Brynja Dís Björnsdóttir
Brynja Dís Björnsdóttir
Eftir Brynju Dís Björnsdóttur: "Æska þjóðarinnar mun fullorðnast og hún mun sækja fyrirmynd sína til önnum kafinna stjórnmálamanna sem meta peninga meir en menntun."

Tækifæri í skólastarfi nægjuseminnar munu móta tuttugustu og fyrstu öldina með margvíslegum hætti. Tuttugasta og fyrsta öldin mun lifa í minningu fólks sem öld týndu æskunnar. Tuttugasta og fyrsta öld gnægtanna mátti ekki við að týna peningunum sínum án þess að ætlast til miskabóta á kostnað menntakerfisins í landinu.

Máttleysi tuttugustu og fyrstu aldarinnar birtist í þöglu samþykki fólks fyrir því að menntakerfið verði sett í ábyrgð fyrir útvalda uppa. Mistök fjármálastofnana gáfu stjórnvöldum mjólk og rjóma undan alikálfinum, menntun barna þjóðfélags okkar.

Mjólk undan sjálfri mjólkurkúnni tókst matráðum nýríku uppanna að næla sér í með væli og heimsendaspám. Mjólk undan mjólkurkúnni nægði fyrir offjárfestingum, áhættufjárfestingum, gróðabraski og góðærisgróðanum sem hluthafarnir greiddu sjálfum sér sem fjármagnsávöxtun fyrir framúrskarandi og óeigingjörn störf í þágu fólksins í landinu. Gjafmildi þeirra og góðmennska náði aldrei lengra en að þeirra eigin vasa, mjólkin var uppurin fyrr en varði og fólkið í landinu fékk að moka flórinn eftir að kúnni var slátrað. Nú var komið að alikálfinum, sjálfri menntun æskunnar, hann mátti mjólka líka. Ekki mátti gera fjármálastofnanirnar mjólkurlausar, þær þurftu sífellt meiri mjólk til að viðhalda íturvaxinni og frekri tilveru sinni.

Fólkið í landinu gleymdi hlutverki sínu gagnvart æskunni. Æska landsins ólst upp við það að líf hennar væri minna virði en líf fjármálamanna og sinnti þess vegna ekki menntun sinni og nám varð minna virði en peningar.

Æska landsins varð fullorðin þrátt fyrir peningaleysið og menntunarleysið, fólkið í landinu varð gamalt og fjármálamennirnir orðnir mettir. Nú mjólkaði alikálfurinn aðeins fyrir peninga því mjólkin fór ógerilsneydd til hæstbjóðanda. Æskan hafði aðeins fengið mjólk og rjóma á afborgunum sem jarðlíf þeirra næði ekki að taka ofan af nema vexti og vaxtavexti.

Möguleikar menntakerfisins til að vaxa og dafna væru miklir ef náttstaður unglinganna væri í sjálfu fjósinu hjá alikálfinum. Náttstaður þeirra var þess í stað í mykjuhaug vaxta og vaxtavaxta þar sem starf unglinganna fólst í mokstri og tunnuþvotti. Æska landsins þrífur skítinn eftir söddu peningamennina sem verða að njóta lífsins og þess munaðar sem mjólk alikálfsins veitti þeim. Iðin æskan verður mjólkurfleytir og strokkar rjóma peningamannanna, býr til smjör, treður mykju og slítur sér út fyrir þá. Næring æskunnar er trygging peningamannanna fyrir umbun sinni, yfirdráttarvöxtum og smálánum með okurvöxtum. Munaður æskunnar felst í smjörklípu, undanrennu og súrri mysu, toppurinn á tilverunni er flóuð mjólk en hana þarf að borga með osti og furðu fáir hafa séð ost nema í auglýsingum. Smám saman neitar æskan að drekka mjólk og borða ost en vill í stað þess undanrennu, fúlt smjör og súra mysu.

Æska landsins mun öðlast framtíðarsýn með peninga sem leiðarljós og mottó þeirra verður: Meira. Fleira. Mest. Núna. Æska landsins mun stýra framtíð landsins í menntun þjóðarinnar, skólastarf þjóðarinnar mun smám saman verða tómlegt vegna peningaleysis og framtíðarsýnar án menntunar í samkennd, samúð og samvinnu. Traust nýju góðborgaranna á menntun og atvinnulíf mun núna taka mið af tímanum sem tekur að verða ríkur og tímanum sem tekur að afla sér menntunar og peninga. Unglingarnir munu láta sér nægja að verða ríkir án menntunar og án unaðar gagnvart þeim lífsgæðum sem fást ekki keypt fyrir peninga. Unaður gagnvart myndlist, tónlist, undursamlegri örvun andans, verður tilgangslaus vegna þess að hann sækir ekki nauðsynlega og mikilvæga peninga. Æska landsins mun móta framtíð landsins, snauða af unaði og snauða af nautn. Framtíð æskunnar mun líða fyrir mjólkur- og næringarleysið, næring unglinganna flýtir fyrir manndómi þeirra, sætleiki lífsins freistar þeirra og æsingur peninganna mótar þá.

Æskan mótar framtíð okkar og æskan mun stýra menntun þjóðarinnar til framtíðar. Núna geta stjórnvöld hindrað framtíð æskunnar með skammsýni sinni, metnaðarleysi og stefnuleysi. Æska þjóðarinnar mun fullorðnast og hún mun sækja fyrirmynd sína til önnum kafinna stjórnmálamanna sem meta peninga meir en menntun.

Höfundur er móðir barns í grunnskóla.