Leiga Mest er spurt eftir ýsu, en nánast er frost í þeim viðskiptum.
Leiga Mest er spurt eftir ýsu, en nánast er frost í þeim viðskiptum. — Morgunblaðið/Ómar
„Það vantar alla kvóta. Það er engin spurning. Fiskveiðarnar ganga mjög vel á hvaða veiðarfæri sem er og margir eru langt komnir með sína kvóta í sumum tegundum.
„Það vantar alla kvóta. Það er engin spurning. Fiskveiðarnar ganga mjög vel á hvaða veiðarfæri sem er og margir eru langt komnir með sína kvóta í sumum tegundum. Það er að sjálfsögðu gott mál þegar menn veiða vel,“ segir Björn Jónsson hjá kvótamiðlun Landssambands íslenskra útvegsmanna.

Segja má að leigumarkaður aflaheimilda sé frosinn við þessar aðstæður. Engin útgerð er reiðubúin að leigja frá sér aflaheimildir þegar aflabrögðin eru svona góð og verðið á leigukvóta fer þ.a.l. upp úr öllu valdi. Á kvótamarkaðinum má sjá að leiguverð á þorski er nú komið í 330 krónur á kílóið og eftirspurn er eftir ýsu á 230 kr/kg svo dæmi séu nefnd.

Björn segir að fréttir berist af feikilega góðum aflabrögðum, minni línubátar séu að koma með 10 tonn úr róðri og menn leggja þorskanetin á morgnana og draga þau upp strax eftir hádegið. Þar sem nær ómögulegt hefur reynst að fá tegundir leigðar hafa menn reynt að útvega sér heimildir á skiptimarkaði.

„Það er mest spurt eftir ýsu,“ segir Björn. „Ég tók stöðuna í janúar og bar hana saman við ástandið í fyrra. Þá sést til dæmis að togararnir hafa stóraukið sína ýsuveiði miðað við veiðina í fyrra og hlutfallslega langtum meira en aðrir. Aflamarksbátarnir eru á svipuðu róli og í fyrra en lítilsháttar aukning varð hjá krókatrillunum,“ segir hann. „Menn vantar ýsu en það er líka eftirspurn eftir karfa og ufsa svo dæmi séu nefnd.“ omfr@mbl.is