m.a. í Vinnslustöðinni í Vestmannaeyjum og í Hraðfrystistöð Einars Sigurðssonar. Útför Ernu fer fram frá Landakirkju í Vestmannaeyjum í dag, 14. janúar 2012, og hefst athöfnin klukkan 14.

Með nokkrum orðum og minningarbrotum langar okkur systkinunum að minnast ástkærrar móður okkar sem lést á hjartadeild Landspítalans 2. janúar sl.

Mamma var sjómannskona og það vita þeir sem til þekkja að sjómannskonur eru sjálfstæðar, óeigingjarnar og fórnfúsar enda er hlutur sjómannsins í barnauppeldi og heimilishaldi stundum rýr eðli starfsins vegna. Sjómaðurinn kann að vera höfuð heimilisins þegar hann er í landi en þess utan er það sjómannskonan sem ein sér um heimilið.

Mamma lést eftir stutt veikindi en upp hafði tekið sig mein sem skerti lífsgæði hennar mikið skömmu eftir að eiginmaður hennar til 30 ára lést, árið 1993.

Við undirbúning líffæragjafar kom í ljós krabbamein í lunga en hún hafði ætlað að gefa Ólafi bróður sínum nýra. Frá því varð að hverfa og þurfti hún eftir það að sætta sig við meiri afskipti lækna af sínu lífi en hún hafði áður vanist eða kært sig um.

Síðustu mánuði í lífi mömmu bjó hún við veikindi sem ekki fékkst skýring á fyrr en við læknisrannsókn í lok síðasta árs. Þá kom í ljós krabbamein sem hafði síðustu vikurnar dregið allan mátt úr mömmu. Dauðinn varð ekki umflúinn.

Búskapur pabba og mömmu hófst í þriggja herbergja íbúð á Herjólfsgötu 9 en áður var hún í foreldrahúsum á Arnarfelli með synina Gunnar og Gísla. Árið 1969 festu þau kaup á einbýlishúsinu að Illugagötu 1 þar sem þau bjuggu þar til pabbi lést að undanskildum þeim tíma sem fjölskyldan bjó í Njarðvík og Keflavík meðan á Heimaeyjargosinu stóð. Eftir að pabbi lést flutti mamma í lítið hús á Brekastíg  með Ásdísi sem þá var ein eftir í foreldrahúsum. Er Ásdís flutti að heiman keypti mamma íbúð í Blokkinni að Hásteinsvegi 64, íbúð sem mamma hennar hafði áður átt. Hringnum var lokið, mamma ætlaði ekki að flytja framar og hún sagðist ekki vilja enda ævina á elliheimili. Varð henni að ósk sinni.

Mamma var um tíma með þrjá sjómenn á heimilinu en því gátu fylgt andvökunætur þegar illa viðraði og eiginmaður og synir voru á sjó. Munum við eftir því í æsku að gamla útvarpið var stillt á bátabylgjuna og hlustað var eftir því hvort Huginn II stæði skil á tilkynningarskyldunni til næstu loftskeytastöðvar. Þannig vissi mamma af Tomma sínum óhultum.

Hann kvaddi og sigldi á sæinn

það syrti að um leið,

og húmið huldi bæinn,

ég hans þar lengi beið.

Svo urðu endurfundir

sem orð ei lýst fá nein.

En svona sælustundir

á sjómannskonan ein.

Og synir mínir sigla,

á sæinn eins og hann.

Og ægir mun sig ygla,

hann ýmsar brellur kann.

Já svona er farmannssaga

og sjómannskonu hans,

er þoldu þrautadaga

í þarfir föðurlands.

(Pétur Jónsson)

Í hlut sjómannskonu koma mörg verk sem stundum mætti ætla að heimilisfaðirinn sinnti en mamma smíðaði kassabíla, gerði við reiðhjól, sinnti viðhaldi utanhúss og svo mætti lengi telja. Ekki var alltaf hægt að bíða eftir að pabbi kæmi heim. Hún sinnti garðinum á Illugagötunni svo vel að eftir því var tekið auk þess að útbúa kartöflugarð á baklóðinni. Alltaf var nóg að gera.

Mamma var heimakær og hreinskiptin og vildi ekki vera lengi í einu á fastalandinu þegar hún heimsótti börn sín þar. Ég vil bara komast í minn stól og mitt rúm var viðkvæðið ef reynt var að telja hana á að fresta heimferð og dvelja lengur. Á þessu var skilningur og víst er að heima er best. Mamma var ekki alltaf mikið fyrir breytingar og kom það fyrir að hún  keypti sér nýja flík sem dúsa mátti í fataskápnum í marga mánuði áður en flíkin var tekin í sátt og notkun. Ekki má rugla saman sjálfstæði og óþolinmæði eins og þegar hún hafði beðið um aðstoð við að færa ísskáp úr innréttingu en var farið að lengja eftir aðstoðarmanninum. Hún færði ísskápinn sjálf þegar aðstoðarmaðurinn lét eftir sér bíða.

Mamma var kominn yfir miðjan aldur þegar hún tók bílpróf en það átti ekki vel við hana að aka bíl og lét hún fljótt af því.  Beygur var í henni frá unglingsárum hennar í sveit þegar drapst á dráttarvél sem hún ók upp frá árbakka og rann dráttarvélin stjórnlaust aftur á bak út í á og lá þar við stórslysi. Þetta var skýringin á því hvers vegna Stórhöfði var áfangastaður á ísrúnti með pabba en ef mamma var líka með í för náði rúnturinn ekki lengra en að Brimurð.

Fyrir mörgum árum tók mamma upp á því að teikna og mála myndir á spegla, flöskur og steina. Myndefnið var iðulega það sama; Heimaklettur, sem í huga Eyjamanna er það sem Esjan er í huga Reykvíkinga, n.k. einkennisfjall byggðarlagsins og áttaviti.  Þegar mamma sat við norðurgluggann í eldhúsinu á Illugagötunni, með Heimaklett fyrir augum, lét hún það iðulega eftir sér að fá störu eins og hún kallaði það. Var það hennar hugleiðsla og orkulind.

Heimaklettur var nafn bátsins sem pabbi hóf sjómennsku sína á 17 ára að aldri og lífsförunaut sinn fann hann í mömmu mörgum árum síðar í Vestmannaeyjum.

Þegar pabbi var jarðsettur í Vestmannaeyjum í dæmigerðu síðhaustsslagviðri var sem skilaboð væru send jarðarfarargestum er kistan var látin síga í gröfina. Skyndilega stytti upp og rofaði til yfir Heimakletti, samtímis því að stór regnbogi birtist sem náði frá Eiðinu og austur um, yfir Heimaklett. Við slíka sjón, á þeirri stundu, var við hæfi að tárast.

Nú hefur mamma sameinast pabba á ný en hvort þau standi fyrir merkjagjöfum í dag á eftir að koma í ljós. Augu okkar verða á Heimakletti.

Það er erfitt að sjá á eftir ástkærri móður, en efst er okkur þó í huga þakklæti fyrir þau ár sem við nutum samvista við mömmu. Minningarnar ylja okkur um hjartarætur og gera kveðjustundina léttbærari.

Hvíl í friði, elsku mamma,

þín börn.