Stefán Kjærnested
Stefán Kjærnested
Ingvar P. Guðbjörnsson ipg@mbl.is Á aðalfundi ICEPRO, sem haldinn var á miðvikudag á Hótel Sögu flutti Stefán Kjærnested varafjársýslustjóri erindi um markmið og dagsetningar um innleiðingu rafrænna reikninga hjá opinberum stofnunum.
Ingvar P. Guðbjörnsson

ipg@mbl.is

Á aðalfundi ICEPRO, sem haldinn var á miðvikudag á Hótel Sögu flutti Stefán Kjærnested varafjársýslustjóri erindi um markmið og dagsetningar um innleiðingu rafrænna reikninga hjá opinberum stofnunum.

„Við erum að undirbúa breytingu á rafrænum reikningum þannig að reikningarnir flæði þá inn til okkar og við þurfum ekki að vera að skrá þá,“ segir Stefán spurður um þessi nýju markmið.

Í erindinu kemur fram að Fjársýsla ríkisins hefur sett fram það markmið að 1. janúar 2013 verði ríkisstofnunum heimilt að senda út rafræna reikninga og taka við þeim og að 1. janúar 2014 verði skylt að senda ríkinu rafræna reikninga.

„Þegar þú horfir til annarra Norðurlanda þá eru þeir búnir að gera þetta í mörg ár, segir Stefán og bætir við að Danir hafi klárað þetta strax á árinu 2005. Í erindinu kemur fram að Ísland sé að verða á meðal þeirra síðustu í Evrópu.

Stefán segir þessar dagsetningar vera óformlegar og að talsverður undirbúningur sé eftir. „Við eigum eftir að taka þetta upp við hagsmunasamtök og undirbúa þetta, þannig að þetta er ekki ákvörðun.“

Undirbúningur í nokkur ár

Stefán segir að fjársýslan hafi undirbúið innleiðinguna með atvinnulífinu í nokkur ár, m.a. til að ákveða hvaða staðla eigi að nota, en horft er til Dana í þeim efnum. En ESB hefur tekið þá staðla upp. Stefán segir almenna samstöðu um að þessir staðlar verði notaðir hérlendis.

Þó að endanlega úrfærsla sé eftir segir hann að rætt hafi verið við hugbúnaðarfyrirtækin um að þau innleiði þetta í sín kerfi. Hann segir að það hafi verið ákveðið áhyggjuefni með minni aðila sem notist við handskrifaða reikninga, en að slíkt yrði leyst með gagnagrunni á netinu þar sem þeir gætu skráð reikningana inn í kerfið.

Talsvert hagræði

Um hagræði af þessum breyttu vinnubrögðum segir Stefán að það sé margþætt. Sendandi spari sér m.a. prentun og sendingarkostnað. Þá spari viðtakandi sér að skrá reikninga inn í kerfið. Reikningarnir bókist sjálfkrafa inn og skilvirkni aukist með því að flokkunarlyklar haldist í kerfinu frá einum aðila til annars sem auðveldi almennt færslu á bókhaldi og að kostnaðartegundir færist sjálfkrafa.

Í gildi er ákveðinn vöruflokkunarstaðall, en þó svo að birgjar hafi mismunandi vörunúmer, eru vöruflokkunarnúmerin þau sömu og þau munu halda sér í gegnum allt ferlið og fylgja reikningum. Stefán segir að fjársýslan muni vinna áfram með atvinnulífinu að þessum málum og telur að þetta verði næsta bylgja í rafrænum viðskiptum á Íslandi.