Steingrímur J. Sigfússon
Steingrímur J. Sigfússon
Kristján Jónsson kjon@mbl.is Sjávarútvegsráðherra, Steingrímur J. Sigfússon, segir að nýtt ríkisstjórnarfrumvarp um fiskveiðistjórnun verði lagt fram á næstu vikum.

Kristján Jónsson

kjon@mbl.is

Sjávarútvegsráðherra, Steingrímur J. Sigfússon, segir að nýtt ríkisstjórnarfrumvarp um fiskveiðistjórnun verði lagt fram á næstu vikum. Hann segir að mið verði tekið af því sem áður hafi verið unnið og athugasemdum við fyrri frumvörp, þ.ám. um hliðarráðstafanir í kerfinu eins og pottana frægu.

„Þetta hefur reynst viðamikið og skoða þarf ýmis svið, efnahagsleg, bókhaldsleg og afkomuleg,“ segir Steingrímur. „Einnig veiðigjald, skatta og sjálft grundvallarfyrirkomulagið. Síðan hef ég verið að halda upplýsingafundi með ýmsum í greininni, kynnt hvernig við nálgumst þetta. Ég hef náð að funda á undanförnum vikum með velflestum stærstu hagsmunaaðilum, hef rætt við LÍÚ, Samtök fiskvinnslustöðva, Sjómannasamtökin, Starfsgreinasambandið og smábátasjómenn en á eftir að hitta fleiri. Þetta er gert til þess að það sé talsamband á milli aðila.

Og svo hef ég borið mig saman við félaga mína í stjórnarflokkunum, eins hafa þau komið aðeins að þessu Guðbjartur Hannesson og Katrín Jakobsdóttir sem voru í ráðherranefndinni.“

Um sé að ræða mikla efnislega vinnu, ekki sé hægt að neita því að hún sé nokkuð á eftir áætlun. En miklu skipti að vanda smíðina.

Skoða meðferð bókfærðra veiðiheimilda

– Var þetta stærra verkefni en þú hafðir gert þér grein fyrir?

„Ég segi það nú ekki en sumpart kom á óvart hvað ýmiss konar útfærsla þarf mikla skoðun ef menn vilja vera með fast land undir fótum varðandi þau atriði. Við höfum meðal annars verið að skoða álitamál sem tengjast meðferð bókfærðra veiðiheimilda í núverandi sjávarútvegsfyrirtækjum, hvernig búa eigi um þau mál þannig að það verði engin röskun á þeim.“

– Fyrirtækin standa misvel. Er ekki líklegt að einhver fái skell ef gerð verður róttæk breyting?

„Auðvitað reynum við að finna leiðir sem koma þannig út að innbyrðis afkoma í greininni raskist ekki og þetta sé þá sanngjarnt miðað við stöðu og afkomu mismunandi greina. Það er ekkert leyndarmál að framleiðni og afkoma er mismunandi milli greina útgerðarinnar. Finna þarf leið í sambandi við veiðigjaldtöku og annað sem mætir því.“