Ægir Friðriksson er yfirkokkur á Satt á Hótel Natura. „Áhersla lögð á ferskmeti, hollustu og virðingu fyrir umhverfi og náttúru,“ segir Ægir.
Ægir Friðriksson er yfirkokkur á Satt á Hótel Natura. „Áhersla lögð á ferskmeti, hollustu og virðingu fyrir umhverfi og náttúru,“ segir Ægir. — Morgunblaðið/Sigurgeir S.
Satt er heiti á nýjum veitingastað sem staðsettur er í Icelandair Hótel Reykjavík Natura. Þar fer matreiðslumeistarinn Ægir Friðriksson fimum höndum um úrvals hráefni.
Lögð er áhersla á rekjanleika alls hráefnis sem notað er og þess gætt að leita ekki langt yfir skammt því besta fæðan er yfirleitt skammt undan, eins og Ægir minnir á.

Gestakokkur Satt í ár, Sarah Biglan frá Bandaríkjunum, er einkar spennandi og það sem meira er, áherslur hennar falla sérlega vel að því sem Satt hefur að leiðarljósi. „Við búumst við miklu af Söruh,“ segir Ægir. „Hún starfar sem Executive Sous Chef á veitingastaðnum Ris sem er staðsettur í Washington en staðurinn er nefndur eftir og rekinn af hinum fræga kokki, Ris Lacoste. Þessi staður hefur verið mjög vinsæll þar ytra en hann er í hlýlegum rustik-stíl þar sem lögð er áhersla á tilgerðarlausa matargerð,“ bætir Ægir við. Á Ris er boðið upp á árstíðabundna ameríska matargerð þar sem blandað er saman fersku grænmeti, lífrænu kjöti og svæðisbundnu sjávarfangi. „Þetta fer einstaklega vel við það sem við á Satt erum að gera en þar er áhersla einnig lögð á ferskmeti, hollustu og virðingu fyrir umhverfi og náttúru. Matseðillinn ber þess svo sannarlega merki og erum við spennt yfir því að fá þennan listakokk með okkur hér á Satt.“ jonagnar@mbl.is

Matseðill

Smakk Reykt silunga-pannacotta með sýrðum sítrusrjóma og silungakavíar

Forréttur Epla- og nýpusúpa bragðbætt með fjögurra krydda blöndu ásamt stökkum sólblómafræum

Milliréttur Steikt hörpuskel með túnsúru-vínegrettu, lakkrísskyri, bökuðum rófum og pönnusteiktri laufblöndu

Aðalréttur Lambafillet með rauðkáli, sellerírótar- og valhnetukremi, kryddaðri trönuberjasultu og rauðvínsgljáa

Eftirréttur Brauðbúðingur með súkkulaði og perum