Gengislán og skattar Áhugasamir komu til að hlusta á sérfræðinga KPMG ræða fordæmisgildi gengislánadóms.
Gengislán og skattar Áhugasamir komu til að hlusta á sérfræðinga KPMG ræða fordæmisgildi gengislánadóms.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sigrún Rósa Björnsdóttir sigrunrosa@mbl.is Hugsanlegt er að fordæmisgildi nýfallins gengislánadóms sé ekki mikið. Þetta kom fram í máli Sigurjóns Högnasonar lögfræðings á morgunverðarfundi KPMG í gærmorgun, þar sem hann og Alexander G.
Sigrún Rósa Björnsdóttir

sigrunrosa@mbl.is

Hugsanlegt er að fordæmisgildi nýfallins gengislánadóms sé ekki mikið. Þetta kom fram í máli Sigurjóns Högnasonar lögfræðings á morgunverðarfundi KPMG í gærmorgun, þar sem hann og Alexander G. Edvarðsson hjá KPMG fóru yfir dóminn með hliðsjón af fordæmisgildi hans.

Sigurjón segir dóminn hafa fordæmisgildi gagnvart sambærilegum málsatvikum og hafa verði í huga að erfitt sé að átta sig á hvenær málsatvik eru sambærileg. Hæstiréttur hafi í niðurstöðu sinni litið heildstætt á nokkra þætti en erfitt sé að greina vægi hvers þáttar fyrir sig. Þannig sé spurning hvort Hæstiréttur sé að marka stefnu um að gefa neytendavernd meira vægi, þannig að óbein áhrif af dómnum verði meiri.

Sigurjón vék einnig að mögulegum skattalegum áhrifum dómsins. Tók hann þar til þess að mismunur vaxtagreiðslna fyrir og eftir dóm gæti í raun myndað skattskyld fjárhagsleg gæði í skilningi tekjuskattslaga. Í því sambandi kom hann inn á bráðabirgðaákvæði í tekjuskattslögunum, sem kveður á um undanþágu frá skattskyldu vegna eftirgjafa skulda. Hann sagði það ákvæði eiga við þegar fólk ætti í greiðsluerfiðleikum og fengi af þeim sökum niðurfellingu. Í þessu tilviki hefði ekki verið um greiðsluerfiðleika að ræða þar sem hjónin hefðu ávallt staðið í skilum. Sigurjón tók að endingu fram að í þessu efni væri það skattyfirvalda að skera úr um skattskylduna.

RSK metur áhrif dómsins

„Almennt séð hefur ríkisskattstjóri gefið það út að ef um er að ræða breytingar á skilmálum og slík skilmálabreyting leiði til minni greiðslubyrði, þá myndar það ekki skattskyldar tekjur,“ segir Skúli Eggert Þórðarson ríkisskattstjóri. Hjá embættinu sé unnið að því að greina umræddan dóm og meta hann. Fjármálaráðuneytinu verði síðan gerð grein fyrir því hvaða afleiðingar hann hefur.

Með almennri skilmálabreytingu sé þá átt við breytingu sem gildi fyrir alla sem taki sambærileg lán.

„Sé skuld gefin eftir eða felld niður án þess að um skilmálabreytingu sé að ræða myndar sú niðurfelling tekjur, nema sérstaklega sé kveðið á um það í lögum að hún sé ekki undanþegin,“ segir Skúli Eggert.

GENGISLÁNADÓMUR

Raunvextir eða reiknaðir

Alexander G. Eðvardsson, sviðsstjóri skatta- og lögfræðisviðs KPMG fór meðal annars myndrænt yfir álitaefni gengislánadómsins. Í málinu var deilt um hvort greiða ætti mismun á LIBOR-vöxtum og seðlabankavöxtum. Töldu fjórir af sjö dómurum Hæstaréttar að lántakendurnir ættu ekki að greiða vaxtamuninn fyrir liðna tíð enda hefði fjármálafyrirtækið fyrirgert rétti sínum til frekari greiðslu vaxta með útgáfu fullnaðarkvittana fyrir greidda vexti.

Grafið hér til hliðar sýnir dæmi um mun á raunverulega greiddum vöxtum og reiknuðum á 40 ára láni. Tekið er dæmi um 10 milljóna evra lán sem var tekið árið 2002.

Sýndur er mismunur seðlabankavaxta í hverjum mánuði og LIBOR-vaxta. Í fjólubláu línunni er miðað við að seðlabankavextir séu reiknaðir ofan á höfuðstól. Bláa línan sýnir hins vegar raunverulega greidda LIBOR-vexti.

Brúna línan sýnir svo hvernig hefði farið ef skuldurum hefði verið leyft að nota lágu LIBOR-vextina á íslenskan höfuðstól.

Bláa og brúna línan fylgjast að á meðan gengi krónunnar er stöðugt en svo skilur á milli þegar gengið fellur.

Allar línurnar liggja saman frá þeim tíma er lög nr 151/2010, er kveða á um endurreikning lána, tóku gildi.