<strong>Á Alþingi</strong> Rólegheit í atvinnuvegnanefnd eru gagnrýnd, myndin er frá þingfundi í vikunni.
Á Alþingi Rólegheit í atvinnuvegnanefnd eru gagnrýnd, myndin er frá þingfundi í vikunni. — Morgunblaðið/Kristinn
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ómar Friðriksson omfr@mbl.is Þingmenn í stjórnarandstöðu gagnrýna harðlega hversu fá ríkisstjórnarmál sem varða atvinnulífið hafa komið til kasta Alþingis.
Ómar Friðriksson

omfr@mbl.is

Þingmenn í stjórnarandstöðu gagnrýna harðlega hversu fá ríkisstjórnarmál sem varða atvinnulífið hafa komið til kasta Alþingis. Stjórnarliðar boða að tvö stórmál, frumvarpið um stjórnkerfi fiskveiða og rammaáætlunin um vernd og orkunýtingu náttúrusvæða, verði lögð fyrir þingið innan nokkurra vikna.

Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sem sæti á í atvinnuveganefnd Alþingis, sagði við umræður á Alþingi sl. miðvikudag að atvinnumálin væru algerlega í lausu lofti og engar tillögur komið fram. Beðið hefði verið eftir nýjum tillögum um breytingar á fiskveiðistjórnkerfinu í marga mánuði og rammaáætlunin væri enn ekki í augsýn.

„Afleiðingin er sú, virðulegi forseti, að atvinnuveganefnd þingsins er atvinnulaus,“ sagði Jón og bætti við að frestað hefði verið fundi í atvinnuveganefnd, sem halda átti í gærmorgun vegna þess að það lægju engin stór mál fyrir þingnefndinni.

Áttu að koma fram í haust

Lilja Rafney Magnúsdóttir, þingmaður Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs og varaformaður atvinnumálanefndar, segir ástandið ekki svo slæmt að þingnefndin sé atvinnulaus eins og Jón komst að orði. Hún segir að það hafi verið undantekning að nefndarfundurinn sem halda átti í gær féll niður. „Þessi stærstu mál eru ókomin inn í nefndina en þarna eru mál sem við erum að fjalla um.“

Lilja Rafney telur að það sé spurning um einhverjar vikur þar til þessi stóru mál verða lögð fram á Alþingi og koma til kasta nefndarinnar. „Þessi tvö stóru mál eru væntanleg innan skamms. Menn er ekkert farið að lengja eitthvað óeðlilega eftir þeim, en við væntum þess að sjálfsögðu að þau verði fljótlega í mars komin inn á borð til okkar,“ segir hún. „Þá þurfum við ekkert að kvarta undan verkefnaleysi, sem við höfum reyndar ekki verið að gera. Það hafa verið alveg næg verkefni fyrir þá sem vilja sinna þeim málum.“

Sigurður Ingi Jóhannsson, þingmaður Framsóknarflokks, sem einnig á sæti í atvinnumálanefnd Alþingis, tekur í sama streng og Jón Gunnarsson. Þingmenn bíði eftir fiskveiðistjórnarfrumvarpinu, rammaáætluninni og fleiri stórum málum. Þessi stóru mál hafi öll átt að koma fram í haust og áttu að vera aðalverkefni atvinnumálanefndar í vetur. „En þau hafa ekki látið á sér kræla ennþá. Við höfum því verið að skoða eitt og annað á borð við laxeldi á Vestfjörðum, höfum lokið við einstök mál eins og skráargatið [hollustumerkið á matvörur] og til að hafa eitthvað fyrir stafni höfum við líka verið að skoða raforkumarkaðinn og skýrslu um jöfnun raforkukostnaðar en ekkert þessara mála eru stjórnarþingmál,“ segir hann.

Forsætisráðherra hafi sagt á Alþingi í gærmorgun að það væri á döfinni að leggja rammaáætlunina fyrir þingið, „en við höfum bara heyrt það áður. Ég mun ekki trúa neinu um það fyrr en mælt verður fyrir þessum málum hér í þingsal“, segir Sigurður Ingi.

Sjávarútvegsfrumvarpið og rammaáætlun verði afgreidd á vorþingi

Við upphaf þingfundar í gær spurði Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra hvort rammaáætlunin yrði lögð fram á næstunni og þá þannig, eins og sagt hefði verið frá í fjölmiðlum, að stjórnarflokkarnir hygðust binda hendur allra stjórnarliða fyrirfram þannig að í engu yrði hróflað við málinu eftir að það kæmi inn á þing. Þá spurði hann hvort fiskveiðistjórnarfrumvarpið kæmi í febrúar eins og lofað var eða í mars eða hvort það myndi jafnvel dragast framyfir páska.

Jóhanna sagði að nú væri verið að fara yfir umsagnir um rammaáætlunina og hún ætti að verða tilbúin á allra næstu dögum. Þá færi hún væntanlega sinn hefðbundna feril inn í ríkisstjórn, inn í þingflokka og síðan inn í þing og yrði vonandi samþykkt á vorþingi. Hið sama ætti við um fiskveiðistjórnarfrumvarpið, sem kæmist vonandi fljótt inn í þingið, þannig að hægt yrði að afgreiða það á þessu vorþingi.