Kristján Jónsson kjon@mbl.is Talið er að Vesturveldin og mörg ríki Arababandalagsins muni á fundi sínum í Túnis í dag krefjast þess að stjórnvöld í Sýrlandi leyfi að veitt verði mannúðarstoð, að sögn ónefnds stjórnarerindreka.
Kristján Jónsson

kjon@mbl.is

Talið er að Vesturveldin og mörg ríki Arababandalagsins muni á fundi sínum í Túnis í dag krefjast þess að stjórnvöld í Sýrlandi leyfi að veitt verði mannúðarstoð, að sögn ónefnds stjórnarerindreka. Sýrlenski herinn hefur nú í nær þrjár vikur haldið uppi stanslausum sprengjuárásum á borgina Homs sem er eitt aðalvígi andstöðunnar við Bashar al-Assad forseta. Ástandið í borginni er sagt skelfilegt.

Sjónarvottar lýstu í gær „gríðarlegum sprengingum“ í Homs. Alþjóðanefnd Rauða krossins hvatti í vikunni til þess að gert yrði tveggja stunda vopnahlé einu sinni á dag til þess að ráðrúm gæfist til flytja óbreyttum borgurum á átakasvæðum lyf og aðrar nauðsynjar.

Óhug hefur vakið að hermenn stjórnvalda virðast nú reyna að hræða erlenda fréttamenn frá því að segja frá ástandinu. Tveir þeirra, bandaríski fréttamaðurinn Marie Colvin og franski ljósmyndarinn Remi Olchik, létu lífið á miðvikudag þegar flugskeytum var skotið á bráðabirgðamiðstöð fyrir fjölmiðla í Homs. Einnig féll sýrlenski fréttamaðurinn Rami al-Sayed og nokkrir erlendir fréttamenn særðust. Í myndbandi sem Colvin gerði fyrir BBC á þriðjudag lýsti hún árásunum á borgina.

„Ég horfði á barn deyja í dag. Þetta var alveg hryllilegt. Sprengjukúlum og flugskeytum rignir látlaust yfir hverfi þar sem óbreyttir borgarar búa,“ sagði hún.

Uppreisnarmaður í Homs, Hadi Abdullah, sagði að allt benti til að miðstöðin hefði af ásettu ráði verið gerð að skotmarki: alls hefðu 11 flugskeyti lent á henni. Farsímasamskipti milli andófshópa í borginni hefðu stöðvast vegna þess að fjarskiptamastur hefði verið sprengt.

Þúsundir hafa fallið
» Talið er að meira en 7.600 manns hafi fallið í átökunum í Sýrlandi sem staðið hafa í 11 mánuði.
» Ríkin sem hittast á morgun í Túnis kalla sig Vini Sýrlands.
» Rússar og Kínverjar beittu fyrir skömmu neitunarvaldi í öryggisráði SÞ til að fella tillögu þar sem grimmdarverk Assads voru fordæmd.