Fjármálaeftirlitið Forstjórinn hefur fengið framlengdan frest til að koma á framfæri andmælum vegna fyrirhugaðrar uppsagnar til fimmtudagskvölds.
Fjármálaeftirlitið Forstjórinn hefur fengið framlengdan frest til að koma á framfæri andmælum vegna fyrirhugaðrar uppsagnar til fimmtudagskvölds. — Morgunblaðið/Eyþór
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
fréttaskýring Sigrún Rósa Björnsdóttir sigrunrosa@mbl.is Skúli Bjarnason, lögmaður Gunnars Þ. Andersen, forstjóra Fjármálaeftirlitsins (FME), setti í bréfi til stjórnar FME á mánudagskvöld spurningarmerki við málsmeðferð í máli hans.

fréttaskýring

Sigrún Rósa Björnsdóttir

sigrunrosa@mbl.is

Skúli Bjarnason, lögmaður Gunnars Þ. Andersen, forstjóra Fjármálaeftirlitsins (FME), setti í bréfi til stjórnar FME á mánudagskvöld spurningarmerki við málsmeðferð í máli hans. Sagði lögmaðurinn Gunnari ekki fært að neyta andmælaréttar nema fá skýrar fram á hvaða grundvelli fyrirhuguð uppsögn byggðist. Hann lagði jafnframt áherslu á að Gunnar nyti starfsréttinda sem embættismaður.

Grundvöllur tilkynningar

Stjórnin hefur svarað þeim spurningum sem lögmaður Gunnars sendi henni. Ekki hefur verið greint frá því út frá hvaða sjónarmiðum stjórnin gekk í tilkynningu sinni til forstjórans. Hvort þar var horft til trúverðugleika, mögulegra hagsmunatengsla eða einhvers annars og hvort ástæða sé til að víkja honum að fullu úr starfi eða veita lausn um stundarsakir. Hvort stjórnin byggi á nýjustu álitsgerðinni og/eða hvort önnur atriði liggi þar til grundvallar.

Reglur um embættismenn

Teljist forstjóri FME embættismaður þarf að fylgja ákveðnum reglum komi til uppsagnar hans úr starfi. Við málsmeðferð þarf að hafa í huga að bæði lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins (starfsmannalög) og stjórnsýslulög gilda þegar kemur að ákvörðunum er varða störf embættismanna.

Ríkisstarfsmenn njóta ríkrar verndar í starfsmannalögum og almennt þarf mikið að koma til og vera sýnt fram á mjög skýrt brot í starfi svo hægt sé að víkja embættismanni frá störfum.

Einn lögfræðingur bendir á að slíkt geti þó komið til, sé ásetningur um brot er varði hæfi, þannig að gefnar séu villandi upplýsingar eða þeim haldið leyndum.

Raunverulegur réttur

Í VI. kafla starfsmannalaganna er að finna ákvæði er lúta að lausn embættismanna frá embætti um stundarsakir. Er þar meðal annars í 26. grein kveðið á um hvernig staðið skuli að slíku og kveðið á um að slík lausn skuli ávallt vera skrifleg, með tilgreindum ástæðum.

Hvað andmælaréttinn varðar segja þeir lögfræðingar sem rætt var við að meginreglan sé sú að fresturinn þurfi að vera raunhæfur til að um raunverulegan andmælarétt sé að ræða. Til dæmis sé orðalagið „til skoðunar er að segja þér upp störfum“ eðlilegt í því ljósi að þannig nýtist andmælarétturinn raunverulega. Viðkomandi verði þó að vita hverju eigi að andmæla. Ef í tilkynningu til hans er greint frá því að verið sé að segja honum upp, þá beri hún með sér að ákvörðun hafi þegar verið tekin; þannig sé farið gegn eðli og tilgangi andmælaréttar.

Nefnd um lausn

Þegar kemur að ferli stjórnsýsluákvörðunar sem fellur undir stjórnsýslulögin þarf að gæta þess að viðkomandi njóti andmælaréttar í reynd áður en slík ákvörðun er tekin. Viðkomandi væri þá tilkynnt hvort til skoðunar væri að veita honum áminningu, lausn um stundarsakir eða segja upp störfum.

Sé um að ræða brot embættismanns í starfi er málum vísað til nefndar samkvæmt 27. gr. laga 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Nefndin, sem starfar á vegum fjármálaráðuneytisins, skal gefa álit sitt á því hvort lausn um stundarsakir sé í samræmi við lög.

Forstjóri FME

» Stjórn Fjármálaeftirlitsins afhenti Gunnari Þ. Andersen, forstjóra FME, bréf síðastliðinn föstudag þar sem kom fram að honum yrði hugsanlega sagt upp störfum.
» Honum var veittur frestur fram á mánudagskvöldið síðasta til að nýta andmælarétt sinn og svara bréfi stjórnar.
» Fresturinn var í fyrrakvöld framlengdur að ósk lögmanns Gunnars þar til annað kvöld.
» Stjórn Félags forstöðumanna ríkisstofnana sendi frá sér ályktun vegna máls Gunnars og krafðist þess að tekið yrði tillit til þeirra lögbundnu réttinda hans að farið yrði að stjórnsýslu- og starfsmannalögum
» Ásbjörn Björnsson, löggiltur endurskoðandi, og Ástráður Haraldsson hrl. unnu að ósk stjórnar FME skýrslu um hæfi forstjóra stofnunarinnar.
» Áður hafði Andri Árnason hrl. unnið tvö álit þar sem hæfi forstjórans var metið.