Því er spáð að hlýnun loftslags færi Íslandi aukin tækifæri í orkuframleiðslu

Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra fékk afhent fyrsta eintak nýrrar skýrslu um loftslagsbreytingar og áhrif þeirra á endurnýjanlega orkugjafa á þessari öld, hér á landi og hjá hinum Norðurlandaþjóðunum og í Eystrasaltsríkjunum. Skýrslan er samvinnuverkefni fjölda stofnana og vísindamanna í þessum löndum og athyglisverð tilraun til að rýna inn í framtíðina og meta mögulega orkuframleiðslu með endurnýjanlegum orkugjöfum á næstu áratugum.

Alkunna er að spádómar af þessu tagi eru ekki létt verk og niðurstöðurnar háðar mikilli óvissu. Þetta vita vísindamenn manna best enda eru fá orð sem koma oftar fyrir í skýrslunni en einmitt þetta orð; óvissa. En þó að framtíðin kunni að vera þokukennd og ekki heiglum hent að sjá hvað framundan er verður að reyna og stilla upp mögulegum kostum og meta líklega þróun.

Skýrslan er þess vegna gagnleg og niðurstöður hennar allrar athygli verðar. Ein meginniðurstaðan hvað Ísland snertir er að gert er ráð fyrir nokkurri hlýnun loftslags sem hafi þau áhrif að jöklar bráðni hraðar en þeir byggist upp og að afrennsli frá þeim aukist verulega. Merki þessara breytinga greina menn þegar en gert er ráð fyrir að aukningin nái hámarki á árunum 2040 til 2070.

Fólk er almennt íhaldssamt og þess vegna er flestum án efa sárt um jöklana og vilja helst ekki sjá miklar breytingar á þeim. Þetta eru ósköp eðlilegar tilfinningar en mega þó ekki verða til þess að þau tækifæri sem í bráðnun jöklanna felast verði ekki nýtt.

Höfundar skýrslunnar telja að vegna bráðnunarinnar muni framleiðslugeta raforku aukast um allt að fimmtung hér á landi. Þetta er mjög jákvætt og getur nýst landsmönnum vel, en krefst þess að sjálfsögðu að ekki verði staðið í vegi fyrir því að tækifærið verði nýtt. Nýting þessarar væntanlegu viðbótarframleiðslugetu krefst þess að hér verði heimilaðar auknar virkjanir.

Virkjanir kalla á framkvæmdir og umsvif í náttúru landsins og þess vegna er nauðsynlegt að fara að öllu með gát. Á hinn bóginn verður að heimila skynsamlega nýtingu en ekki standa í vegi fyrir öllum hugmyndum í þá veru og þar með að standa í vegi fyrir aukinni verðmætasköpun í landinu.

Þess vegna má segja að það hafi verið viss kaldhæðni að einmitt núverandi umhverfisráðherra, sem er í hópi þeirra sem helst standa gegn slíkri verðmætasköpun, hafi fengið fyrsta eintak skýrslunnar í hendur. Vonandi verður það til þess að hún kynni sér þau tækifæri sem í framtíðinni felast en setji skýrsluna ekki á sama stað og hefur geymt rammaáætlunina allt of lengi.