Franska lögreglan yfirheyrði í gær Dominique Strauss-Kahn, fyrrverandi framkvæmdastjóra Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, vegna gruns um að hann hefði tekið þátt í kynsvalli í París og Washington með vændiskonum sem tveir kaupsýslumenn höfðu greitt fyrir. Strauss-Kahn átti upphaflega að svara spurningum lögreglunnar sem vitni en saksóknarar segja að hann hafi nú stöðu grunaðs manns.
Strauss-Kahn kom á lögreglustöð í Lille í gærmorgun og búist er við að hann verði í haldi lögreglunnar í allt að tvo sólarhringa. Þegar yfirheyrslunum lýkur er hugsanlegt að hann verði látinn laus eða að dómari dæmi hann í gæsluvarðhald.
Lögreglan sagði að Strauss-Kahn væri í haldi vegna gruns um að hann hefði „ýtt undir hórmang skipulagðs glæpahóps“ og tekið þátt í „misnotkun á peningum fyrirtækis“. Samkvæmt frönskum lögum varðar aðild að hórmangi allt að 20 ára fangelsi og verði hann dæmdur sekur um að hafa hagnast á fjárdrætti gæti hann átt yfir höfði sér allt að fimm ára fangelsi, auk sektardóms, að sögn fréttaveitunnar AFP .
Lögreglan kvaðst vera að rannsaka hvort Strauss-Kahn hefði vitað að konur, sem skemmtu honum í veislum á veitingastöðum, hótelum og skemmtistöðum í Washington og París, hefðu verið vændiskonur og greitt hefði verið fyrir þjónustu þeirra. Verði niðurstaðan sú að hann hafi vitað þetta verður rannsakað hvort Strauss-Kahn hafi haft vitneskju um að gestgjafar hans hafi greitt fyrir þjónustuna með fé sem dregið var út úr fyrirtæki sem annar kaupsýslumannanna starfaði fyrir.
Strauss-Kahn hefur neitað því að hann hafi tekið þátt í hórmangi eða fjárdrætti.
Tveir kaupsýslumenn, Fabrice Paszkowski og David Roquet, hafa verið ákærðir vegna málsins. Þeir eru taldir tengjast frönskum og belgískum konum sem stunduðu vændi á Carlton-hótelinu í Lille sem notið hefur mikilla vinsælda meðal kaupsýslumanna og stjórnmálamanna í borginni. Alls hafa átta menn verið ákærðir í tengslum við „Carlton-málið“, þ.ám. þrír af stjórnendum lúxushótelsins, þekktur lögmaður og aðstoðarlögreglustjóri borgarinnar. Síðasta kynsvallið er sagt hafa farið fram þegar kaupsýslumennirnir hittu Strauss-Kahn í Washington 11.-13. maí í fyrra, m.a. til að ræða hugsanlegt forsetaframboð hans. Strauss-Kahn er 62 ára og þar til á liðnu ári var hann álitinn líklegur arftaki Nicolas Sarkozys Frakklandsforseta.