Á undanhaldi Liðsmenn uppreisnarsamtakanna al-Shabab munda sprengjuvörpur. Þau tengjast hryðjuverkasamtökunum al-Qaeda.
Á undanhaldi Liðsmenn uppreisnarsamtakanna al-Shabab munda sprengjuvörpur. Þau tengjast hryðjuverkasamtökunum al-Qaeda. — AP
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Karl Blöndal kbl@mbl.is Ýmislegt bendir til þess að nú sé lag að binda enda á 20 ára hörmungar í Sómalíu.
Baksvið

Karl Blöndal

kbl@mbl.is

Ýmislegt bendir til þess að nú sé lag að binda enda á 20 ára hörmungar í Sómalíu. Á fjölþjóðlegri ráðstefnu í London í gær var hvatt til þess að gripið yrði til aðgerða og sagði David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, að það yrði „dýru verði keypt“ að sitja með hendur í skauti því að „vandi Sómalíu hefði ekki aðeins áhrif á Sómalíu. Hann hefur áhrif á okkur öll“.

Hillary Clinton, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, sagði að Bandaríkin myndu þrýsta á um refsiaðgerðir, þ. á m. farbann og frystingu eigna, á hendur þeim, sem stæðu í vegi fyrir því að brothætt bráðabirgðastjórn Sómalíu næði árangri.

Í Mogadishu, höfuðborg Sómalíu, mátti í gær sjá breska fána á lofti til stuðnings ráðstefnunni þar sem saman eru komnir fulltrúar um 40 landa, þar á meðal Eþíópíu, Úganda og Kenía auk Sameinuðu þjóðanna, Afríkusambandsins og Arababandalagsins. Fréttaskýrendur hafa þó efasemdir um að næg athygli muni beinast að Sómalíu, sérstaklega í ljósi ástandsins í Sýrlandi um þessar mundir.

Bitbein í kalda stríðinu

Sómalía hefur verið í upplausn síðan 1991, land án ríkis. Mörg hundruð þúsund manns hafa látið lífið í landinu vegna hungursneyðar og átaka. Einkum hefur þó athygli beinst að Sómalíu vegna tíðra sjórána undan strönd landsins. Um þrjú þúsund km strandlengja þess liggur að Adenflóa þar sem um 20 þúsund skip sigla á ári hverju og Indlandshafi.

Sómalía ásamt Eþíópíu, Erítreu og Súdan hefur verið þungamiðja ofbeldis og átaka í heiminum. Vegna legu sinnar urðu þau að bitbeini í kalda stríðinu. Einhvern tímann var sagt að einræðisherrar á þessum slóðum þyrftu aðeins að taka upp símann til að fá send vopn frá Bandaríkjunum eða Sovétríkjunum. Fyrst var Sómalía áhrifasvæði Kremlar og Washington með ítök í Eþíópíu. Þegar Haile Selassie var myrtur og nýir valdhafar kváðust aðhyllast marxisma snerist taflið við. Þótt Sómalía væri orðið peð Bandaríkjamanna héldu vopnin áfram að streyma til landsins.

Þegar kalda stríðinu lauk hrundu stjórnir þessara tveggja landa. Fjarað hafði undan Siad Barre, einræðisherra í Sómalíu, á níunda áratugnum og var hann kallaður „borgarstjórinn í Mogadishu“ vegna þess hvað ítök hans voru lítil utan höfuðborgarinnar.

Í Sómalíu búa á milli sjö og átta milljónir manna. Þeir tala flestir sama tungumál, sómölsku, og eru múslímar, súnnítar nánar tiltekið. Í landinu eru hins vegar miklir flokkadrættir milli ættbálka þótt ekki sé alls staðar jafnróstusamt.

Bandaríkjamenn hugðust reyna að stilla til friðar þegar þeir gengu á land í Sómalíu 1992, en hurfu á braut með skottið á milli fótanna tveimur árum síðar.

Frá 2007 hafa um 10.000 friðargæsluliðar á vegum Afríkusambandsins verið í Sómalíu til að verja bráðabirgðastjórnina fyrir uppreisnarmönnum. Í ágúst voru þeir hraktir frá Mogadishu, en hafa haldið uppi skærum með bílsprengjum og sjálfsmorðsárásum. Uppreisnarmennirnir eru aðþrengdir, en þeir neita að gefast upp.

Þegar hefur verið ákveðið að halda aðra ráðstefnu um Sómalíu í Istanbúl í júní.

VÍGAMENN Á UNDANHALDI

Tengjast al-Qaeda

Uppreisnarsamtökin al-Shebab spruttu fram eftir að Eþíópía réðst inn í Sómalíu 2006. Nafnið merkir „æska“ á arabísku og hefur samtökunum verið líkt við talibana í Afganistan. Samtökin höfðu náð hlutum höfuðborgarinnar, Mogadishu, á sitt vald, en hafa nú verið hrakin þaðan. Þau ráða þó enn svæðum í suðurhluta landsins og gilda þar íslömsk lög, sjaría.

Talið er að í samtökunum séu fimm til átta þúsund manns, þar af tvö þúsund þrautþjálfaðir hermenn og eru tvö hundruð útlendingar í þeim hópi. Al-Shebab lýsti yfir stuðningi við Osama bin Laden 2009. Í liðinni viku sagði arftaki bin Ladens, Ayman al-Zawahiri, að vígamenn al-Shebab hefðu gengið í al-Qaeda.