Borgar Símonarson fæddist 12. janúar 1930 í Teigakoti í Skagafirði. Hann lést 31. janúar 2012 á Heilbrigðisstofnuninni Sauðárkróki.

Útför Borgars fór fram frá Goðdalakirkju 10. febrúar 2012.

Fagnandi um fjallasali

fórstu löngum

sextíu æviár í göngum.

(HJ)

Þessar ljóðlínur koma upp í hugann við andlát Borgars í Goðdölum. Með honum er genginn einn af svipmestu bændastólpum Skagafjarðar, skapsterkur dugnaðarforkur, bóndi af lífi og sál, maður athafna og framkvæmda. Hann var glaðvær og gestrisinn, félagslyndur og fylgdist vel með mönnum og málefnum fjær og nær og hafði fastmótaðar skoðanir sem hann hélt oft fram af nokkru kappi. Við eldhúsborðið í Goðdölum áttu sveitungar hans og gestir margar góðar stundir þar sem mál voru krufin til mergjar. Í Goðdölum eru jafnan langar smalaleiðir og þarf oft að leggja að baki tugi kílómetra til að ljúka dagsverki. Borgar átti létt með að tileinka sér nýjungar og á haustdögum mátti líta á bæjarhlaði ekki aðeins hrausta smalahesta og ýmis hjólatæki, heldur stóð oft flugvél í túnfæti sem nýttist til fjárleita. Lengi verður minnisstæð ferðin að Skiptabakka er við fórum nokkrir félagar einn síðsumardag árið 1975, erindið var að koma upp gistiskála fyrir gangnamenn. Dugnaður hans og lifandi áhugi áttu drjúgan þátt í hve vel gekk en leiðin lá að mestu um hans heimaland þar sem hann þekkti hvern stein og laut. Margar ferðir fórum við saman í göngur og eftirleitir þar sem atorka hans, hjálpsemi og fyrirhyggja léttu störfin. En allar ferðir taka enda, þótt hann væri lengst af við góða heilsu urðu fæturnir honum til ama undir það síðasta, langar smalaferðir líklega tekið sinn toll. Ég kveð vin og sveitunga með söknuði og sendi fjölskyldu og aðstandendum samúðarkveðjur. Minning hans mun lengi lifa í dölum Skagafjarðar.

Sigurður Sigurðsson.