Aðþrengdar Fjári góðar.
Aðþrengdar Fjári góðar.
Það er víst orðið móðins á hinu „nýja“ Íslandi að leggja öll spilin á borðið; opna sig fyrir alþjóð og draga ekkert undan.
Það er víst orðið móðins á hinu „nýja“ Íslandi að leggja öll spilin á borðið; opna sig fyrir alþjóð og draga ekkert undan. Eftir nokkra umhugsun hef ég ákveðið að koma fram og gera eina játningu, vitandi það að þurfa að taka við háðsglósum frá kynbræðrum mínum meðal vina, ættingja og starfsfélaga.

Ég játa semsagt að missa varla af þætti með Aðþrengdum eiginkonum, Desperate Housewives, sem hefur verið á skjá Sjónvarpsins frá örófi 21. aldarinnar. Nú er áttunda syrpan í gangi, og víst sú síðasta að sögn framleiðenda. Það eru engin sjónvarpslaus fimmtudagskvöld, eins og í gamla daga, því aðeins vinnan eða lífsnauðsynlegir atburðir hafa komið í veg fyrir að fimmtudagskvöld séu tekin frá fyrir Aðþrengdar eiginkonur. Þættirnir eru býsna vel gerðir og engin tilviljun að þeir njóti lýðhylli um allan heim og séu margverðlaunaðir. En þeir lýsa ekki síður aðþrengdum eiginmönnum eins og eiginkonum og þar liggur skýringin á aðdráttaraflinu sem þættirnir hafa. Karlmenn! Það er engin skömm að því að viðurkenna að horfa á Aðþrengdar. Ykkur mun líða miklu betur á eftir, að koma út úr þessum skáp. Treystið mér!

Björn Jóhann Björnsson