Vonandi getur gríska þjóðin andað léttara, þótt um skamma stund verði

Þá eru þeir í Brussel loksins búnir að afgreiða annan efnahagspakka vegna Grikklands. Vonandi þýðir það að þrengingar Grikkja verði eitthvað bærilegri næstu mánuði og misseri. Því miður ganga þó frómar óskir af því tagi gegn líkum.

Atvinnuleysi fer sífellt vaxandi og er nú komið vel yfir 20% og nálgast hörmungarástandið í systur-evruríkinu Spáni. Þær aðgerðir, sem Grikkir hafa verið þvingaðir í, eru líklegar til að ýta atvinnuleysisstiginu enn frekar upp, svo Spánarmetið er vísast í verulegri hættu.

Hinar háu fjárhæðir sem nefndar eru til sögunnar og heiti þeirra, „efnahagsaðstoð frá ESB og AGS“, segja ekki einu sinni hálfa söguna. Það er ekki verið að bjarga Grikklandi með aðgerðunum, þótt svo sé látið heita. Þess er vendilega gætt að ekki evra af háu fjárhæðunum komist í hendur Grikkja. Þeir fá bara að skrifa undir skuldaviðurkenningarnar. Upphæðunum verður mjatlað til bankakerfis Evrópu, einkum banka í Þýskalandi, Frakklandi og Hollandi, og eru önnur ríki á evrusvæðinu þvinguð til að leggja fé í púkkið.

Fyrirkomulag „efnahagsaðstoðarinnar“ við Grikkland er að öðru leyti þeirrar gerðar að ekki verður séð að gríska ríkið eigi nokkra aðkomu að beinum lánamarkaði næstu áratugina. Grikkir fá því kannski bylshlé, en björgun er þetta varla.