Homare Sawa
Homare Sawa
Homare Sawa, sem var kjörin besta knattspyrnukona heims árið 2011, verður með japanska heimsmeistaraliðinu í Algarve-bikarnum í Portúgal sem hefst næsta miðvikudag.

Homare Sawa, sem var kjörin besta knattspyrnukona heims árið 2011, verður með japanska heimsmeistaraliðinu í Algarve-bikarnum í Portúgal sem hefst næsta miðvikudag. Sawa hefur átt við meiðsli að stríða en hún er í hópnum sem tilkynntur hefur verið fyrir mótið.

Japanir taka þátt í Algarve-bikarnum í annað sinn. Þeir höfnuðu í þriðja sæti í fyrra, á eftir Bandaríkjunum og Íslandi, og lögðu Svía, 2:1, í úrslitaleik um þriðja sætið. Japanska liðið kom síðan skemmtilega á óvart um sumarið þegar það varð heimsmeistari í fyrsta skipti.

Fimm leikmenn evrópskra liða eru í hópi Japana. Þrjár leika í Þýskalandi og tvær í Frakklandi. Þar á meðal er Yuki Nagasato, samherji Margrétar Láru Viðarsdóttur hjá Turbine Potsdam, en Nagasato skoraði þrennu fyrir Potsdam á Akureyrarvelli síðasta haust þegar liðið vann Þór/KA, 6:0, í fyrri leik liðanna í Meistaradeild kvenna.

Japan mætir Noregi í fyrsta leiknum á Algarve 29. febrúar, síðan Danmörku og svo Bandaríkjunum. Leikið er um sæti 7. mars og þá gæti Ísland leikið gegn heimsmeistaraliðinu. vs@mbl.is