Einkabréfin opinberuð Nýtt líf birtir kafla úr bréfum Jóns Baldvins sem hann skrifaði Guðrúnu Harðardóttur.
Einkabréfin opinberuð Nýtt líf birtir kafla úr bréfum Jóns Baldvins sem hann skrifaði Guðrúnu Harðardóttur.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Guðni Einarsson gudni@mbl.is Jón Baldvin Hannibalsson, fyrrverandi utanríkisráðherra og sendiherra, var kærður fyrir meint kynferðisbrot 6. september 2005.
Guðni Einarsson

gudni@mbl.is

Jón Baldvin Hannibalsson, fyrrverandi utanríkisráðherra og sendiherra, var kærður fyrir meint kynferðisbrot 6. september 2005. Kærandi var Guðrún Harðardóttir, en hún er systurdóttir eiginkonu Jóns Baldvins og 45 árum yngri en hann. Greint er frá málinu og samskiptum Jóns Baldvins við Guðrúnu á árunum 1994-2001 í tímaritinu Nýju lífi sem kom út í gær. Þóra Tómasdóttir, ritstjóri Nýs lífs, rekur þar bréfaskriftir Jóns Baldvins til Guðrúnar á árunum 1998 til 2001 og birtir myndir af sumum bréfanna. Saga málsmeðferðarinnar er rakin og birt viðtal við Guðrúnu. Hún segir þar m.a. að bréf Jóns Baldvins hafi valdið sér hræðslu. Þá sé fjölskyldan splundruð vegna málsins.

„Reglulega kemur upp hjá mér reiði, sorg eða biturð yfir þessu máli og nú langar mig að koma því frá mér,“ segir Guðrún við Nýtt líf. Hún segist vilja að fólk geti lesið bréfin og séð hvað í þeim stendur.

Guðrún lagði fram átta bréf frá Jóni Baldvini. Fimm þeirra voru send 1998, þegar Guðrún var 14 ára, og þrjú 2001 þegar Guðrún var 16-17 ára. Eitt bréfanna frá 1998 var sent til Guðrúnar í Hagaskóla þar sem hún var í 8. bekk. Þar segir að Jón Baldvin hafi sent bréfið í skólann því henni þætti ef til vill óþægilegt að fá þessi bréf heim til sín.

Í bréfi sem Jón Baldvin skrifaði 15. nóvember 1998 bað hann Guðrúnu að „halda þessum bréfaskriftum leyndum, þangað til 50 árum eftir okkar dag?“ Ríkissaksóknari tók ekki afstöðu til þess hvort efni bréfanna frá 1998 og háttsemi Jóns Baldvins bryti gegn hegningarlögum því meint eða ætluð brot væru fyrnd.

Öðru máli gegndi með bréfin frá 2001 og er gerð ítarleg grein fyrir efni þeirra í Nýju lífi. Fram kemur að í ákvörðun ríkissaksóknara um að fella málið niður hafi sérstaklega verið fjallað um tvö bréf sem Jón Baldvin skrifaði og sendi Guðrúnu 2001. Það fyrra var skrifað í Tallinn í Eistlandi 16. apríl 2001. Nýtt líf segir að Jón Baldvin hafi verið þar í opinberum erindagjörðum. Í samtali við mbl.is í gær sagði Jón Baldvin það ekki rétt, í þetta skipti hefði hann verið í Tallinn í einkaerindum.

Í bréfinu frá Tallinn lýsir Jón Baldvin því að hann hafi hitt vændiskonur á veitingahúsi í borginni. Þær voru á aldur við Guðrúnu og minntu hann á hana. Jón Baldvin lýsti samskiptum sínum við vændiskonurnar og heimspekilegum samræðum við þær um nóttina. Í bréfinu hvatti Jón Baldvin Guðrúnu til að skrifa sér í sendiráðið í Washington en bað hana að merkja bréfin „PRIVAT“. Guðrún segir í viðtali við Nýtt líf að hún hafi orðið hrædd við lestur þessa bréfs.

Hitt bréfið var sent frá Washington D.C. í júní 2001 og greindi Jón Baldvin Guðrúnu frá því að hann sendi henni í hraðpósti „ljúfa lofnarsögu“, bókina „In Praise of the Stepmother“ eftir Mario Vargas Llosa. Jón Baldvin rekur efni bókarinnar og fer svo að lýsa kynlífi sínu með eiginkonu sinni. Um áhrifin af lestri þessa bréfs segir Guðrún:

„Ég varð brjálæðislega hrædd og áttaði mig á því að þetta væri alls ekki í lagi.“

Í eftirskrift greinir Jón Baldvin Guðrúnu frá því að hann verði „aleinn og yfirgefinn“ um tíma þá um sumarið og hvetur hann hana til að koma við í „höfuðborg heimsins – gegnum Baltimore – og stytta mér stundir. Nóg er plássið í höllinni“.

Jón Baldvin játaði það við yfirheyrslu hjá lögreglunni 15. febrúar 2006 að hafa skrifað bréfin frá 2001.

Ríkissaksóknari sagði að ætlað brot hefði verið framið erlendis. Þar eð brotið var ekki refsivert í Venesúela, þar sem Guðrún opnaði bréfið, var málið fellt niður 2007.

Baðst afsökunar

Jón Baldvin sagði í samtali við mbl.is í gær að um væri að ræða tólf ára gamalt mál og að hann hefði beðist afsökunar fyrir tólf árum. Hann sagði að málið hefði tvisvar verið kært og lögreglan rannsakað það. Því hefði verið vísað frá á þeirri forsendu að kæran væri tilefnislaus. Þá vitnaði hann til afsökunarbréfs síns í Fréttablaðinu í gær.

KÆRÐI JÓN BALDVIN FYRIR ÆTLUÐ KYNFERÐISBROT Á ÁRUNUM 1994-2001

Málið var fellt niður vegna laga í Venesúela

6.9. 2005 Guðrún Harðardóttir kærir Jón Baldvin Hannibalsson fyrir ætluð kynferðisbrot á árunum 1994-2001.

13.12. 2005 Lögreglustjórinn í Reykjavík telur ekki tilefni til að hefja lögreglurannsókn í málinu.

19.12. 2005 Guðrún kærir frávísun lögreglunnar til ríkissaksóknara.

20.1. 2006 Ríkissaksóknari fellir frávísun málsins úr gildi og fyrirskipar lögreglurannsókn.

14.2. 2006 Lögreglustjóri skrifar dómsmálaráðuneytinu og spyr hvort ákvæði um hátterni sem særir blygðunarsemi og eru samhljóða íslenskum lögum sé að finna í lögum í Venesúela og Washington D.C.

15.2. 2006 Jón Baldvin yfirheyrður hjá lögreglustjóraembættinu í Reykjavík.

7.3. 2006 Dómsmálaráðuneytið sendir beiðni lögreglustjóra áfram til utanríkisráðuneytisins.

30.1. 2007 Utanríkisráðuneytið svarar varðandi refsilöggjöf í Washington D.C.

21.3. 2007 Utanríkisráðuneytið svarar varðandi refsilöggjöf í Venesúela.

29.3. 2007 Ríkissaksóknara berast gögn frá lögreglustjóra varðandi refsilöggjöf í Venesúela.

29.3. 2007 Ríkissaksóknari fellir málið niður. Í rökstuðningi segir að samkvæmt lögum í Venesúela sé skilyrði að brotið sé framið á almannafæri. „Sú háttsemi [Jóns Baldvins] að senda kæranda sendibréf, stílað á [Guðrúnu], getur ekki talist háttsemi viðhöfð á almannafæri. Eru því ekki efni til frekari aðgerða í málinu.“ Einnig kom fram hjá ríkissaksóknara að samfaralýsing í bréfi Jóns til Guðrúnar kunni að falla undir verknaðarlýsingu 209 gr. almennra hegningarlaga.

Heimild: Nýtt líf

Einkabréf sendiherrans
» Jón Baldvin Hannibalsson er fæddur 1939. Guðrún Harðardóttir er fædd 1984.
» Guðrún er systurdóttir eiginkonu Jóns Baldvins. Hún sakar hann um að hafa sýnt sér óeðlilegan áhuga og að hafa verið áleitinn við sig.
» Máli sínu til stuðnings lagði Guðrún fram átta bréf frá Jóni Baldvini sem hann sendi henni á árunum 1998 til 2001.