Tölvuleikur Grafíkin hefur tekið völdin í flestum tölvuleikjum og þykir orðin ansi raunveruleg og nákvæm.
Tölvuleikur Grafíkin hefur tekið völdin í flestum tölvuleikjum og þykir orðin ansi raunveruleg og nákvæm.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Helsti galli þessa leiks er sú langa bið meðan leikurinn er að hlaða sig inn fyrir bardaga og drepur það svolítið stemninguna.

Af tölvuleikjum

Friðjón Fannar

Hermannsson

fridjon@mbl.is

Ultimate fighting championship„UFC“, er stærsta fyrirtækið í heiminum sem skipuleggur og stendur fyrir keppnum í blönduðum bardagaíþróttum eða mixed martials arts „MMA“. Þessir bardagar fara fram á átthyrndum leikvelli og eru oftast nær þrjár lotur í hverjum bardaga en hver lota varir í fimm mínútur. Svipað og í boxi þá eru það dómarar sem úrskurða sigurvegara samkvæmt stigakerfi ef sigur fæst ekki með rothöggi, tæknilegu rothöggi eða uppgjöf annars hvors keppandans. Reglurnar eru frjálslegri og ruddalegri en í boxi og má m.a. sparka, kýla, slá, fleygja mönnum til til að vinna knýja fram sigur. Það má hins vegar ekki bíta, skalla, rífa í hár, sparka í klof eða aftan í höfuð!

Þessi nýútkomni tölvuleikur fyrir PS3 er sá þriðji í röðinni frá UFC og hafa framleiðendur hans lagt í miklar endurbætur frá fyrri leikjum.

Fyrri leikirnir voru víst fullerfiðir viðureignar að því leyti að stjórn á leikmanninum var stirð og of flóknar skipanir þurfti til þess að ná fram árangursríkum bardagabrögðum. Mér finnst viðleitni þeirra að einfalda leikinn hafa tekist ágætlega til. Grafík er ansi flott og eru bardagarnir flottir og raunverulegir. Boðið er upp á góða æfingakennslu til að kenna helstu brögðin og undirbúa spilarann fyrir komandi átök.

Þú getur valið um 150 leikmenn í átta mismunandi þyngdarflokkum eða valið að byggja upp þinn eigin leikmann. Spilarar geta valið eigin bardagaaðferð sem hentar hverjum og einum og hafið æfingar. Kickboxing, Brazilian jiu-jitsu, karate, Muay Thai, wrestling eða judó er meðal þeirra bardagaaðferða sem þú getur valið um.

Það sem gerir þennan leik eigulegan og endingargóðan er sú staðreynd að það eru svo margar útfærslur á því hvernig hægt er að spila hann.

Í grunninn má segja að um sé að ræða tvær leiðir, annars vegar hefðbundinn UFC-bardaga og svo „Pride“-aðferðina þar sem svo gott sem allt er leyft. Sá bardagi fer fram í venjulegum ferhyrndum boxhring og telur þrjár lotur. Fyrsta lotan er 10 mínútur og næstu tvær 5 mínútur. Þar reynir mikið á úthald og skipulag bardagans.

Ultimate Fight mode: Þar getur spilari endurspilað marga af eftirminnilegustu bardögum UFC, valið hvorn bardagamanninn sem er og reynt að sigra eða verja titla. Þegar leikmaður hefur unnið alla bardagana hlýtur hann verðlaun sem eru myndbandsupptökur frá alvöru bardögunum, nokkuð nett!

Netspilunin er góð og þar reynir virkilega á getu hvers og eins leikmanns. Fyrst þegar ég spilaði leikinn valdi ég að spila á léttasta stigi eða level og fór beint í Title Race. Þar vann ég alla átta bardagana mína nær eingöngu með því að spila eins og boxari og varð meistari. Í framhaldi af þessari góðu byrjun fór ég og spilaði leikinn á netinu. Í stuttu máli, þá var ég laminn sundur og saman, rotaður og tekinn út í fyrstu lotu.

Helsti galli þessa leiks er sú langa bið meðan leikurinn er að hlaða sig inn fyrir bardaga og drepur það svolítið stemninguna. En þegar í bardagann sjálfan er komið er upplifunin svolítið á pari við það að vera að horfa á beina útsendingu frá alvörubardaga. Grafíkin og framsetningin er flott, þegar þungu höggin eða spörkin hitta andstæðinginn lækkar tónlistin, stýripinninn nötrar og þú upplifir bardagann ansi vel. Þetta hljómar allt svo gróft og blóðugt, en það er einmitt svolítið kjarninn í UFC.

UFC Undisputed 3 er massaflottur slagsmálaleikur þar sem mörg fornfræg bardagaform mætast í hringnum. Ofbeldið er mikið og vakin er athygli á því að leikurinn er ekki ætlaður 13 ára og yngri.