Víkverji dagsins er yfir sig hrifinn af fyrirtækinu Dróma sem tók yfir lán sem tvö sáluð félög, Frjálsi fjárfestingabankinn og Spron, veittu.

Víkverji dagsins er yfir sig hrifinn af fyrirtækinu Dróma sem tók yfir lán sem tvö sáluð félög, Frjálsi fjárfestingabankinn og Spron, veittu. Ekki er Víkverji þó að taka afstöðu til deilnanna milli Dróma og þeirra sem eru í skuldafjötrum og ósáttir við innheimtuaðferðirnar. En honum finnst nafnið einstaklega viðeigandi. Það merkir nefnilega fjötur og er úr Gylfaginningu.

Fleiri fyrirtæki mættu taka Dróma til fyrirmyndar, segja viðskiptavinum allan sannleikann með sjálfu fyrirtækisnafninu.

Æsir voru orðnir smeykir við ofurafl Fenrisúlfsins og létu gera öflugan fjötur til að binda hann, segir í Gylfaginningu. Ekki dugði þó Drómi, úlfurinn sleit hann léttilega. Má það verða hrjáðum skuldunautum fjármálafyrirtækisins nokkur huggun en eigendum skuldanna hrelling.

En lýsing Gylfaginningar á eftirleiknum þegar Drómi hafði verið slitinn sýnir að enginn skyldi fagna sigri of snemma.

„Eftir þat óttuðust æsirnar, at þeir myndi eigi fá bundit úlfinn. Þá sendi Alföðr þann, er Skírnir er nefndr, sendimaðr Freys, ofan í Svartálfaheim til dverga nökkurra ok lét gera fjötur þann, er Gleipnir heitir. Hann var gerr af sex hlutum: af dyn kattarins ok af skeggi konunnar ok af rótum bjargsins ok af sinum bjarnarins ok af anda fisksins ok af fugls hráka.“

Þessi magnaði fjötur dugði.

Nú hrósa erlendir hagspekingar Íslendingum fyrir að ganga þjóða lengst í að létta skuldabyrði af almenningi. Víkverji er farinn að velta því fyrir sér hvort þjóðin sé aftur búin að finna upp peningatöfraformúlu. Fyrir hrun vissum við allt betur en aðrir og ef tilfærslan á skuldunum gengur eftir nálgumst við óðfluga sama ástand, með breyttum formerkjum. Hmmm...