Gísli Garðarsson fæddist í Neskaupstað 1. júní 1949. Hann lést í sjóslysi við Noregsstrendur 25. janúar 2012.

Gísli var sonur hjónanna Ingibjargar N. Jóhannsdóttur, f. 8.8. 1920, d. 16.7. 2007 og Garðars Lárussonar, f. 8.7. 1925, d. 4.12. 1986. Þau bjuggu í Neskaupstað. Gísli átti fjögur systkini. Elstur er Ólafur Haukur, f. f. 1.7. 1942, kvæntur og á einn son. Brynja, f. 12.4. 1955, gift og á þrjú börn. Dagbjört Lára, f. 4.2. 1960. Lára á þrjú börn. Ólöf Jóhanna, f. 4.2. 1960, gift og á tvö börn.

Gísli var giftur Valdísi Árnadóttur, f. 10.3. 1948. Foreldrar Valdísar eru Ásta Kristinsdóttir, f. 4.2. 1924 og Árni Vigfússon, f. 3.12. 1921, d. 23.7. 1995. Gísli og Valdís voru barnlaus. Valdís á fimm systkini sem öll eru á lífi.

Gísli ólst upp í Neskaupstað og fór snemma að starfa með föður sínum við störf tengd sjónum. Gísli fór til Reykjavíkur og tók verslunarpróf og svo stuttu síðar fór hann í Stýrimannaskólann og lauk þar prófi 1972. Ævistarf hans var að vinna og starfa á sjó. Gísli og Dísa giftu sig í Innri Njarðvíkurkirkju árið 1977. Þau fluttu austur og byggðu sér fallegt heimili að Þiljuvöllum, stutt frá æskuheimili Gísla. Gísli var í útgerð með föður sínum og áttu þeir happaskipið Fylki NK 102. Hann var einnig skipstjóri og stýrimaður á mörgum skipum og rak harðfisksverkun og saltfiskverkun samhliða útgerðarstarfinu. Dísa var alltaf hans hjálparhönd í öllum rekstri á landi og þar naut dugnaður þeirra og samheldni sín best. Þau hjón fluttu suður til Keflavíkur árið 1997 og byggðu sér fallegt heimili í Vatnsholtinu. Gísli var mikil náttúruunnandi og ferðaðist mikið erlendis og innanlands. Gísli var einstakur mannvinur og eiga því margir um sárt að binda við fráfall þessa góða drengs.

Minningarathöfn um Gísla Garðarsson verður í Ytri Njarðvík í dag, 24. febrúar 2012, og hefst athöfnin kl. 14.

Vertu nú sæll við kveðjumst kæri vinur

þú kvaddir okkur alltof, alltof fljótt.

Það húmar að er vonarheimur hrynur

í hljóðri bæn við bjóðum góða nótt.

Okkar á milli er afar fagur strengur

hann brestur ei þó leiðir skilji um stund.

Nú Guði falinn, glaði ljúfi drengur

þín góða minning hrærir mína lund.

Við áttum margar unaðsstundir saman

þú undir þér við leiki barna störf.

Þá oft var brosað undur, undur gaman

þú gleðigjafi þín var ætíð þörf.

Þú áttir hlýtt og göfugt bróður hjarta

með brosi þínu bættir hjartans mál.

Nú Guð þig leiði í veröld fargra, bjarta

og breiði faðminn móti þinni sál.

(Guðmundur Kr. Sigurðsson.)

Þín

Valdís (Dísa).

Við Gísli erum úr fimm barna hópi og alla tíð hefur verið sterkt samband okkar á milli, ekki minnkaði samband okkar við það að Guðni fór á sjóinn með Gísla og vorum við Dísa þá mikið saman heima. Vinátta þeirra Guðna var sönn og trú svo missir Guðna er mikill, þeir áttu saman bræðralag sem aldrei slitnaði. Dætur okkar áttu alltaf skjól hjá Gísla frænda sem var mikill barnakarl þótt ekki auðnaðist þeim Dísu að eignast barn sjálfum. Barnakarl var hann og átti hvert bein í öllum þeim börnum sem nutu nærveru hans, ef barnið beit ekki alveg strax á öngulinn átti Gísli leyniráð sem var harðfiskurinn hans, og bingó málið var leyst. Já, harðfiskurinn hans Gísla var meinhollur og góður og má segja að Gísli hafi haldið lífinu í Drífu okkar lítilli, það var aldrei nein Johnsons Baby-ilmur af Drífunni hans heldur fiskilykt frá frænda sem sat með hana og kroppaði ofan í hana harðfiskinn og leiddist það ekki. Skemmtilegar minningar eigum við frá jólum er Gísli lék jólasvein með svo miklum tilþrifum að hann var kominn upp í fjall þegar börnin hættu að horfa á eftir Kertasníki. Gísli fylgdist með öllum í fjölskyldunni og var umhugað um okkur og var alltaf gott til hans að leita, maður með risahjarta og glaðhlakkalega framkomu sem alla gladdi. Dagur Þór sem Gísli kallaði nafna sinn sem búmbubúa minnist frænda með bliki í augum þar sem allt var svo mikilfenglegt í kringum frænda sem átti bát og stóran húsbíl.

Gísli var fæddur í Neskaupstað og ólst þar upp við sjóinn með foreldrum og systkinum. Pabbi útgerðarmaður og heillaðist stráksi því fljótt að sjómennskunni og vildi feta í sömu spor, dreif sig í Stýrimannaskólann til að geta stjórnað sínum skipum sjálfur. Þeir feðgar ráku saman útgerð í mörg ár en seinna var Gísli einn með sinn bát, Fylki. Það var oft rekið á eftir Gísla að fara nú að ná sér í konu og hlógum við oft að því hvaða seinagangur væri á honum en hann vandaði valið og fann ástina sína hana Dísu okkar suður með sjó og flutti hún til hans á æskustöðvarnar. Þar undu þau sér vel í næsta húsi við foreldrahús Gísla. Á þeirra fallega heimili eigum við góðar og skemmtilegar minningar sem aldrei gleymast. Það urðu þó kaflaskil þegar þau ákváðu svo að flytja til Keflavíkur og reyndi Gísli oft að fá okkur með og Guðna með sér á sjóinn. En hafið gefur og hafið tekur, Gísli var lánsamur á sínum báti utan einu sinni er hann missti vin sinn í hafið og gréru þau sár aldrei í hjarta hans.

Sunnudaginn 22. janúar lagði Gísli í sína síðustu sjóferð. Kallið kom öllum að óvörum og engin svör. Ég, Jóhanna litla systir mín eins og Gísli kynnti mig, kveð með trega og það er svo sárt en mestur er missir Dísu sem missir elskuna sína sem elskaði hana út af lífinu. Gísli mun öðlast góðan stað í faðmi mömmu og pabba og vil ég þakka þér, elsku Gísli minn, fyrir að vera þú, þitt bos, þitt faðmlag og ekki síst fyrir að vera mér bæði sem bróðir og faðir eftir að pabbi dó.

Dísu og ástvinum sendum við okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Jóhanna litla systir.

Það er með sorg í hjarta sem ég festi þessar línur á blað þegar ég minnist elskulegs mágs míns Gísla Garðarssonar og svila.

Það er svo óraunverulegt að þú komir ekki til baka úr þessari sjóferð en þú varst tekinn allt of snemma frá lífsförunaut þínum henni Dísu systur. Ég man þegar þið Dísa voruð að byrja saman fyrir einum 37 árum og þú komst að sækja hana heim til mömmu og pabba á Kirkjubrautina, þá sögum við að prinsinn á hvíta hestinum væri kominn að sækja hana, þessi hjartahlýi höfðingi, nema þú varst ekki á hvítum hesti heldur á flottum Mercury Monark.

Gísli var skipstjóri og veiðimaður af lífi og sál og stundaði hann sjómennsku allt sitt líf. Þá hafði hann gaman af að fara á gæsa- og hreindýraveiðar með góðum vinum.

Dísa og Gísli voru mjög samrýmd og gerðu allt saman, t.d. voru þau saman til sjós á Fylki en hann átti alltaf eigin bát, þau verkuðu fisk um tíma þegar þau bjuggu í Neskaupstað þar sem Gísli ólst upp.

Gísli var alltaf svo lífsglaður, léttlyndur og jákvæður, ég minnst þess ekki að hann hafi nokkurn tímann verið í vondu skapi enda löðuðust þau að honum systkinabörnin. Hann var einstaklega góður við tengdamóður sína og gerði margt fyrir hana og var hann bæði greiðvikinn og hjálpsamur enda drengur góður.

Þau Dísa ætluðu að eyða ellinni saman og halda áfram að ferðast hér heima sem erlendis, við systkinin og fjölskyldur höfum farið í margar ferðirnar saman og var oft glatt á hjalla og verður þín sárt saknað úr hópnum, elsku Gísli. Við vitum að við verðum öll saman síðar.

Við biðjum Guð að styrkja Dísu systur í þessari miklu sorg og takast á við missinn en minningin um góðan dreng lifir í hjörtum okkar. Við kveðjum kæran vin og þökkum samfylgdina í gegnum árin.

Hver minning dýrmæt perla að liðnum lífsins degi,

hin ljúfu og góðu kynni af alhug þakka hér.

Þinn kærleikur í verki var gjöf, sem gleymist eigi,

og gæfa var það öllum, er fengu að kynnast þér.

(Ingibjörg Sigurðardóttir.)

Hulda Árnadóttir og

Guðmundur Halldórsson.

Elsku frændi minn, þú varst stór hluti af mínu lífi og minn besti vinur, ég sótti mikið til þín hvort sem það var símtal, að renna niður á höfn bara til að athuga hvort þú værir þar, upp í hús eða heim til þín og Dísu. Hvort sem það var bara spjall um daginn og veginn eða hjálp með eitthvað þá stóð aldrei á þér, alveg sama hvað það var.

Ekki fannst mér nú leiðinlegt að koma til Neskaupstaðar á sumrin og hitta uppáhalds frænda minn og fannst mér það góðar fréttir þegar þið fluttuð suður í Keflavíkina. Ég hefði viljað að litli Sölvi minn hefði fengið að kynnast Gísla afa sínum, þú varst svo spenntur þegar hann kom í heiminn og komst að skoða hann á sjúkrahúsið.

Minningarnar sitja eftir og er ég þakklátur fyrir að hafa fengið að kynnast þér brosandi kátum með gleraugun á nefinu, um borð í Fylki, út á sjó, á ferðalagi um landið og með svuntuna að hræra í sósupottinum á jólunum. Þú verður ávallt ofarlega í huga mér.

Stefán Örn Sölvason.

Elsku Gísli. Engin orð fá lýst sársaukanum að missa þig, kæri frændi, en megi ljóssins englar vera með þér. Þetta lag sungum við saman þegar amma dó og kveðjum við þig með því.

Líður þú um loftin blá,

og leitar heimahögum frá.

Þá munu ljóssins englar, ávallt fylgja þér.

Siglir þú um heimsins höf,

og hljótir mikla reynslu að gjöf.

Þá bíða ljóssins englar, hvar sem er.

Þó farir þú um fjarlæg lönd,

og farir langt frá þinni heimaströnd,

þá munu ljóssins englar ávallt fylgja þér.

Í huga þínum ljósin lýsa.

Landið mun úr hafi rísa.

Englarnir eru með þér.

Þú átt að vita að þeir munu veginn lýsa.

Vita að þeir munu veginn lýsa.

Ljóssins englar lýsa þér,

og leiðin heim svo greiðfær er.

Nú munu ljóssins englar ávallt fylgja þér.

Þó farir þú um fjarlæg lönd,

og farir langt frá þinni heimaströnd,

Þá munu ljóssins englar ávallt fylgja þér.

Já, hvert sem er.

(Kristján Hreinsson)

Takk fyrir allt, elsku frændi.

Drífa og Sunna.

Elsku Gísli minn, þín er sárt saknað. Ég á bágt með að trúa því að þú sért farinn frá okkur, allt of fljótt. Við sitjum eftir með tárin í augunum og sorg í hjarta. Þú varst svo yndislegar, lífsglaður og kátur, alltaf til staðar og alltaf til í hvað sem er. Þegar ég hugsa til þín þá sé ég þig fyrir mér með bros á vör, knúsandi hana litlu Evudísi þína. Oh, hvað litla afa gullið þitt saknar þín mikið. Þegar himinninn er stjörnubjartur þá leitar hún að stærstu stjörnunni sem er þín og segir: „Mamma, sjáðu þarna er stjarnan hans afa Gísla, er hún ekki fallegust?“

Elsku Gísli minn, þú lifir áfram í hjarta okkar. Við eigum ótal minningar, svo yndislegar minningar. Æskuárin á Neskaupstað hjá ykkur Dísu, hvort sem það voru ferðirnar á sumrin eða páskafríin, það var alltaf svo dásamlegt að koma til ykkar. Manstu eftir bílferðinni suður, ég var nú ekki gömul en ég man eftir þessari ferð eins og hún hafi gerst í gær. Við skemmtum okkur konunglega og ég fékk að borða eins margar pylsur og ég gat í mig látið. Árin ykkar Dísu fyrir sunnan voru líka ljúf. Þið hafið alltaf verið mér svo góð og kær. Ég mun alltaf passa upp á Dísu þína eins og ég lofaði þér fyrir svo mörgum árum.

Elsku Gísli minn, ég kveð þig nú, kæri vinur, og bið Guð að gæta þín.

Minning þín er mér ei gleymd;

mína sál þú gladdir;

innst í hjarta hún er geymd,

þú heilsaðir mér og kvaddir.

(Káinn.)

Þín,

Hildur Sölvadóttir.

Mig langar í örfáum orðum að minnast Gísla Garðarssonar. Ég er búin að þekkja Gísla síðan ég var lítil stelpa er Dísa frænka giftist honum. Ég man þegar ég hitti Gísla fyrst, í Njarðvík hjá afa og ömmu, þá var hann á svo flottum bíl, greinilega flottasta bíl Austfjarða því bíllinn hafði verið notaður til að keyra Karl Gústaf Svíakonung á Austfjörðum.

Gísli var einstakt ljúfmenni, alltaf jákvæður og glaður í bragði og var alltaf skemmtilegt að vera í kringum hann. Hann var barngóður og alltaf gaf hann sér tíma til að galsast í okkur frændsystkinunum og síðar okkar börnum.

Þegar ég var níu ára fékk ég að fara með afa og ömmu austur í Neskaupstað að heimsækja Dísu og Gísla. Við áttum að fljúga beint þangað en vegna mikils snjós urðum við að lenda á Egilsstöðum. Dvölin hjá Dísu og Gísla var skemmtileg og mér eftirminnileg m.a. vegna þess hve mikill snjór var þá í Neskaupstað og skemmti ég mér við að stökkva niður af efri hæðinni hjá Dísu og Gísla niður í snjóinn.

Fyrir allmörgum árum fluttu þau hjónin svo til Keflavíkur þar sem Gísli gerði út bátinn sinn Fylki.

Þegar ég fékk símtal um það að skipið sem Gísli ásamt fleirum var að ferja til Noregs hefði farist og þriggja væri saknað setti mig hljóða. Í viðtalinu við Eirík kom fram að Gísli hefði hjálpað Eiríki út og þar var Gísla rétt lýst, alltaf að hugsa um aðra á undan sjálfum sér.

Elsku Dísa mín, þinn missir er mikill, megi góður Guð gefa þér styrk til að takast á við þessa erfiðu tíma.

Blessuð sé minning Gísla Garðarssonar.

Agnes Elva Guðmundsdóttir.

Ég kveð þig nú

minn kæri vinur

Ég kveð þig nú

Í hinsta sinn.

Þú sigldir um sjóinn

í gárugum öldum

þú elskaðir það

eins og lífið sjálft.

Á örlagastundu

þú aldrei gafst upp,

á örlagastundu

þú hræddist ei.

Elsku Gísli á himnum þú dvelur

á himnum þú dvelur

verndar og gætir

þinnar heittelskuðu.

(Ásta Kristín Guðmundsdóttir.)

Gísli var hjartahlýr og góður maður sem ávallt fékk mig til að brosa og gleðjast yfir lífinu.

Gísla verður sárt saknað.

Minning hans lengi lifi.

Ásta Kristín

Guðmundsdóttir og

Þorgeir Ó. Margeirsson.

Sjórinn spegilsléttur, fjallasýnin svo skörp að hún skilur eftir far á sjónhimnunni, taktfastur slátturinn í dísivél Fylkis og hress rödd Gísla þegar hann kallar aftur á dekk „við erum komin, þá er bara að kasta“; minningarnar hópast saman og einhvern veginn var alltaf gott veður þegar við vorum að merkja fiska með þeim Gísla og Dísu. Þeir gleymast aldrei leiðangrarnir með Gísla á Fylki enda einvalalið um borð en auk Gísla og Dísu þá vorum við yfirleitt 4 frá Hafrannsóknastofnuninni, Vilhjálmur Þorsteinsson, leiðangursstjórinn sjálfur, Sigurður Gunnarsson sem kvarnaði þorskana svo hratt að ekki sáut handaskil og Hrefna Einarsdóttir konan hans sem aldrei brást fimin og var fljót að hjálpa með merkin þó að krókloppin væri. Allt um kring var síðan Dísa sem gekk í öll störf með sína góðu nærveru. Á þessum árum 1991-1993, var ég nýkomin úr námi frá Bandaríkjunum og var þetta mín fyrsta reynsla af rannsóknaleiðöngrum hér við Ísland. Farið var á milli fjarða á Austurlandi og merktir þorskar sem voru að ganga inn til hrygningar. Heppnin reyndist vera með okkur þegar Gísli fékkst til að sigla með okkur og lána okkur bátinn Fylki en hann hentaði einkar vel í þessar rannsóknir. Ekki var hægt að hugsa sér betri skipstjóra en Gísla en hann vissi deil á öllum sköpuðum hlutum og var óþreytandi að segja frá fiskum og mönnum. Erfitt þótti honum að sjá á eftir merktum þorskunum í sjóinn aftur en það kætti hann þó að sjá þá aftur ári seinna þegar þeir veiddust eftir langa veru í hafi. Gísli hefur verið sannur vinur alla tíð síðan þessir leiðangrar voru farnir. Hann hefur oft komið til hjálpar og nú síðast í Kollafirði vorin 2008-2009 þegar við vorum að setja út hlustunardufl til að fylgjast með hrygningaratferli þorskanna við Brimnesið.

Ég kveð þig, kæri vinur, og þakka þér fyrir allar frábæru stundirnar. Elsku Dísa, þér sendi ég innilegar samúðarkveðjur.

Guðrún Marteinsdóttir.

Gísli Garðarsson – Gísli á Fylki – er fallinn frá. Hann fór í sína síðustu sjóferð á togaranum Hallgrími SI þar sem ásamt honum fórust tveir félagar hans.

Vikunni fyrir þetta hörmulega sjóslys sat Gísli hjá mér og við ræddum um lokun á máli þar sem greiða- og hjálpsemi hans lýsti sér vel. Í flóknu stjórnkerfi fiskveiða koma stundum upp málefni sem þeir sem starfa eftir hafa ekki tekið eftir að þurfi að uppfylla. Bjarga þurfti yfirvofandi veiðiheimildamissi eins félagsmanns. Tíminn var að renna út. Hvern get ég hringt í? Jú – Gísla á Fylki. Ekki málið sagði Gísli, ég geng í þetta. Allt klappað og klárt stuttu síðar.

Nú sátum við hins vegar yfir því að ganga frá endunum. Við þá vinnu bar ýmislegt góma, fiskveiðistjórnunina, grásleppuna, lífríkið í sjónum, Hafró, ofl. Gísli hafði fastar og mótaðar skoðanir á öllum þessum þáttum. Skoðanir sem ég virti og hafa fært mér mikilvæga þekkingu. Hann sagði mér einnig frá símtali sem hann hefði fengið þar sem hann var beðinn að vera stýrimaður á togara sem ferja þurfti til Noregs. Heyra mátti á honum að lítið mál hefði verið að taka ákvörðun um það.

Þegar búið var að ræða málin og setja erindið í ákveðinn farveg kvöddumst við, með þeim orðum að við sæjumst í næstu viku þegar hann kæmi til baka frá Noregi.

Þær hörmungar sem dundu yfir nokkrum dögum síðar minnir óneitanlega á hversu stutt er á milli lífs og dauða, gleði og sorgar, feigs og ófeigs. Hættunnar sem ætíð vofir yfir sjómannsstarfinu þar sem náttúruöflin eira engu þegar sá gállinn er á þeim.

Gísla þakka ég fyrir afar góð kynni þar sem minningin um góðan dreng kemur í huga minn. Eiginkonu og aðstandendum votta ég mína dýpstu samúð.

Örn Pálsson.

„Hvað segirðu, hvað er að frétta?“ Þetta var það sem maður heyrði þegar maður hringdi í þig, en nú ert þú farinn, og það er erfitt að kyngja því, við sem áttum eftir að gera svo mikið saman. Við vorum búin að koma okkur svo vel fyrir á Flúðum, þið á A 1 og við á A 2 og mikið rætt um næsta sumar og ætluðum við að láta verða af því að fara upp á hálendið á Campernum ykkar þetta sumarið. Við gleymum ekki hvað þú gafst þér mikinn tíma með krökkunum okkar og barnabörnum, sagðir aldrei nei, nenntir alltaf að fara í göngutúra með þeim, dragandi bíla og ýtandi kerru á undan sér, enda var mikið talað um Gísla, og ekki má nú gleyma kennslustundinni hjá þér í færeyskum dönsum sem við fengum í einni útilegunni. Þið Dísa dönsuðuð og svo tókstu stelpurnar í kennslu, það var mikið gaman. Eða þegar við vorum að koma frá Danmörku með Norrænu, áttum við að gista tvær nætur í Færeyjum, við vorum búin að vera í sms-sambandi alla okkar ferð, en allt í einu sendir þú ein skilaboðin um að sambandið yrði ekki gott á næstunni vegna fjallvega sem þið Dísa væruð að keyra um í það skiptið, og þegar við vorum að koma á tjaldstæðið í Færeyjum varst þú fyrsti maðurinn sem við sáum við hliðið og tilbúinn að taka á móti okkur, ekki áttum við von á að hitta ykkur þar. En nú ert þú farinn í annað ferðalag.

Takk fyrir allt. Minning um góðan dreng mun lifa.

Hafþór (Haffi) og Kristín (Kiddý).