[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Börkur Gunnarsson borkur@mbl.is Eftir miklar hækkanir á gulli á síðasta ári áttu kannski ekki allir von á því að það myndi hækka enn meira en raunin er sú að frá áramótum hefur verð á gulli farið upp um heil 11%.

Baksvið

Börkur Gunnarsson

borkur@mbl.is

Eftir miklar hækkanir á gulli á síðasta ári áttu kannski ekki allir von á því að það myndi hækka enn meira en raunin er sú að frá áramótum hefur verð á gulli farið upp um heil 11%. Það hækkaði um 0,6% í gær og er nú í 1.740,3 Bandaríkjadollurum únsan. Þessi hækkun í gær er rakin til þess að fréttir bárust af því að fjármálaráðherrar evruríkja færðust nær lausn á skuldavanda Grikklands og 50 punkta lækkun vaxta hjá Seðlabanka Kína. En ástæður þessarar stöðugu hækkunar gulls eru flóknari.

Gull sem gjaldmiðill

Gull var notað sem gjaldmiðill fram á 19. öldina og voru helstu gjaldmiðlar heimsins tengdir gulli allt fram að lokum síðustu aldar. En Richard Nixon afnam tengingu Bandaríkjadollara við gullið til að geta borgað betur skuldir vegna Víetnam stríðsins. Eftir það hafa flestir gjaldmiðlarnir aðeins byggst á tiltrú fólks á þeim og ríkjunum sem prenta seðlana (e.fiat money). Þannig hafa stjórnmálamenn getað prentað út mikið af peningum til að fjármagna ýmis verkefni en almenningur þarf síðan að gjalda fyrir það vegna aukinnar verðbólgu og minnkandi kaupmáttar. Það er það sem hefur verið að gerast á Vesturlöndum á undanförnum árum að í raun hefur gull ekki verið að hækka heldur hefur virði gjaldmiðla á Vesturlöndum verið að minnka. Í ágætri úttekt Ásgeirs Ingvarssonar í Morgunblaðinu á gullæðinu um áramótin benti hann á að ofan á vantraust markaða á ríkisstjórnir Vesturlanda og peningaprentun þeirra hefur eftirspurn eftir gulli í framleiðslu tölvubúnaðar og aukin eftirspurn eftir gulli sem skarti og fjárfestingar hjá nýríku fólki í Asíu valdið verðhækkunum.

Prenta meiri pening

Þegar rætt er við Ívar Pál Jónsson, efnahagsráðgjafa hjá Lemberg, segir hann að peningaprentun hjá ríkjum Vesturlanda sé aðalástæða þess að fólk sæki í gull um þessar mundir.

„Ef við horfum til bandaríska ríkisins sjáum við að það safnar skuldum sem eru líklega ósjálfbærar. Þar er ekki skorið niður í ríkisrekstri svo neinu nemi. Ríkissjóður Bandaríkjanna skuldar það miklar upphæðir að eina lausnin sem hann virðist hafa er að prenta peninga og gjaldfella eigin gjaldmiðil. Þetta hafa bandarísk stjórnvöld verið að gera með margvíslegum hætti. Til dæmis með kaupum Seðlabanka Bandaríkjanna á ríkisskuldabréfum (quantitative easing). Það sama er að gerast í Evrópu. Evrópski Seðlabankinn hefur verið að kaupa ríkisskuldabréf. En til þess að það beri alvöru árangur þarf stórtækari peningaprentun, og þar hafa Þjóðverjar spyrnt við fótum - eðlilega þar sem þeir minnast óðaverðbólgunnar á Weimar-tímabilinu. En Þjóðverjar munu líklegast þurfa að sætta sig við enn meiri peningaprentun og þar með verðminni evru, og þá dulbúnu skattahækkun sem í því felst. Örlög þýskra banka eru að miklu leyti samofin örlögum annarra banka í álfunni og ríkissjóða. Þýskir bankar eiga bæði skuldabréf beint á hinar svokölluðu jaðarþjóðir, sem eiga á hættu að lenda í greiðsluþroti, og svo óbeint með því að eiga kröfur á aðra banka í álfunni, sem eiga svo mikið af kröfum á fyrrnefndar þjóðir. Þar á ég við Grikkland, Portúgal, Spán og Ítalíu. Þess vegna eru líkur á því að Þjóðverjar sætti sig við umfangsmikla peningaprentun, til að bjarga eigin bankakerfi. Staðan í alþjóðahagkerfinu um þessar mundir er í raun sú að ríkisstjórnir heimsins eru í kapphlaupi um að skaða eigin gjaldmiðla.

Eini gjaldmiðillinn í heiminum sem ekki er hægt að prenta er gull. Hann geymir verðmæti öfugt við pappírspeningana sem eru ekki virði annars en pappírsins. Það er nefnilega ekki gullið sem er að hækka í verði heldur gjaldmiðlarnir sem eru að rýrna,“ segir Ívar Páll.

Almennt er talið að gull muni til lengri tíma litið áfram hækka, þótt niðursveiflur komi inná milli. Skemmst er að minnast fjármálaráðgjafans Kyle Bass sem var til umfjöllunar hér á síðum blaðsins, en hann sagðist kaupa mikið af gullstöngum og geyma heima hjá sér.

Gullið
» Bretton Woods-samkomulagið var gert milli 44 þjóða í Bandaríkjunum árið 1944 þar sem þjóðirnar tengdu sig Bandaríkjadollar sem var með gullfót.
» Árið 1971 aftengdi Richard Nixon Bandaríkjaforseti gullið dollaranum endanlega og hefur dollarinn síðan þá ekki haft neitt annað á bak við sig en loforð ríkisstjórnarinnar.
» Verð á gulli hefur farið úr 589 dollurum árið 1978 og upp í 1.740 dollara í dag.