Ragnhildur Aðalsteinsdóttir fæddist í Reykjavík 7. júlí 1923. Hún lést 29. janúar 2012.

Foreldrar hennar voru Kristín Jakobína Árnadóttir, f. 26. júní 1886, d. 3. júní 1967 og Aðalsteinn Jónsson, f. 19. ágúst 1880, d. 17. ágúst 1962. Hálfsystir Ragnhildar sammæðra var Þórdís Hansen, f. 7. júlí 1921, d. 22. mars 2009. Börn Ragnhildar eru: Kristín Rut Jónsdóttir, f. 10. febrúar 1946, d. 20. febrúar 1996. Hennar börn eru: 1) Guðlaug, f. 19. ágúst 1966, maki Axel. Börn Guðlaugar eru Hafsteinn, Arnar Freyr og Dagur Ingi. 2) Guðjón Ármann, f. 22. júní 1976, maki Hildur. Börn Guðjóns eru Eiður Andri, Kristín Rán og Hrafn Darri. Guðrún M Jónsdóttir, f. 23. júlí 1948. Sveinn Austmann, f. 2. október 1950.

Ragnhildur fæddist í Reykjavík og ólst upp með systur sinni við fremur kröpp kjör þar sem móðir þeirra, sem var ein með þær, þurfti að vinna mikið til þess að sjá þeim farborða. Þær bjuggu í Reykjavík í fyrstu en móðir hennar flutti síðar með þær systur vestur í Haukadal þar sem hún gerðist kaupakona í nokkur ár. Síðan lá leiðin aftur til Reykjavíkur þar sem hún bjó upp frá því.

Ragnhildur veiktist mjög ung af heilahimnubólgu og bar andlegt atgervi hennar upp frá því merki þeirra veikinda. Ragnhildur bjó með börnin sín hjá móður sinni á meðan hennar naut við og eftir andlát hennar með yngri börnum sínum tveimur allt þar til hún fluttist í þjónustuíbúð við Norðurbrún. Eftir að heilsu hennar tók að hraka fluttist hún fyrst á hjúkrunardeild á Víðinesi og svo þaðan á hjúkrunarheimilið Mörk við Suðurlandsbraut. Á öllum þessum stöðum naut hún góðrar umönnunar og fór vel um hana þar. Börnin hennar sýndu henni ætíð mikla tryggð og umhyggju og var hún mjög tengd þeim alla tíð.

Ragnhildi var sungin sálumessa frá Landakotskirkju 6. febrúar 2012.

Elsku amma.

Lítill drengur lófa strýkur

létt um vota móðurkinn,

– augun spyrja eins og myrkvuð

ótta og grun í fyrsta sinn:

Hvar er amma, hvar er amma,

hún sem gaf mér brosið sitt

yndislega og alltaf skildi

ófullkomna hjalið mitt?

Lítill sveinn á leyndardómum

lífs og dauða kann ei skil:

hann vill bara eins og áður

ömmu sinnar komast til,

hann vill fá að hjúfra sig að

hennar brjósti sætt og rótt.

Amma er dáin – amma finnur

augasteininn sinn í nótt.

Lítill drengur leggst á koddann

– lokar sinni þreyttu brá

uns í draumi er hann staddur

ömmu sinni góðu hjá.

Amma brosir – amma kyssir

undurblítt á kollinn hans.

breiðist ást af öðrum heimi

yfir beð hins litla manns.

(Jóhannes úr Kötlum.)

Takk fyrir allt.

Guðlaug og Guðjón.