Velgengni ÍBV er komið í bikarúrslit í handknattleik kvenna og verður í eldlínunni í Laugardalshöll á laugardaginn.
Velgengni ÍBV er komið í bikarúrslit í handknattleik kvenna og verður í eldlínunni í Laugardalshöll á laugardaginn. — Morgunblaðið/Ómar
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Handbolti Kristján Jónsson kris@mbl.is ÍBV leikur sinn fyrsta bikarúrslitaleik í átta ár þegar liðið mætir Val í úrslitaleik Eimskipsbikarkeppni kvenna í handknattleik í Laugardalshöllinni á laugardaginn.

Handbolti

Kristján Jónsson

kris@mbl.is

ÍBV leikur sinn fyrsta bikarúrslitaleik í átta ár þegar liðið mætir Val í úrslitaleik Eimskipsbikarkeppni kvenna í handknattleik í Laugardalshöllinni á laugardaginn. Þórsteina Sigurbjörnsdóttir hefur verið atkvæðamikil í undanförnum leikjum en hún var í ÍBV-liðinu sem varð bikarmeistari 2004 eftir sigur á Haukum 35:32 í úrslitaleik.

„Það er orðið nokkuð langt síðan og við erum orðin rosa spennt. Stemningin er mjög góð, bæði í félaginu og á eyjunni. Það fylgjast allir með þessu og spennan er virkilega mikil. Þetta er náttúrlega skemmtilegasti leikurinn á tímabilinu. Þetta er öðruvísi leikur og leikur þar sem allt getur gerst,“ sagði Þórsteina þegar Morgunblaðið hafði samband við hana í gær og hún segir stefnt að því að fara upp á land á morgun.

Nýttu landsleikjahléið vel

„Við höfum verið á venjulegum æfingum undanfarið en planið er að fara á fimmtudaginn og það fer bara eftir veðri hvort við förum fljúgandi eða siglandi. Svo er æfing í Höllinni á föstudeginum auk þess sem við gerum eittthvað skemmtilegt saman til að mynda stemningu. Við munum gista saman og halda hópinn,“ sagði Þórsteina sem er mjög ánægð með spilamennsku Eyjaliðsins eftir áramót en hópurinn notaði HM-fríið vel í desember.

„Tímabilið hefur þróast mjög vel hjá okkur, sérstaklega eftir áramótin. Við erum búin að slípa okkur saman og gerðum það í landsliðspásunni. Við höfðum góðan tíma því erlendu leikmennirnir fóru ekki heim um jól og áramót. Þær duttu inn ein af annarri þegar tímabilið byrjaði og síðan þá höfum við verið að læra hver inn á aðra. Eftir áramótin höfum við verið á flugi og ætlum að halda því áfram,“ sagði Þórsteina ennfremur.

ÍBV var með geysilega sterkt lið fyrir nokkrum árum og vann þá nokkra titla síðast árið 2006 þegar liðið varð Íslandsmeistari. Örfáum árum síðar kom liðið varla fram á ratsjá en er nú aftur komið í fremstu röð. Morgunblaðið forvitnaðist um þessa þróun hjá þjálfaranum Svavari Vignissyni sem lengi hefur verið viðloðandi handboltann í Eyjum.

Skulduðu meira en þeir réðu við

„Í kringum 2006 og 2007 vorum við með fullt af útlendingum og reksturinn á báðum liðum var ofboðslega dýr. Við lentum í að skulda meira en við réðum við. Þess vegna var ákveðið að draga saman seglin og spila eingöngu á Eyjastelpum. Þá datt aðeins botninn úr þessu hjá báðum liðum raunar. Fyrir þremur árum var hálfgert spurningarmerki hvað yrði gert. Þá spiluðu stelpurnar í 2. deild en í fyrra var ákveðið að setja þær í efstu deild á ný. Núna erum við búin að borga niður þessar skuldir sem voru félaginu virkilega erfiðar. Við erum komin á núllið og rekum deildina á núllinu.

Við getum smám saman stigið varlega á bensíngjöfina og við erum að gera það. Við erum reyndar með fjóra útlendinga en þær eru ekki atvinnumenn heldur vinna hérna í fiski allan daginn. Auk þess eru þær að vissu leyti á síðasta snúningi í boltanum. Tvær þeirra eru 35 ára og ein 32 ára fyrir utan Floru (Florentina Stanciu). Við fengum hana til landsins fyrir sex eða sjö árum. Hún tók smápásu frá okkur og fór í Stjörnuna en er nú komin aftur heim,“ sagði Svavar við Morgunblaðið í gær.

Hann segir það stóran áfanga að keppa um bikarinn. „Þetta er virkilega stór áfangi fyrir félagið og fyrir Vestmannaeyjar í heild. Maður finnur fyrir ofboðslegum áhuga hérna og þetta er frábær áfangi fyrir okkur. Við eigum ofboðslega erfitt verkefni fyrir höndum. Við munum mæta sterkasta liði landsins og í Valsliðinu eru átta leikmenn sem hafa spilað með landsliðinu. Við ætlum að gera allt sem við getum til að smala fólki í Höllina. Veðurspáin er reyndar ekki hagstæð því það spáir um 30 metrum hérna á eyjunni bæði á fimmtudag og föstudag. Vestmannaeyingar eru svo sem engir aular þegar kemur að því að ferðast og við vonum að þetta hafi ekki of mikil áhrif á stuðninginn. Ég vona svo sannarlega að fólk láti þetta ekki aftra sér,“ sagði Svavar.

Löndun og gæsla

Í Vestmannaeyjum búa tæplega fimm þúsund manns en þar er engu að síður að finna fjögur frambærileg lið í fótbolta og handbolta hjá báðum kynjum. „Reksturinn er mjög dýr og sérstaklega er það ferðakostnaðurinn sem gerir okkur erfitt fyrir. Við eigum sem betur fer góða styrktaraðila sem standa vel við bakið á okkur. Strákarnir í handboltanum eru duglegir að fara í löndun úr skipunum og fjármagna þannig sjálfir sínar utanlands- og æfingaferðir. Stelpurnar hafa verið að bóna bíla og í gæslu á Þjóðhátíð og Goslokahátíð. Við erum því með allar klær úti til að reyna að standa undir þessu en það er að sjálfsögðu erfitt og rándýrt.“