Bóas Hallgrímsson vélstjóri fæddist á Grímsstöðum, Reyðarfirði, 30. júlí 1924. Hann lést á Dvalar- og hjúkrunarheimilinu Uppsölum 14. febrúar 2012. Foreldrar Bóasar voru Hallgrímur Bóasson, f. 4.6. 1881, d. 21.2. 1939, útgerðamaður og Nikólína Jóhanna Nikulásdóttir, f. 9.4. 1879, d. 22.7. 1967, húsmóðir Grímsstöðum, Reyðarfirði. Uppeldissystkini Bóasar voru Fanney Gísladóttir, f. 27.12. 1911, látin, Garðar Jónsson, f. 12.12. 1913, látinn, Haukur Líndal Arnfinnsson, f. 17.11. 1918, látinn og Ingibjörg Malmquist, f. 23.3. 1924, búsett í Reykjavík.

Bóas kvæntist 17. september 1956 Ingibjörgu Þórðardóttur, f. 10. maí 1931, d. 29. júní 2008. Börn þeirra eru: 1) Hallgrímur, f. 16.1. 1957, kvæntur Gerði Ósk Oddsdóttur, f. 16.1. 1960, þau eiga sex börn og fimm barnabörn. 2) Þórhalla, f. 9.6. 1958, gift Guðmundi Frímanni Þorsteinssyni, f. 6.1. 1960, þau eiga fjögur börn og þrjú barnabörn. 3) Jónas Pétur, f. 3.7. 1960, maki Soffía Björgvinsdóttir, f. 2.6. 1964, þau eiga þrjú börn. 4) Vilborg, f. 7.1. 1962, gift Erlendi Júlíussyni, f. 9.9. 1957, þau eiga tvö börn og tvö barnabörn. 5) Agnar, f. 19.8. 1963, maki Kristín Lukka Þorvaldsdóttir, f. 11.8. 1962, þau eiga tvö börn. 6) Jóhann Nikulás, f. 29.1. 1966, kvæntur Ásthildi Magneu Reynisdóttur, f. 26.8. 1969, þau eiga þrjú börn. 7) Þórður, f. 25.2. 1967, d. 24.6. 1984. 8) Sigurbjörg Kristrún, f. 9.5. 1968, gift Ólafi Ragnarssyni, f. 16.2. 1966, þau eiga fimm börn. 9) Bóas, f. 18.3. 1970, kvæntur Þóreyju Jónínu Jónsdóttur, f. 10.11. 1968, þau eiga tvö börn. 10) Fanney Ingibjörg, f. 18.4. 1971, gift Ingvari Friðrikssyni, f. 21.6. 1971, þau eiga þrjú börn. 11) Ásdís, f. 25.4. 1973, maki Sigurður Guðmundsson, f. 18.4. 1966. 12) Guðrún, f. 25.4. 1973, maki Guðjón Magnússon, f. 2.3. 1965, þau eiga þrjú börn.

Bóas ólst upp á Grímsstöðum, Reyðarfirði. Hann stundaði nám við barna- og unglingaskóla Reyðarfjarðar til 15 ára aldurs og fór þá til Siglufjarðar í gagnfræðaskóla. Árið 1946 tók Bóas minna mótorvélstjórapróf í Reykjavík og starfaði eftir það sem vélstjóri hjá Bjarma h/f, Goðaborg, Hrafnkeli NK Austfirðingi SU og Snæfugli SU 20. Bóas vann einnig hjá Vegagerð ríkisins um tíma. Frá 1973 vann hann við netagerð hjá Snæfugli og síðar Skipakletti h/f þar til hann hætti störfum 1997. Bóas vann mikið að verkalýðsmálum og var formaður Verkalýðsfélags Reyðarfjarðar í mörg ár, ásamt því að sinna ýmsum trúnaðarstörfum á vegum Verkalýðsfélagsins og Alþýðusambands Austurlands. Árið 1956 hófu Ingibjörg og Bóas búskap á Grímsstöðum, Reyðarfirði, og bjuggu þau þar allt til ársins 2006. Þá festu þau kaup á íbúð í Melgerði 13 en Bóas veikist það sumar og fluttist í kjölfar þess á Dvalar- og hjúkrunarheimilið Uppsali á Fáskrúðsfirði. Eftir að Bóas hætti störfum nutu þau hjónin þess að ferðast um landið hvort sem var tvö ein á sínum bíl, með börnum og barnabörnum eða í góðra vina hópi.

Útför Bóasar fer fram frá Reyðarfjarðarkirkju í dag, 24. febrúar 2012, kl. 14.

Við eigum minningar um brosið

bjarta,

lífsgleði og marga góða stund,

um mann sem átti gott og göfugt

hjarta

sem gengið hefur á guðs síns fund.

Hann afi lifa mun um eilífð alla

til æðri heima stíga þetta spor.

Og eins og blómin fljótt að frosti falla

þau fögur lifna aftur næsta vor.

(Guðrún Vagnsdóttir.)

Afi Bóas er dáinn. Þegar maður heyrði þessa setningu í símann 14. febrúar sl. fór hugurinn á flug. Upp í hugann kom fjöldinn allur af minningum frá liðinni tíð. Minningar um afa sem umvafði mann hlýju og kærleika, kannski ekki endilega með mörgum orðum, en nærveran var hlý og full af væntumþykju.

Upp komu minning frá gönguferðum um bæinn sem þú unnir svo heitt, Reyðarfjörð. Það var yndislegt að fá að ganga með þér um bæinn og heyra sögur af mönnum og málefnum liðinna tíma. Gönguferðir með þér upp í klettana fyrir ofan bæinn, þar sem þú opnaðir fyrir okkur ævintýraveröld bernsku þinnar er eitthvað sem við munum aldrei gleyma.

Að setjast niður með ykkur ömmu við eldhúsborðið á Grímsstöðum og njóta þess hversu víðlesin og margfróð þið bæði voruð var ungum sálum bæði hollt og gott. Og alltaf var nógur tími til að sinna ungviðinu, ekkert var til í ykkar tilveru sem hét stress að flýtir. Um að gera að setjast niður og ræða málin, og svara forvitnum ungum mönnum sem allt vildu fá að vita

Þegar þú veiktist og var vart hugað líf um tíma, sumarið 2006, sýndir þú svo sannarlega úr hverju þú varst gerður. Þú reist upp úr þeim miklu veikindum barðist eins og hetja og hafðir sigur! En þau tóku sinn toll, hjólastóllinn þurfti nú að vera fylgifiskur þinn þegar við fórum út í gönguferðir, en þú settir það ekki fyrir þig. Einn yndislegasti tími sem við áttum með þér var við sjúkrarúm þitt á Norðfirði. Þar sat Doddi löngum stundum, og þið spjölluðuð um alla heima og geima, fóruð í langar gönguferðir og hann naut þess að hlusta á þig tala um gamla og liðna tíð.

Yndislegt var líka að heimsækja þig á hjúkrunarheimilið Uppsali á Fáskrúðsfirði og finna hvað þér leið vel þar. Heimsóknirnar hefðu mátt vera miklu fleiri og sérstaklega undir lokin, en alltaf var þeim frestað, þangað til það var orðið um seinan, og eftirsjáin er mikil. En mitt í allri sorginni munum við hugga okkur við það, að þú varst hvíldinni feginn og ævistarfið er mikið og gott

Minning þín er ljós í lífi okkar.

Þórður Vilberg og Torfi Pálmar.

Mig langar með nokkrum orðum að minnast afa míns Bóasar Hallgrímssonar.

Elsku afi minn, sú nótt mun seint fara mér úr minni þegar mér var tilkynnt að þú værir farinn frá okkur. Það er gott að eiga margar yndislegar minningar um þig, og frá stundum okkar saman þegar ég var yngri. Að koma til ykkar ömmu Ingibjargar á Grímsstaði var alltaf notalegt. Það var vel tekið á móti manni, á hvaða tíma sólarhrings var. Oft sátum við öl saman í eldhúsinu og spjölluðum um allt milli himins og jarðar, amma bar alltaf fram dýrindis kræsingar eins og pönnukökur, kleinur, súkkulaði eða kanilsnúða. Notalega tíma áttum við 3 saman bæði við spjall og einning við spil inni í stofu. Þér fannst alltaf svo notalegt að spila við okkur, leggjast svo inn í dagstofu sem ég kallaði alltaf hvíldarherbergið þitt, og leggja þig og hlusta á Rás 1. Á kvöldin þegar fréttirnar voru í sjónvarpinu komstu þér alltaf notalega fyrir í græna stólnum þínum og horfðir á þær, en dottaðir alltaf fljótlega eftir að þær voru byrjaðar. Að fara með þér í þína daglegu göngutúra var æðisleg skemmtun. Ég mun alltaf dáðst að því hversu duglegur þú varst að fara í þessar gönguferðir. Ég mun aldrei gleyma þegar þú stóðst í kjallaradyrunum á Grímsstöðum í bláu peysunni með derhúfu og göngustafina tilbúin að fara út.

Fyrir um það bil 6 árum veiktist þú mikið og varst á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri. Þú varst búinn að vera máttlítill og gast ekki sest upp í rúminu þínu. En þegar við Bylgja Rún frænka komum til þín í fyrsta skipti, settist þú upp fyrir okkur og það var svo góð tilfinning að sjá afa Bóas geta setið í smástund. Við frændsystkinin þökkum guði svo innilega fyrir að hafa fengið að hafa þig hjá okkur í sex ár eftir þessi veikindi.

Þú hefur alltaf verið fyrirmynd mín, alltaf svo sterkur, hjálpsamur og tilbúinn að hlusta á allt og alla. Já, Minningarnar eru endalausar og tengdar virðingu og þakklæti, á svona erfiðum tímum er gott að setjast niður og ylja sér við allar þessar minningar sem ég á um afa Bóas.

Ég vil fá að þakka fyrir allt það sem þú gafst mér með því að vera ávallt til staðar tilbúinn að hlusta og hjálpa til ef eftir því var leitað. Að hafa setið hjá þér og ömmu og notið þess hversu fróð þið voruð eru forréttindi sem ég er þakklát fyrir að hafa fengið að njóta.

Elsku afi minn, ég veit að núna ertu kominn á betri stað hjá ömmu Ingibjörgu og Dodda frænda. Þín verður sárt saknað af okkur öllum.

Kallið er komið,

komin er nú stundin,

vinaskilnaðar viðkvæm stund.

Vinirnir kveðja

vininn sinn látna,

er sefur hér hinn síðsta blund.

Margs er að minnast,

margt er hér að þakka.

Guði sé lof fyrir liðna tíð.

Margs er að minnast,

margs er að sakna.

Guð þerri tregatárin stríð.

(Vald. Briem.)

Hvíldu í friði, þín

Stefanía Hrund.

Á stuttum tíma hafa fjórir fyrrverandi sveitungar mínir horfið af heimi og skilið eftir sig hinar mætustu minningar í muna mér. Nú hefur Bóas vinur minn Hallgrímsson sá góði og virti drengur kvatt, en um öll samskipti okkar á ég hinar beztu endurminningar. Bóas átti góða æsku í faðmi dugandi og samvizkusamra foreldra ágætra eiginleika, hann byrjaði snemma að taka til hendinni, sjórinn var hans vettvangur í æsku og frameftir fullorðinsárum og ævinlega var starf hans sjónum tengt. Hann kom myndarlega að farsælli og fengsælli útgerð heima með þeim frændum sínum, sannur sómi að því framtaki á sinni tíð og þar lagði Bóas gjörva hönd á plóg. Hann var verklaginn og vinnusamur, greindur maður og gjörhugull og rasaði hvergi um ráð fram, traustur og trúr í hverju einu sem hann tók sér fyrir hendur. Bóas var þrátt fyrir góða hæfileika sína ekki fyrir það að láta á sér bera, en sveitungar hans þekktu mannkosti hans og drenglyndi og vissu að þar áttu þeir hauk í horni þegar á þurfti að halda. Sem ungur maður átti Bóas sæti í sveitarstjórn sem varamaður og lagði þar sem annars staðar góðum málum lið. Síðar á æviveginum var Bóas um allmörg ár formaður Verkalýðsfélags Reyðarfjarðar og stýrði því af festu og raunsæi um leið, hann var einlægur verkalýðssinni vildi gjöra sitt til að rétta kjör hins vinnandi fólks. Samskipti okkar þá voru mikil og góð og oft tókum við tal saman um það sem efst var á baugi.

Bóas var vel látinn af samferðafólki sínu og sem lítið dæmi þar um man ég eftir að einu sinni sem oftar kom Bóas niður í þing og við fengum okkur sæti í kaffistofunni. Þar tóku þeir tal saman Guðmundur J. og Bóas og fór heldur betur vel á með þeim, en þeir áttu svo eftir að sitja saman á fundum í hreyfingunni og vænt þótti mér um fallega umsögn hins mikla mannþekkjara, er hann rómaði Bóas sem hinn einlæga og greinargóða mann með sína hógværu ákveðni, mann sem einkar gott væri að eiga að og vinna með.

Bóas var einstakur gæfumaður í einkalífinu, átti hina greindustu og gjörvulegustu konu sem hún Ingibjörg Þórðardóttir var og þau eignuðust fjöld ágætra barna sem bera foreldrum sínum báðum hið bezta vitni. Við síðustu samfundi á Uppsölum á Fáskrúðsfirði lét Bóas sem alltaf vel af sér, en glöggt að þrek var mjög þorrið, brosið hlýja þó enn til staðar sem alltaf áður. Ég á margar góðar og fölskvalausar minningar um Bóas Hallgrímsson og nú að leiðarlokum færi ég fram einlægar og vermandi þakkir fyrir mæta samveru um langan veg. Börnunum hans og þeirra fólki sendum við Hanna innilegar samúðarkveðjur. Blessuð sé minning hins mæta drengskaparmanns, Bóasar Hallgrímssonar.

Helgi Seljan.