Birkir Bjarnason
Birkir Bjarnason
Englandsmeistarar Manchester United skriðu áfram í 16-liða úrslit í Evrópudeild UEFA í knattspyrnu en Englandsmeistararnir lentu óvænt í basli gegn Hollandsmeisturum Ajax á Old Trafford í gærkvöldi.
Englandsmeistarar Manchester United skriðu áfram í 16-liða úrslit í Evrópudeild UEFA í knattspyrnu en Englandsmeistararnir lentu óvænt í basli gegn Hollandsmeisturum Ajax á Old Trafford í gærkvöldi. Eftir að hafa farið með sigur af hólmi í Amsterdam, 2:0, og komist í 1:0 eftir sex mínútna leik þegar Javier Hernandez skoraði héldu liðsmenn United að eftirleikurinn yrði auðveldur en annað kom á daginn. Ozbiliz jafnaði metin á 37. mínútu og þegar þrjár mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma greip um sig skjálfti á meðal stuðningsmanna United þegar Alderweireld kom Ajax í 2:1. Ajax þurfti eitt mark til viðbótar til að slá Englandsmeistarana út en liðinu tókst það ekki og United mætir spænska liðinu Athletic Bilbao í 16-liða úrslitunum.

Of margir ungir í öftustu varnarlínu

„Ég ber ábyrgð á liðsvalinu og ég var með of marga unga leikmenn í öftustu varnarlínu. Ég tók of mikla áhættu. Ajax er það sem það er, frábært lið sem heldur boltanum vel. Við náðum aðeins einu skoti á markið í seinni hálfleik,“ sagði sir Alex Ferguson, knattspyrnustjóri Manchester United, sem var ekki ánægður með framlag sinna manna.

Tvö Íslendingalið í 16-liða úrslitin

Tvö Íslendingalið komust áfram í 16-liða úrslitin. Birkir Bjarnason lék allan tímann fyrir belgíska liðið Standard sem gerði markalaust jafntefli við pólska liðið Wisla Kraká. Fyrri leiknum lyktaði með 1:1-jafntefli og því fór Standard áfram á útimarkareglunni. Birkir lék á miðjunni og fékk að líta gula spjaldið en Standard mætir þýska liðinu Hannover í 16-liða úrslitunum.

Jóhann Berg Guðmundsson sat á varamannabekknum hjá hollenska liðinu AZ Alkmaar allan tímann, en liðið lagði belgíska liðið Anderlecht á útivelli, 1:0, og samanlagt, 2:0. AZ mætir ítalska liðinu Udinese í 16-liða úrslitunum.

gummih@mbl.is