<strong>Sektir</strong> Stefnt er að því að hækka bílastæðagjöld í miðborginni um 67-88%.
Sektir Stefnt er að því að hækka bílastæðagjöld í miðborginni um 67-88%. — Morgunblaðið/Kristinn
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Skúli Hansen skulih@mbl.is Bílamenning í Reykjavík var rædd á fundi borgarstjórnarinnar í gær.

Skúli Hansen

skulih@mbl.is

Bílamenning í Reykjavík var rædd á fundi borgarstjórnarinnar í gær. Á fundinum var tekist á um bílastæðamál í miðborginni og þá einkum yfirvofandi hækkun stöðumælagjalda sem nýlega var samþykkt í umhverfis- og skipulagsráði Reykjavíkur.

Í ræðu sinni á fundinum mótmælti Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, harðlega yfirvofandi hækkun bílastæðagjalda sem nemur um 67-88%. „Í fyrsta lagi er þetta alltof mikil hækkun í einu. Þegar það er verið að reyna að fá aðila í þjóðfélaginu, ekki síst opinbera aðila, til að stilla hækkunum í hóf kemur slík hækkun, upp á hátt í hundrað prósent, náttúrlega eins og skrattinn úr sauðarleggnum,“ segir Kjartan í samtali við blaðamann. Kjartan bendir á að rekstrarumhverfi miðborgarinnar sé viðkvæmt og verslunum þar hafi fækkað á milli ára. „Við slíkar aðstæður hljóta stjórnmálamenn að líta til þess að grípa ekki til neinna þeirra aðgerða sem aukið gætu á þennan fyrirtækjaflótta úr miðborginni,“ segir Kjartan og bætir við að ámælisvert sé að ekkert samráð hafi verið haft við hagsmunaaðila áður en hækkanirnar voru samþykktar í umhverfis- og samgönguráði.

„Borgarráð á eftir að staðfesta hækkunina og ég lagði til að það yrði fallið frá þessum hækkunum, eða málinu a.m.k. frestað, og tíminn notaður til þess að efna til víðtæks samráðs rekstraraðila á Laugaveginum,“ segir Kjartan.

Útilokar ekki frekari hækkanir

Hjálmar Sveinsson, varaborgarfulltrúi Samfylkingarinnar, flutti erindi á fundinum um stefnu meirihlutans varðandi umferðarmál og bílamenningu í borginni. „Þessi stefna snýst um það að reyna að snúa við þeirri þróun sem er búin að eiga sér stað í nokkra áratugi og hefur gert Reykjavík að ofboðslega mikilli bílaborg,“ segir Hjálmar. Hann bendir á að þó svo að einkabíllinn sé merkilegt fyrirbæri hafi mikil umferð einkabíla marga ókosti í för með sér, t.d. mengun, gríðarlegar umferðar- og vegaframkvæmdir og minni hreyfingu hjá fólki.

„Ég held að það sem gæti hjálpað þessu svæði – og það er það sem við viljum gjarnan að gerist – er að það eigi sér stað miklu meiri uppbygging við Hlemm, kannski að beina þangað öllum þeim sem vilja byggja hótel hér á næstu árum, þá myndi skapast annar mannlífstónn þarna í kringum Hlemm og það myndi væntanlega geta hjálpað kaupmönnum efst á Laugaveginum,“ segir Hjálmar og bætir við:

„En að mínu mati hefur það ekkert með bílastæði að gera, þvert á móti. Of mörg bílastæði í götuplássunum á Laugaveginum gera Laugaveginn að fráhrindandi götu.“ Aðspurður segir Hjálmar alls ekki útilokað að bílastæðagjöld í miðborginni verði hækkuð enn frekar.