Þegar Víkverji kom heim frá útlöndum um daginn blöstu við honum ósmekklegustu auglýsingar sem hann hefur séð í íslenskri verslun. Þær var að finna í Fríhöfninni en það vill svo til að hún er í eigu ríkisins. Greinilegt er af auglýsingunum að Fríhöfnin telur sjálfsagt að leggja fast að foreldrum að kaupa sælgæti fyrir börnin sín og helst sem allra mest af því.
Hér eru nokkur dæmi: Fyrir ofan stóra poka með hlaupi stóð: „Enga skeifu bara BROS“. Fyrir ofan ofurbleik Hello Kitty-leikföng stóð: „Ertu að GLEYMA einhverjum?“ Á sælgætisrekka var fullyrt um árangurinn af kaupunum: „Lítill pakki lítið bros, stór pakki STÓRT bros“ og á enn öðrum stað var spurt: „Ferð þú tómhentur heim?“
Væru þessar auglýsingar settar upp við sælgætisrekka í einhverri annarri búð, s.s. í Hagkaupum eða Krónunni, er Víkverji næsta viss um að Lýðheilsustöð myndi gera athugasemdir. Líklega myndi Lýðheilsustöð benda á að tannheilsa barna á Íslandi sé verri en víðast hvar í nágrannalöndunum. Um leið myndi hún vafalaust nota tækifærið til minna á að offita sé einn helsti heilsufarsvandi Vesturlandabúa og að offita meðal barna færist í vöxt. Einnig myndi Lýðheilsustöð örugglega benda á að Íslendingar ættu Norðurlandamet í sykurneyslu. Ekkert er minnst á þetta ríkisversluninni Fríhöfninni og það er eðlilegt enda hefur hún allt önnur markmið en ríkisstofnunin Lýðheilsustöð. Í Fríhöfninni gildir sölumennskan og í þessu tilviki er hún ekki af smekklegri sort.