[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sviðsljós Rúnar Pálmason runarp@mbl.is Vegna aukins afrennslis frá jöklum, samfara hlýnandi loftslagi, gerir Landsvirkjun ráð fyrir að nýtanleg vatnsorka í virkjuðum vatnsföllum hér á landi muni aukast um 20% til ársins 2050.

Sviðsljós

Rúnar Pálmason

runarp@mbl.is

Vegna aukins afrennslis frá jöklum, samfara hlýnandi loftslagi, gerir Landsvirkjun ráð fyrir að nýtanleg vatnsorka í virkjuðum vatnsföllum hér á landi muni aukast um 20% til ársins 2050. Núverandi hönnun virkjana getur aðeins annað tæplega 40% þessarar aukningar.

Þetta er meðal þess sem kom fram á blaðamannafundi í Veðurstofu Íslands í gær þegar ný skýrsla Norrænu ráðherranefndarinnar um loftslagsbreytingar og áhrif á endurnýjanlega orkugjafa var kynnt.

Á fundinum í gær benti Óli Grétar Blöndal Sveinsson, framkvæmdastjóri þróunarsviðs Landsvirkjunar, á að hönnnun vatnsaflsvirkjana miðaðist aldrei við að þær gætu nýtt vatnsafl til fulls. Inni í tölum um vatnsrennsli væru flóðatoppar og ef nýta ætti þá alla yrðu miðlunarlón að vera mun stærri en nú er og virkjanir aflmeiri. Aukin framleiðslugeta slíkra virkjana yrði sjaldan notuð til fulls sem kæmi niður á hagkvæmninni. Yfirleitt væri miðað við 70-80% nýtingu.

Óli Grétar benti á að hlýnun undanfarinna áratuga hefði þegar haft þau áhrif að orkugeta núverandi raforkukerfis Landsvirkjunar hefði aukist um 1050 GWst á ári. Fram til ársins 2050 myndi rennsli í vatnsföllum sem þegar eru virkjuð enn aukast eða um 20%. Landsvirkjun teldi sér þó ekki fært að nýta nema um 40% af þeirri aukningu, um 825 GWst á ári.

„Ef við ætlum að nýta meira þurfum við að breyta kerfinu, það þarf að stækka virkjanir eða stækka miðlanir eða hvort tveggja,“ sagði Óli Grétar. Leiðir til að auka nýtingu væru sífellt í skoðun en hafa yrði í huga að það væri miklu dýrara að breyta virkjunum eftir á en að gera ráð fyrir auknu rennsli í framtíðinni þegar virkjanir væru hannaðar.

Einnig yrði að horfa til þess að aukið rennsli komi smám saman en ekki í einni svipan. Þá væri nýting á aukinni aflgetu vegna meira rennslis, sem mæld er í MW, ekki sérlega góð. „En eftir því sem meira rennur framhjá núverandi virkjunum verður þetta hagkvæmara,“ sagði hann.

Orkan í vatninu sem rennur framhjá Búrfellsvirkjun samsvarar um 360 GWst á ári. Vatnið sem rennur framhjá Sultartangavirkjun samsvarar 80 GWst en eftir mestu er að slægjast við Kárahnúkavirkjun þar sem orkan samsvarar 1280 GWst á ári í dag.

Framkvæmdir gætu hafist 2014

Undirbúningur að stækkun Búrfellsvirkjunar er nú langt kominn. Stefnt er að því að hefja umhverfismat í lok árs og framkvæmdir, upp á um 11 milljarða, gætu hafist 2014. Ekki þarf að stækka miðlunarlónið en reisa þarf nýtt stöðvarhús þar sem ekki er hægt að bæta túrbínu við Búrfellsstöð sem er neðanjarðar. Með stækkuninni eykst afl Búrfellsvirkjunar um 70 MW en nýtingartími verður tiltölulega stuttur eða um 34% sem gefur um 210 GWst en í staðinn fæst góður aðgangur að reiðuafli.

Hjá Landsvirkjun er einnig verið að fara yfir möguleika á að auka afl frá Sultartanga, annaðhvort með því að breikka vatnsvegi og keyra stöðina undir meira álagi eða með því að reisa nýtt stöðvarhús. Í báðum tilfellum er gert ráð fyrir afli upp á 10 MW og framleiðslu upp á 45 GWst á ári.

Ekki er hafinn undirbúningur að breytingum á Kárahnjúkavirkjun, þær eru enn á hugmyndastigi. Upphafleg hönnun Kárahnjúkavirkjunar miðaðist við orkugetu upp á 4.500 GWst á ári en í dag með auknu rennsli er orkugetan 300 GWst á ári meiri.

Óli Grétar sagði að ef hægt hefði verið að nýta alla rennslisaukningu mætti auka framleiðslu Kárahnjúkavirkjunar um 30% eða um rúmlega 1.500 GWst í stað einungis þeirra 300 GWst sem nýttust í dag. Við hönnun virkjunarinnar hefði hins vegar ekki verið gert ráð fyrir áhrifum hlýnandi loftslags heldur miðað við upplýsingar um rennsli aftur í tímann, eins og venja var á þeim tíma. Ef nýta hefði átt aukið rennsli hefði þurft að gera stærra lón, sem hefði getað orðið umdeilt, og víðari göng. Engar forsendur hefðu þó verið fyrir slíku þá, enda enginn kaupandi að orkunni. „Auðvitað hefði verið æskilegra að hafa vatnsvegina aðeins víðari og lónið aðeins stærra,“ sagði hann.

Full nýting á auknu vatnsrennsli strandaði einkum á því að aðrennslisgöng frá Hálslóni niður í Fljótsdalsstöð væru of þröng til að taka við meira rennsli.

Þrír möguleikar

Einkum væri litið til þriggja möguleika til að auka framleiðsluna. Í fyrsta lagi mætti grafa ný göng úr Hálslóni og reisa nýtt stöðvarhús. Í öðru lagi kæmi til greina að nýta sér að núverandi göng frá Hálslóni og Jökulsárveitu, sem sameinast í göngunum sem renna niður í Fljótsdalsstöð, hefðu sameiginlega næga flutningsgetu til að taka við auknu rennsli og því mætti e.t.v. taka vatn þaðan í nýja aflstöð. Í þriðja lagi væri mögulegt að útbúa nýtt miðlunarlón fyrir neðan Kárahnjúkastíflu, á Brúaraurum. Vatn sem rynni framhjá meginstíflunni á yfirfalli færi í gegnum virkjun og myndi þá safnast saman í lóninu og hluta þess yrði síðan dælt aftur upp í Kárahnjúkalón að vetri til til að auka nýtinguna enn frekar.

Fara þyrfti bæði í kosti 1 og 3 til þess að fá fram svipuð áhrif og ef strax hefði verið gert ráð fyrir aukinni framleiðslu við hönnun Kárahnjúkavirkjunar, þ.e. um 30% framleiðsluaukningu. Ef bara yrði farið í kost 3 væri hægt að auka framleiðsluna um 10%, að sögn Óla Grétars.

Þátttakandi frá 2000
» Landsvirkjun hefur verið þátttakandi í norrænum loftslagsverkefnum frá árinu 2000.
» Frá þeim tíma hefur hönnun nýrra virkjana tekið mið af spám um áhrif hlýnandi loftslags.
» Fyrir þann tíma var miðað við sögulegt rennsli og gert ráð fyrir lítilli aukningu.