Valssaga Þorgrímur Þráinsson, höfundur Áfram hærra!, á milli heiðursfélaga Vals, Jóns Gunnars Zoëga og Péturs Sveinbjarnarsonar, sem fengu fyrstu bækurnar í hófi sem haldið var í tilefni útgáfunnar.
Valssaga Þorgrímur Þráinsson, höfundur Áfram hærra!, á milli heiðursfélaga Vals, Jóns Gunnars Zoëga og Péturs Sveinbjarnarsonar, sem fengu fyrstu bækurnar í hófi sem haldið var í tilefni útgáfunnar. — Morgunblaðið/Golli
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Áfram, hærra! Knattspyrnufélagið Valur í 100 ár, 1911-2011 eftir Þorgrím Þráinsson. Knattspyrnufélagið Valur á Hlíðarenda gefur út. 720 bls. í stóru broti.
Í bókinni Áfram, hærra! er 100 ára sögu Knattspyrnufélagsins Vals gerð skil með afar myndarlegum hætti. Bókin spannar rúmar sjö hundruð blaðsíður og hvarvetna er vandað til verka.

Útkoman er skrautfjöður í hatt höfundarins Þorgríms Þráinssonar sem augljóslega hefur lagt sál sína í verkefnið. Í ritnefndinni sátu Þorsteinn Haraldsson, Hanna Katrín Friðriksson og Guðni Olgeirsson. Fjórmenninganna vegna vona ég að Valsmenn og -meyjar geri sér grein fyrir því hversu mikil vinna liggur á bak við rit sem þetta.

Gömlum tíma gerð skil

Í inngangsorðum segir meðal annars að bókin sé ekki sagnfræðirit. Því er þó ekki að leyna að fyrir áhugafólk um sagnfræði er mikill fengur í þeim köflum bókarinnar sem fjalla um fyrstu árin og áratugina í sögu félagsins. Þar er til að mynda að finna margar ágætar ljósmyndir frá því snemma á 20. öldinni og í þeim felast ótvíræð verðmæti.

Þegar kemur að efnistökum hafa fjórmenningarnir ákveðið að setja sögu Vals í samhengi við sögu Reykjavíkur og einnig íþróttasögu þjóðarinnar. Mér þykir þetta vera snjöll nálgun hjá þeim enda hljóta íþróttafélögin í borginni að vera stór hluti af sögu hennar, alla vega ef mið er tekið af iðkendafjölda í félögunum í gegnum árin. Vinnan við bókina hefur svo sem verið nógu umfangsmikil þó að þessum vinkli væri ekki bætt við. Þetta segir því nokkuð um þann metnað sem liggur í vinnslu bókarinnar.

Annað atriði sem nefna má er að fyrir útgáfu bókarinnar voru nokkrir af dáðustu sonum og dáðustu dætrum félagsins fengin til að lýsa skoðun sinni á félaginu. Mikill fengur hlýtur að vera í því fyrir þá sem starfa í félaginu og koma til með að starfa í Val í framtíðinni.

Ég er einnig hrifinn af því hvernig bókin var brotin um. Dálkarnir eru brotnir upp á hverri síðu með mismunandi lit sem er að mínu viti mjög heppilegt í viðamiklum ritum. Fyrir vikið verður léttara að lesa bókina enda hljóta flestir að glugga í hana við og við frekar en að lúslesa hana frá a-ö.

Efni í tvær bækur?

Þegar farið er í gegnum vegleg afmælisrit sem þetta er yfirleitt hægt að finna bæði margt sem vel er gert og einnig margt sem betur hefði mátt fara. Í umsögnum sem þessum er einnig yfirleitt lagt upp með að tína til atriði af hvoru tveggja. Satt best að segja get ég ekki nefnt nein stór atriði varðandi þessa bók sem hefði verið hægt að vinna betur.

Helst má finna að praktísku atriði eins og því hversu stór og þung bókin er. Lesendur taka hana tæplega með sér í rúmið til að fletta henni. Þá má beddinn alla vega vera sterkbyggður til að bera þungann. Með þetta í huga vaknar sú spurning hvort skipta hefði mátt sögunni upp í tvær bækur fyrst farið var í jafn ítarlega vinnu og raun ber vitni.

Kristján Jónsson