„Við viljum líka leggja okkar lóð á vogarskálarnar til að vekja athygli á framúrskarandi matarmenningu og hráefnum sem Íslendingar geta státað af,“ segir Martha Eiríksdóttir framkvæmdastjóri Kretitkortum hf.
„Við viljum líka leggja okkar lóð á vogarskálarnar til að vekja athygli á framúrskarandi matarmenningu og hráefnum sem Íslendingar geta státað af,“ segir Martha Eiríksdóttir framkvæmdastjóri Kretitkortum hf. — Morgunblaðið/Ernir
American Express verður bakhjarl Food & Fun. Tvöfaldir punktar í boði. Gæði og allur matur unaðslegur, segir Martha Eiríksdóttir hjá Kretitkortum hf.
Við viljum tengjast viðburðum sem hafa þýðingu fyrir viðskiptavini okkar og þeir geta notið góðs af. Við viljum líka leggja okkar lóð á vogarskálarnar til að vekja athygli á framúrskarandi matarmenningu og hráefnum sem Íslendingar geta státað af. Svo finnst okkur líka bara gaman að taka þátt í því að gera mannlífið hér skemmtilegt með uppákomum eins og Food & Fun,“ segir Martha Eiríksdóttir, framkvæmdastjóri Kretitkorta hf.

Á heimsmælikvarða

Vörumerki American Express verður kynnt sem bakhjarl Food & Fun. „Stór og alþjóðleg hátíð á vel við American Express enda er vörumerkið þekkt um allan heim,“ segir Martha. „Við ætlum að bjóða American Express-korthöfum upp á tvöfalda punkta þegar þeir greiða reikninginn sinn á Food & Fun. Umframsöfnun á Vildarpunktum hefur notið gríðarlegra vinsælda að undanförnu sem og kortið sjálft og korthöfum hefur fjölgað verulega milli ára.“

Food & Fun er mikilvæg kynning á íslenskum afurðum og því frábæra hráefni sem við höfum aðgang að,“ segir Martha. „Það er ekki sjálfgefið að geta boðið upp á fjölbreytt og ferskt úrval matvæla og við getum verið stolt af hráefninu okkar enda lofa útlendingar matinn okkar í hástert. Ég elska að bjóða útlendingum út að borða á Íslandi því maturinn, þjónustan og upplifunin er á heimsmælikvarða og svo fjölmargir úrvalsstaðir sem hægt er að velja úr,“ segir Martha sem kveðst hrifin af fjölbreytni í matargerð. Finnst gaman að prufa mismunandi rétti enda alin upp við að borða allan mat og þegar gæðin eru eins mikil og raun ber vitni þá er allur matur unaðslegur.

Allir brjóta blað

Martha segir margt áhugavert á dagskrá Food & Fun að þessu sinni og erfitt sé að gera upp á milli góðra veitingastaða og matreiðslumanna sem standa vaktina.

„Á svona sparidögum leggjast líka allir á eitt að brjóta blað. Gestakokkarnir á VOX hafa alltaf verið áhugaverðir og verið ofarlega í keppninni þannig að það verður spennandi að sjá hvernig Jakob Mielcke frá Danmörku kemur til með að ganga. Mér finnst tapasréttir ákaflega góðir þannig að Tapashúsið í samstarfi við Antonio Burell frá Bandaríkjunum kemur líka sterklega til greina.“ sbs@mbl.is