María Guðmundsdóttir
María Guðmundsdóttir
Skíðakonan María Guðmundsdóttir hefur staðið sig vel á mótum í Svíþjóð undanfarið. Hún keppti á alþjóðlegum svigmótum fjóra daga í röð, tvisvar í Gopshus og tvisvar í Borlänge, og varð í fimmta til sjöunda sæti í öll skiptin.

Skíðakonan María Guðmundsdóttir hefur staðið sig vel á mótum í Svíþjóð undanfarið. Hún keppti á alþjóðlegum svigmótum fjóra daga í röð, tvisvar í Gopshus og tvisvar í Borlänge, og varð í fimmta til sjöunda sæti í öll skiptin. María fékk á bilinu 33-43 FIS-stig á mótunum fjórum.

Þar á undan varð María tvívegis í öðru sæti á svigmótum í Kongsberg í Noregi, þar sem hún býr og æfir.

Stór hluti af landsliði Íslands í alpagreinum hefur æft og keppt í Svíþjóð að undanförnu.

Katrín Kristjánsdóttir keppti á sömu mótum og María og hafnaði í 8. og 14. sæti í tveimur þeim síðari. Hún fékk 44,07 FIS-stig í fyrra mótinu.

Sturla Snær Snorrason varð í 11. sæti í svigmóti í Borlänge og í 15. sæti í Gopshus, en fyrir síðarnefnda mótið fékk hann 36,36 FIS-stig sem er hans besti árangur.

Brynjar Jökull Guðmundsson var á sömu mótum og náði best 14. sætinu í Borlänge og fékk 43,51 FIS-stig.

Helga María Vilhjálmsdóttir, Erla Ásgeirsdóttir, Tinna Rut Hauksdóttir, Auður Brynja Sölvadóttir og Sigurður Hauksson eru einnig öll við æfingar og keppni í Noregi um þessar mundir.

vs@mbl.is