Landsleikur Theódór Elmar Bjarnason í baráttu við Raul Meireles í leik gegn Portúgal. Það var tíundi landsleikur Elmars en ljóst er að hann þarf að bíða í talsverðan tíma enn eftir þeim ellefta vegna meiðslanna sem hann varð fyrir.
Landsleikur Theódór Elmar Bjarnason í baráttu við Raul Meireles í leik gegn Portúgal. Það var tíundi landsleikur Elmars en ljóst er að hann þarf að bíða í talsverðan tíma enn eftir þeim ellefta vegna meiðslanna sem hann varð fyrir. — Morgunblaðið/Kristinn
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fótbolti Víðir Sigurðsson vs@mbl.

Fótbolti

Víðir Sigurðsson

vs@mbl.is

„Sjálfsagt er aldrei hægt að tala um að maður meiðist á góðum tíma, en það er þó óhætt að segja að þessi meiðsli hjá mér hafi komið á versta tíma,“ sagði knattspyrnumaðurinn Theódór Elmar Bjarnason við Morgunblaðið í gær.

Hann spilar ekki fótbolta aftur fyrr en í fyrsta lagi seint á þessu ári, eftir að hafa slitið bæði krossband og liðband í hné í æfingaleik með danska liðinu Randers á laugardaginn.

„Þetta var slysalegt, ég var í þann veginn að taka boltann af leikmanni OB þegar hann datt á mig. Ég stóð í fótinn, fékk slink á hnéð og það gaf sig með þessum afleiðingum,“ sagði Elmar.

Grasskór á gervigrasi

Hann var ekki frá því að gervigrasið og skóbúnaðurinn hefðu haft sitt að segja.

„Leikurinn var á gervigrasi af nýjustu tegund, í Óðinsvéum, en ég var í grasskóm. Líklega var fóturinn fastari í grasinu vegna takkanna og gæti hafa gert útslagið. Það eru allavega meiri líkur á að verða fyrir þessu á gervigrasi en á náttúrulegu grasi,“ sagði Elmar sem mætti ekki félaga sínum Rúrik Gíslasyni í leiknum við OB. Rúrik var hvíldur vegna smávægilegra meiðsla.

Hefði viljað vera á leið til Japan

Elmar gekk til liðs við Randers í janúar og þetta var aðeins annars æfingaleikur hans með liðinu. „Já, þetta er á versta tíma, ég nýkominn til félagsins og valinn í landsliðshóp hjá nýjum landsliðsþjálfara Íslands. Ég hefði svo sannarlega viljað vera á leið til Japan núna til að sýna mig og sanna. En vonandi fæ ég tækifæri til þess síðar.

Ég fer í uppskurð eftir eina til tvær vikur, eftir því hve lengi bólgan er að fara úr hnénu. Síðan tekur við endurhæfing, ef allt gengur að óskum og ég er heppinn gæti ég verið kominn af stað eftir sex mánuði. Annars má búast við eitthvað lengri tíma en ég ætla mér að koma sterkari til baka.“

Varla misst af æfingu í 5-6 ár

„En ég get horft á það að ég hef verið heppinn hvað meiðsli varðar hingað til. Ég hef varla misst úr æfingu undanfarin fimm til sex ár og aldrei áður þurft að taka svona langa hvíld frá fótboltanum,“ sagði Elmar.

Hann samdi við Randers í lok janúar eftir að hafa spilað með IFK Gautaborg í sænsku úrvalsdeildinni í hálft þriðja ár. Hann samdi við Randers til hálfs fjórða árs. Liðið er í öðru sæti dönsku B-deildarinnar og á því góða möguleika á að vera í úrvalsdeildinni þegar Elmar verður leikfær á ný. Sem verður í alfyrsta lagi í lok ágúst en líklega ekki fyrr en síðar um haustið.

Elmar Bjarnason

» Hann er tæplega 25 ára gamall og hefur leikið með KR, Celtic, Lyn, IFK Gautaborg, og með Randers frá 1. febrúar.
» Elmar á að baki 10 A-landsleiki en lék síðast gegn Portúgal í október 2010.
» Hann hefði átt að vera á leið til Japan með landsliðinu fyrir vináttuleikinn þar á föstudag.