Helgi Eiríkur Magnússon fæddist í Másseli í Jökulsárhlíð 15. ágúst 1928. Hann lést í Árskógum 1, Egilsstöðum, 10. janúar 2012.

Eiríkur var jarðsunginn frá Egilsstaðakirkju 21. janúar 2012.

Ég kynntist hjónunum í Hólmatungu fyrst þegar ég var 14 ára. Þau opnuðu heimili sitt og hjarta upp á gátt fyrir náttúrubarninu sem óskaði einskis annars en að komast í sveit og vera í sauðburði. Þar sem ég kunni best við útiverkin fékk ég að fylgja Eiríki eins og skugginn, taka á móti lömbum, dýfa höndunum í kar, dreifa heyi á garðana, moka skít og svo lengi mætti áfram telja.

Eiríkur og ég áttum margar skemmtilegar samræður gegnum tíðina, en hann var maður vel lesinn. Hann svaraði ætíð öllum spurningum mínum af greiðvikni, þó að honum væri stundum skemmt. „Ef þú værir rolla, Eiríkur, heldur þú að þú værir forysturolla?“ Við spjölluðum um draumfarir, hann kenndi mér ný orð yfir veðurfar, hvenær fuglarnir svæfu og það kom fyrir alveg spari að við gáfum rollunum pínu neftóbak og hlógum svo eins og vitleysingar við viðbrögðum þeirra.

Eitt sinn vorum við Eiríkur í fjárhúsunum. Ég hélt að ég hefði fundið kettling, og rak andlitið alveg upp að hvæsandi kvikindinu sem hafði falið sig milli fóðurtunna. Svo brá mér við. Þetta var minkur og varð uppi fótur og fit hjá okkur Eiríki að ná honum. Minkurinn hlaut síðan snöggan dauðdaga með hjálp heykvíslar og snarræðis Eiríks. Var honum sennilega ansi skemmt yfir að ég hafi rekið andlitið alveg framan í varginn og sagt „kisa, kisa, kis“ blíðum rómi, sem og uppnám mitt yfir þessu en ég var smástund að ná mér niður eftir þennan æsispennandi eltingaleik.

Þegar ég kom fyrst í sauðburðinn, tók ég ævi og örlög lambanna afar nærri mér, en ef svo bar undir beið mín ætíð hlýr faðmur Gunnþórunnar. Ég komst ekki upp með annað en að vera föðmuð og gráta fögrum tárum á öxl hennar. Gunnþórunn elskaði að gera vel við mig, og er hún sannur snillingur í íslenskri matargerð eins og hún gerist best. Það fer enginn svangur frá Hólmatungu. Ber þar helst að nefna frosnu lifrarkæfuna – en það fór þannig að ég hringdi í útvarpsþáttinn „Toppurinn á tilverunni“, meðan sá þáttur var og hét, og sagði að ég teldi að heimagerða lifrarkæfan hennar væri toppurinn, Gunnþórunni til mikillar gleði. Mér eru mjög minnisstæð nokkur skipti þegar hún var að stríða Eiríki og við reyndum leynt og ljóst að fela hláturinn, en það endaði oftast þannig að við hlógum svo mikið að við komum upp um okkur.

Gunnþórunn, Eiríkur og börn þeirra tóku alltaf vel á móti mér og hef ég aldrei fundið fyrir öðru en hlýju og að ég væri velkomin í áranna rás. Náttúran í Jökulsárhlíðinni er stórbrotin og fólkið sem hana byggir ekki minna merkilegt. Það eru forréttindi að fá að dvelja í svo fögrum fjallasal og ekki síst að vera í svo góðum félagsskap. Ég mun ævinlega vera þakklát fyrir kynni mín af þessu góða fólki, en vinátta og væntumþykja hafa myndast sem munu alltaf halda.

Það er með sorg í lund sem ég kveð vin minn Eirík um leið og ég votta fjölskyldu hans mína dýpstu samúð.

Deyr fé,

deyja frændur,

deyr sjálfur ið sama;

en orðstír

deyr aldregi,

hveim er sér góðan getur.

(Úr Hávamálum.)

Heiðdís Anna

Þórðardóttir.