Landsliðsæfing Hjálmar Jónsson og Skúli Jón Friðgeirsson á æfingu í Kórnum þegar Lars Lagerbäck var með æfingabúðir þar í janúarmánuði.
Landsliðsæfing Hjálmar Jónsson og Skúli Jón Friðgeirsson á æfingu í Kórnum þegar Lars Lagerbäck var með æfingabúðir þar í janúarmánuði. — Morgunblaðið/Golli
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fótbolti Kristján Jónsson kris@mbl.is Hjálmar Jónsson, knattspyrnumaður frá Egilsstöðum, er nú staddur í Japan þar sem karlalandsliðið í knattspyrnu leikur vináttulandsleik við Japan í dag klukkan 10:20.
Fótbolti

Kristján Jónsson

kris@mbl.is

Hjálmar Jónsson, knattspyrnumaður frá Egilsstöðum, er nú staddur í Japan þar sem karlalandsliðið í knattspyrnu leikur vináttulandsleik við Japan í dag klukkan 10:20. Um er að ræða fyrsta landsleikinn undir stjórn Svíans Lars Lagerbäcks og er Hjálmar í hópnum í fyrsta skipti í fjögur ár. Morgunblaðið spurði Hjálmar hvort hann hefði verið orðinn úrkula vonar um að komast aftur í landsliðið?

„Nei, kannski ekki alveg en ég hef svo sem ekki leitt hugann neitt sérstaklega að landsliðinu að undanförnu. Ég var ekki búinn að afskrifa það að ég myndi spila landsleik að nýju,“ sagði Hjálmar og sagði það alltaf jafn gaman að vera í landsliðshópnum. „Ég er stoltur yfir því.“

Spilar miðvörð hjá Gautaborg

Hjálmar sagði það ekkert rosalega frábrugðið öðru sem hann hefur kynnst að dvelja í Japan og búa sig undir knattspyrnuleik. „Það er svolítið spes að vera kominn hinum megin á hnöttinn til að spila leik. Við höfum ekki fundið fyrir því hvort heimamenn eru áhugasamir fyrir leiknum eða ekki. Mér skilst að það verði margir á leiknum og ég vona að það verði raunin. Ég hef heyrt það útundan mér,“ sagði Hjálmar sem leikur sem miðvörður með liði sínu Gautaborg.

„Ég hef svo sem ekki rætt það við hann (Lagerbäck) en á æfingunum hér og í æfingabúðunum heima þá hef ég spilað miðvörð og bakvörð. Ég spila miðvörð hjá mínu félagsliði en get einnig spilað sem bakvörður. Ég spila bara þar sem ég fæ tækifæri enda er betra að spila en að sitja á bekknum,“ útskýrði Hjálmar.

Orðspor Svíans

Hjálmar hefur búið í Gautaborg í áratug og segist ekki vera á heimleið á næstunni. „Maður veit svo sem aldrei en ég hef ekki hug á því að koma heim eins og staðan er í dag. Maður veit svo sem ekki hvað gerist í framtíðinni en ég á eitt ár eftir af samningi mínum við Gautaborg,“ sagði Hjálmar en Morgunblaðið spurði hann einnig út í orðspor Lars Lagerbäcks í heimalandinu.

„Það er mjög gott. Hann náði náttúrlega mjög góðum árangri með Svíþjóð og kom landsliðinu í úrslit í fimm stórkeppnum. Hann er ekki þekktur fyrir að láta á sér bera út á við en þetta er maður sem náði árangri og vill vinna og ég held að það sé aðalmálið. Hann einbeitti sér að sínu starfi og gerði það vel. Það var þvílíkt gott mál fyrir Svíana og landsmenn áttu margar góðar stundir yfir stórmótum á sumrin,“ sagði Hjálmar.

Líst vel á áherslurnar

Honum líst vel á áherslur Svíans varðandi íslenska landsliðið. „Mér líst mjög vel á þetta. Hann kemur með ákveðnar hugmyndir og skipulag inn í þetta sem mér líst vel á. Ég þekki þannig séð hans áherslur eftir að hafa fylgst með honum og sænska landsliðinu í nokkur ár. Ég þekki því hans leikstíl og fyrir mér er þetta því ekki alveg nýtt,“ sagði Hjálmar Jónsson ennfremur við Morgunblaðið.

Hjálmar Jónsson
» Tæplega 32 ára gamall varnarmaður sem leikið hefur með IFK Gautaborg í Svíþjóð síðan 2002.
» Hefur leikið 18 A-landsleiki fyrir Íslands hönd, síðast gegn Armeníu í febrúar 2008.
» Vináttulandsleikur Japans og Íslands hefst klukkan 10:20 í dag í Osaka.