Marteinn H. Sigurðsson
Marteinn H. Sigurðsson
Silja Björk Huldudóttir silja@mbl.is Marteinn Helgi Sigurðsson, lektor í íslenskum fræðum við Kaupmannahafnarháskóla, fjallar um Grím geitskó og upphaf Alþingis á rannsóknarkvöldi Félags íslenskra fræða sem fram fer í kvöld kl.

Silja Björk Huldudóttir

silja@mbl.is

Marteinn Helgi Sigurðsson, lektor í íslenskum fræðum við Kaupmannahafnarháskóla, fjallar um Grím geitskó og upphaf Alþingis á rannsóknarkvöldi Félags íslenskra fræða sem fram fer í kvöld kl. 20 í fundarsal ReykjavíkurAkademíunnar í JL-húsinu við Hringbraut 121.

„Umfjöllun Ara fróða um stofnun þjóðríkisins í Íslendingabók er ein af þessum grundvallarmýtum íslensks þjóðfélags. Talsvert hefur verið fjallað um Úlfljót sem kom með lögin frá Noregi í kringum 930, en mun minna um fóstbróður hans, Grím geitskó. Það eina sem við vitum er að Grímur fór, að ráði Úlfljóts fóstbróður síns, í sérstaka sendiför um Ísland allt,“ segir Marteinn og tekur fram að menn greini á um hver hafi verið tilgangur ferðarinnar.

„Margir halda að tilgangurinn hafi verið að kanna undirtektir landsmanna við starf Úlfljóts og þá hugmynd að stofna þing. Aðrir halda að Grímur hafi einnig átt að finna þingstað á Íslandi, en samband Gríms við val á þingstað er mjög dularfullt,“ segir Marteinn og bendir á að landið Bláskógar hafi lent í almenningseign þegar eigandi landsins myrti einn þræla sinna og var í framhaldinu gerður útlægur. „Það er afar hentugt að þarna hafi maður myrt mann með þeim afleiðingum að þessi ótrúlegi staður, þ.e. Þingvellir við Öxará, hafi getað orðið þingstaður,“ segir Marteinn og tekur fram að hann ætli að skoða tengsl Gríms við þá atburði. „Ég reyni sérstaklega að varpa ljósi á Grím í tengslum við bardagann mikla sem braust út á þinginu eftir Njálsbrennu um árið 1011. Þá snerist Alþingi í andhverfu sína, þ.e. Þingvöllur varð vígvöllur, þar sem þjóðfélagið hrundi og lögin dugðu ekki lengur. Þegar frásagnir af þessum atburðum eru skoðaðar sér maður að rifjað er upp hvernig landið varð að þingstað og hvaða hræðilegu atburðir lágu þar að baki. Sagan um upphaf þingsins minnir fólk á hvað gerist þegar menn halda ekki lög og frið.“