Jenný Karla Jensdóttir fæddist á Ísafirði 22. desember 1932. Hún lést á líknardeild Landspítalans í Kópavogi 28. janúar síðastliðinn.

Foreldrar hennar voru Jens Karl Magnús Steindórsson frá Melum í Trékyllisvík, Árneshreppi, f. 28. okt. 1902, d. 14. feb. 1965, og Guðrún Þórðardóttir frá Hrúti á Rangárvöllum, f. 4. nóv. 1905, d. 28. maí 1972. Systkini Jennýjar eru Katrín Þórný, f. 8. des. 1928, gift Mikael Þórarinssyni, Ragnar Steindór, f. 31. mars 1930, d. 7. des. 2002, Guðrún, f. 10. ágúst 1937, gift Hermanni Stefánssyni, og Jóhannes Helgi, f. 31. ágúst 1945, d. 2. júlí 2000.

Jenný giftist 24. desember 1952 Sigurði Sigurgeirssyni húsasmíðameistara, f. í Hafnarfirði 31. mars 1931, d. 3. nóv. 2002. Foreldrar hans voru Ingibjörg Jónína Guðrún Jónsdóttir, f. 7. okt. 1903, d. 4. maí 1986, og Sigurgeir Sigurðsson, f. 18. júní 1896, d. 2. des. 1941. Börn þeirra eru: 1) Sigurgeir, f. 31. jan. 1952, d. 12. maí 1995, dóttir Jenný Rut, f. 1972, gift Stein Simonsen. 2) Elísabet, f. 1. apríl 1955, gift Guðjóni Guðmundssyni, f. 4. júlí 1954, sonur Sigurður, f. 1978, í sambúð með Jónínu Aðalsteinsdóttur. 3) Ingibjörg, f. 22. júní 1964, gift Jóni Gunnari Baldurssyni, f. 2. júní 1962, börn Guðrún Kamilla, f. 1985, Selma Polly, f. 1992, Magnús, f. 1994. Langömmubörnin eru fjögur. Heimilið og fjölskyldan hafði alltaf forgang hjá henni. Hún vann ýmis störf hjá hinu opinbera.

Útför hennar hefur farið fram.

Elsku besta amma. Nú er komið að kveðjustund. Erfitt að kveðja þig, en ég verð bara að sætta mig við það að ömmur deyja á undan barnabörnum sínum. En það er alltaf erfitt að kveðja ömmu. Sérstaklega Jennýju ömmu.

Þú varst ekki nútímaamma, sem er svo upptekin að hún hefur ekki tíma fyrir barnabörn og fjölskyldu. Þú hafðir alltaf tíma fyrir okkur og vildir allra helst bara vera með fjölskyldunni. Má segja að þú hafir alla tíð vakað yfir öllu fólkinu þínu með alúð og væntumþykkju. Þú hélst líka skilyrðislaust með okkur og það var svo ótrúlega gott að vita af því. Ég vissi að ég gæti sagt þér frá hverju sem er, þú myndir alltaf halda með mér. Þess vegna fenguð þið afi fyrst að vita af því að Steini væri til.

Hef hugsað mikið um það síðustu dagana að þú varst jafngömul mér núna, þegar ég fæddist. Ég var ekki í leikskóla fyrstu tvö árin, því þú passaðir mig. Þú kenndir mér stafina á Rafha-eldavélinni áður en ég varð tveggja ára. Og þú sást til þess að ég varð aldrei lyklabarn, því ég gat alltaf farið heim til ykkar afa eftir skóla. Svo bjó ég í kjallaranum hjá ykkur afa síðustu árin áður en ég flutti til Noregs. Alltaf var opið upp til ykkar, alltaf var eitthvað gott til að borða og alltaf tími til þess að spjalla, spila myllu eða fá góð ráð.

Eftir andlát pabba, þá var það svo gott að eiga ykkur afa að. Mér fannst pabbi alltaf vera til staðar í gegnum ykkur. Eins og í brúðkaupinu okkar Steina. Var svo ótrúlega stolt af þér þegar þú og Mildrid tengamamma leiddust inn kikjugólfið, eftir að þið voruð búnar að taka á móti öllum gestunum.

Við barnabörnin kölluðum þig ömmu rakettu. Því þú keyrðir svo ótrúlega hratt. Man einu sinni þegar ég var að koma úr leiðsögn og sat í rútunni og bílstjórinn var að keyra mig heim. Við vorum að bíða á rauðu ljósi og svo sé ég þig í Volvoinum við hliðina á okkur, einum bíl framar. Bilstjórinn vildi ná þér og ég óskaði honum góðs gengis. Svo kom grænt ljós, þú bræddir malbikið og varst búin að leggja bílnum og komin inn á Hverfisgötu 42 þegar við komum að húsinu. Þá verð ég að viðurkenna að ég var pínu grobbin, þó að ég hafi oft verið hrædd með þér í bíl.

Ég þekki engan eins og þig, sem alltaf hefur tekið öllu með hugrekki, æðruleysi og styrk. Vona að ég verði einhvern tímann eins sterk og hugrökk og þú. Þegar þú fékkst að vita að þú værir komin með krabbamein, þá tókst þú þá ákvöðrun að lengja ekki lífið, heldur hafa það gott síðustu mánuðina. Sjálfri þér lík þá spurðir þú okkur öll hvort við hefðum það gott, værum örugglega enn vel gift og hvað þú gætir gert fyrir okkur síðustu vikurnar þínar. Svo spurðir þú hvort það væri í lagi að þú myndir kveðja.

Hugga mig við það að ég veit að þú ert hjá pabba og afa. Eina skiptið sem ég sá þig virkilega bugast var þegar pabbi dó. Þess vegna ann ég þér að vera hjá þeim núna, veit að þú ert búin að sakna þeirra mikið. Vona þó að þú fáir að standa við það sem þú lofaðir mér og Ísaki og Viljari þegar við kvöddum, að þú kíkir við í Heggedal hjá okkur. Við bíðum spennt.

Þín

Jenný Rut.