Afmælistónleikar Camerarctica lék á síðustu vetrartónleikum KMK.
Afmælistónleikar Camerarctica lék á síðustu vetrartónleikum KMK. — Morgunblaðið/Ómar
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Zelenka: Tríósónata nr. 4 í g (1722). Händel: aríur nr. 6, 7 & 9 úr Níu þýzkum aríum (1724-27). Bartók: Strengjakvartett nr. 4 (1928).

Zelenka: Tríósónata nr. 4 í g (1722). Händel: aríur nr. 6, 7 & 9 úr Níu þýzkum aríum (1724-27). Bartók: Strengjakvartett nr. 4 (1928). Camerarctica: Marta G Halldórsdóttir sópran, Eydís L Franzdóttir & Peter Tompkins óbó, Kristín M Jakobsdóttir fagott, Guðrún Óskarsdóttir semball, Hildigunnur Halldórsdóttir & Bryndís Pálsdóttir fiðla, Svava Bernharðsdóttir víóla og Sigurður Halldórsson selló. Sunnudaginn 19. febrúar kl. 19.30.

Síðustu vetrartónleikar Kammermúsíkklúbbsins fóru fram á sunnudagskvöld við frábæra aðsókn í nýjum vistarverum Hörpu. En með því að kammerkerar eru ósjaldan einnig sinfóníugestir er ekki nema sanngjarnt að biðjast fyrst afsökunar á að hafa hvergi þótzt finna ókynnt aukalag Hilary Hahn í Eldborg 9.2. s.l. í einleikspartítum og – sónötum Bachs. Sú fullyrðing reyndist stórlega ýkt, því þar fór Siciliano úr I. Sónötu í g-moll.

En hvað er það svosem hjá þeim stórmerkilegu tímamótum KMK að geta fagnað 55 ára starfsafmæli í fyrstu viðeigandi umgjörð í sögu samtakanna? Því það má alveg staðfesta strax, að þó að Norðurljósin gerðu ekkert kraftaverk fyrir torheyrðan sembalinn í Zelenka frekar en flestir salir stærri en dagstofa – og varla heldur fyrir selló fylgibassans er mátti sín lítils gagnvart fagottinu (e.t.v. hefði átt að spara bassahtvíblöðunginn fyrir forte-kaflana), þá sýndi fiðlukvartett Bartóks ótvírætt fram á kosti Norðurljósa við, að mér var tjáð, 80% af stillanlegum ómtíma – umfram að vísu mýkri en líka þurrari heyrð gamla fastaheimilisins í Bústaðakirkju.

„Bleytustig“ ómvistar er reyndar alltaf talsvert smekksatriði. Að minni hyggju hefði Bartók vel þolað full 100 prósent, en þau verða sjálfsagt reynd síðar. Hitt er svo eftir að sjá hvort KMK treysti sér til að mæta dýrari húsaleigu með aukinni aðsókn meðan er lag í skjóli nýjabrums Hörpu og vaxandi menningarferðamennsku. Vonandi gengur það dæmi upp, enda allt útlit fyrir að landið hafi nú eignazt kammersal á heimsmælikvarða.

Samtímamaður J. S. Bachs, Jan Dismas Zelenka (1679-1745) var flestum gleymdur fyrir 50 árum þar til óbósnillingurinn Heinz Holliger tók hann upp á sína arma og þóttist jafnvel kenna hjá honum ýmsa „framsækna“ drætti. En þótt raddfærslufagmennska og örðulaust tónflæði Bæheimsbúans séu óumdeilanleg, þá kemst hann í formsköpun, harmóníu og lagferli hvorki nærri meistaranum frá Eisenach né Händel sem næstur var á dagskrá. Engu að síður hélt Tríósónatan í g-moll fyrir 2 óbó og fylgibassa (hér sembal, selló og fagott) góðri athygli þrátt fyrir ofurlítinn stirðleikavott og tæpa inntónun á köflum.

Þýzku „Brockes“-aríur Händels fyrir sópran, fiðlu (eða óbó) og fylgibassa komu sömuleiðis allvel út, jafnvel þótt fullmikill styrkmunur sópransins milli toppnótna og neðra sviðs spillti stundum fyrir samvægu flæði. Mesta ánægjuefnið var þó hvað 4. strengjakvartett Bartóks heppnaðist vel í blábjarma Norðurljósasalarins – einkum ef haft er í huga að verkið er ekkert lamb að leika sér við, jafnvel ekki fyrir sjóuðustu atvinnufereyki. Hér komust menn ótrúlega langt á viljanum, enda var leikið af lífi og sál. Þótt hrynskerpan hefði mátt vera ívið hvassari, þá jafnaði eldheit innlifun hópsins það að mestu leyti. Eftir stóð leiftrandi meistaraverk úr huglægri upphafningu Balkanþjóðlaga sem haldið hefur ferskleika sínum óskertum eftir 80 ára linnulausa tilraunamúsík – og gott betur.

Ríkarður Ö. Pálsson