Vinnufundur Alþingi hefur boðað stjórnlagaráð til fjögurra daga fundar.
Vinnufundur Alþingi hefur boðað stjórnlagaráð til fjögurra daga fundar. — Morgunblaðið/Ómar
Salvör Nordal, sem var formaður stjórnlagaráðs, segist í bréfi til forsætisnefndar Alþingis ekki hafa tök á að sitja fyrirhugaðan fund ráðsins 8.-11. mars. Salvör gagnrýnir í bréfinu hve skammur fyrirvarinn sé.
Salvör Nordal, sem var formaður stjórnlagaráðs, segist í bréfi til forsætisnefndar Alþingis ekki hafa tök á að sitja fyrirhugaðan fund ráðsins 8.-11. mars.

Salvör gagnrýnir í bréfinu hve skammur fyrirvarinn sé. Það sama gerði Örn Bárður Jónsson, fulltrúi í stjórnlagaráði, í samtali við mbl.is í gær. Sagðist hann ekki gera ráð fyrir að komast á fundinn í mars vegna annarra skyldustarfa og anna. Eins og fram kom í Morgunblaðinu í gær hyggst Pawel Bartoszek ekki taka þátt í fundinum. Hann er afar ósáttur við meðferð þingsins og óttast að lítið verði að marka þjóðaratkvæðið um málið í sumar.

Alþingi samþykkti á miðvikudag þingsályktunartillögu um að boða stjórnlagaráð til fjögurra daga vinnufundar í byrjun mars. Þar á ráðið að fjalla um spurningar og tillögur stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis að mögulegum breytingum á frumvarpi um stjórnskipunarlög.

Meirihluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis ætlar m.a. að senda stjórnlagaráði spurningar um stöðu forseta Íslands. Þá ræði stjórnlagaráð einnig hvort ítarlega útfært kosningakerfi eigi að vera í stjórnarskrá, hvort skoða þurfi betur þá þröskulda sem eru gagnvart því að hægt sé að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu og hvort minni hluti þings eigi að geta beðið um þjóðaratkvæðagreiðslu.

Í bréfi sínu til forsætisnefndar þingsins segir Salvör Nordal, að hún fagni því að Alþingi vilji gefa stjórnlagaráði tækifæri til að bregðast við tillögum þingnefndarinnar.

„Ég geri þó alvarlegar athugasemdir við það hversu fyrirvarinn er skammur og hversu óskýrt hlutverk fundarins er, bæði um hvað hann eigi að fjalla og hverju hann eigi að skila. Vert er að geta þess að ekkert samstarf var haft við stjórn stjórnlagaráðs við mótun þingtillögunnar,“ segir Salvör í bréfinu.

Fundurinn nýttur til samræðu

Hún segir að gert sé ráð fyrir að vinnufundur stjórnlagaráðs standi í fjóra daga sem sé afskaplega stuttur tími til að ræða flókin og vandasöm álitaefni stjórnskrárinnar.

„Mitt mat er því það að fundinn eigi fyrst og fremst að nýta til samræðu milli stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar við þá fulltrúa í stjórnlagaráði sem eiga heimangengt fremur en að kallað sé eftir breytingartillögum frá ráðinu með þessum stutta fyrirvara. Kjósi einhverjir innan stjórnlagaráðs að skila inn breytingartillögum til nefndarinnar að honum loknum geri þeir það í eigin nafni,“ segir Salvör Nordal.