Baldur Arnarson baldura@mbl.is Skattar og ýmis gjöld sem Strætó þarf að standa skil á hafa hækkað umtalsvert á síðustu árum samfara lækkandi gengi krónunnar og mikilli hækkun á helstu aðföngum, þar með talið nýjum vögnum og díselolíu á flotann.

Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

Skattar og ýmis gjöld sem Strætó þarf að standa skil á hafa hækkað umtalsvert á síðustu árum samfara lækkandi gengi krónunnar og mikilli hækkun á helstu aðföngum, þar með talið nýjum vögnum og díselolíu á flotann.

Ríkið endurgreiðir Strætó 85% af olíugjaldinu eða sem nemur 56 krónum á lítra, alls um 140 milljónir króna á síðasta ári.

Brugðist við hækkunum með hækkunum

Verð á díselolíu er nú frá 255,8 krónum á lítrann og er því um 10 krónum hærra en 2. janúar sl. þegar 3,5 króna hækkun á lítra á vöru- og kolefnisgjaldi á bensín og dísilolíu hafði gengið í garð.

Brást fyrirtækið við þessum og öðrum hækkunum með því að hækka verðskrána um 10% að jafnaði 1. febrúar síðastliðinn.

Að sögn Reynis Jónssonar, framkvæmdastjóra Strætó, námu tekjur fyrirtækisins af sölu farmiða í fyrra um 890 milljónum króna. Til samanburðar hafi fyrirtækið greitt ríki og sveitarfélögum um 450 milljónir króna í skatta og ýmis gjöld, að stærstum hluta til ríkisins. Nemur upphæðin um 1.233 þús. krónum á dag, um 51.400 kr. á tímann.

Hlutfall skatta af farmiðasölu er því 50,5% sem þýðir að ríflega önnur hver króna af andvirði hvers farmiða fer aftur til ríkisins, líkt og rakið er hér til hliðar. Hefur þá verið tekið tillit til greiðslna sem koma til baka frá ríkinu.

Reynir bendir á að verðlag hafi hækkað um tugi prósenta síðustu ár og skattar með. Þá fái Strætó t.d. ekki endurgreiddan vsk. af notuðum vögnum. Nýir vagnar séu of dýrir.